Elskar að grilla fisk og grænmeti

Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson veitingamaður á Brút og Vínstúkunni tíu …
Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson veitingamaður á Brút og Vínstúkunni tíu dropar sviptir hulunni af sínum matarvenjum . mbl.is/Arnþór Birkisson

Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson, veitingamaður á Brút og Vínstúkan tíu sopar, er mikill lífskúnstner og matgæðingur. Ólafur svipti hulunni af matarvenjum sínum og uppáhaldsgrillmatnum sínum. Sjávarfang og fiskur er stór hluti af lífi Ólafs og sjávarfangið er einmitt sérstaða veitingastaðarins Brút.

Morgunverðurinn hans Ólafs er fjölbreyttur og býður bragðlaukunum upp á flug með skemmtilegum brögðum og áferðum. „Flat white með haframjólk á kaffi Ó-le, eða gott „slow pour“ uppáhelt kaffi heima. Með því er ýmist jógúrt með ávöxtum og múslí, ristað brauð með góðum osti og sultu eða nýbakað croissant.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Nei, borða mjög sjaldan á milli mála, og gleymi iðulega máltíðum, enda oftast að vinna við að gefa öðru fólki að borða á hefðbundnum matmálstímum. Hafandi sagt það þá fæ ég mér óþægilega oft pitsusneið á heimleið eftir vinnu seint um kvöld.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Nei, en mér finnst það mjög gaman.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Gríska jógúrt, osta, fleiri en eina tegund, sinnep og mér finnst voða gott að eiga flösku af víni þar líka.“

Hvað er uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Fiskur og grænmeti, ég elska að grilla sjávarfang og grænmeti. Bara núna um daginn,  þegar veðrið var skaplegt í hálfan dag, grillaði ég aspas, kúrbít, boc choi og steinbít. Enga sósu bara helling af góðri ólífuolíu og sítrónu.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Ég fer auðvita langoftast á Brút og Vínstúkuna, en mér finnst líka mjög gott að fara á Skál, Skreið, Sumac og Kastrup. En ef ég ætla að gera virkilega vel við mig með góðum fyrirvara þá fer ég í sparifötin og á Dill eða ÓX.“

Langar að borða hjá Josh Niland

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja og er á óskalistanum?

„Nei, ekki þannig, ég reyni að finna fiskiveitingastaði hvar sem ég er hverju sinni, yfirleitt er besti fiskurinn á frekar einföldum heiðarlegum stöðum ég er sæki í þá. Reyndar langar mig mjög mikið að fara og borða hjá Josh Niland, en hann er í Ástralíu svo ég læt mér nægja bækurnar hans.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

 „Nú, auðvitað hann, Raggi minn.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

 „Kampavín.“

Ertu góður kokkur?

„Já, ég held ég sé alveg liðtækur í eldhúsinu. Svo langar mig mikið til að við Íslendingar borðum meiri fisk,“ segir Ólafur að lokum.

mbl.is