Meðlætið sem tryllir bragðlaukana

Ljósmynd/Hanna

Það er matarbloggarinn og keramiksnillingurinn Hanna sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem er meðlæti af bestu gerð. Við erum að tala um kartöflugratín sem stelur senunni frá aðalréttinum, ærir bragðlaukana og er heitasta umræðuefnið á kaffistofum dagana á eftir.

„Þessi réttur er bæði góður og þægilegur til að hafa sem meðlæti. Þegar hvítlaukur er soðinn mildast bragðið af honum þannig að það er langt í frá að það sé yfirgnæfandi hvítlauksbragð heldur bara mildur og góður hvítlaukskeimur. Hægt er að útbúa gratinið fyrr og þá er bara eftir að baka hann aðeins í ofni. Passar með ýmsum kjöt- og fiskréttum eins og t.d. Blálöngu úr Vesturbænum,“ segir Hanna um uppskriftina sem við hvetjum ykkur til að prófa.

Kartöflustöppugratin með hvítlauk

Upplagt að gera réttinn tilbúinn fyrr um daginn.

  • 1 – 1,2 kg kartöflur
  • 1 – 1½ hvítlaukur – smekksatriði en mér finnst gott að hafa mikið af honum
  • 50 – 100 g smjör
  • 1 dl matreiðslurjómi eða rjómi

Aðferð:

  1. Kartöflur flysjaðar eða ekki – smekksatriði hvort hýðið fær að fljóta með.
  2. Hvítlauksrifin flysjuð.
  3. Kartöflur og hvítlauksrif sett í pott með vatni og suðan látin koma upp – soðið á meðalhita í 20 mínútur.
  4. Kartöflur maukaðar ásamt hvítlauknum. Smjör og rjóma bætt saman við og blandað saman.
  5. Ofninn hitaður í 180°C (blástur).
  6. Kartöflustappan sett í edlfast fat (eða Hönnupott) og inn í ofn – með loki eða án. Fallegt að fá smá lit á stöppuna.
Ljósmynd/Hanna
mbl.is