Svona tekur þú slátur

Nú rétti tíminn til að taka slátur og vert að …
Nú rétti tíminn til að taka slátur og vert að kynna yngri kynslóðinni matarhefðirnar sem tengjast sláturtíðinni. Slátur er hollur og góður matur og einn sá ódýrasti sem völ er á. Samsett mynd

Nú sláturtíðin í fullum gangi og nýslátrað kjöt og innmatur streymir í matvöruverslanir. Til að mynda eru sláturmarkaður í gangi í Hagkaup þessa dagana, í Skeifunni og á Akureyri. Þar er hægt að fá allt sem til þarf fyrir sláturgerð. Hér áður fyrr var afar vinsælt að stórfjölskyldur tóku sig saman og tóku slátur. Heimagert slátur er ávallt best og síðan er líka svo gaman að halda í hefðirnar og viðhalda þeim. Kenna yngri kynslóðinni hvernig hægt er að nýta afurðirnar í sláturtíðinni og vera hagsýn enda er slátur ódýr, góður og hollur matur. 

Sviptum hulunni af uppskriftum Húsó

Nemendur í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík taka slátur á hverju hausti og hafa gaman að. Reynslan er sú að nemendum finnst þetta mjög áhugavert og skemmtilegt verkefni ásamt því að læra hvað er notað í lifrarpylsu og blóðmör. 

Við á matarvefnum fengum leyfi til að deila með ykkur lesendum uppskrift að blóðmör og lifrarpylsu að hætti Húsó. Nú sviptum við hulunni af uppskriftunum af slátrinu þeirra sem vert væri að prófa og um leið búa til skemmtilegar samverustundir með fjölskyldu og vinum. Hver vill ekki eiga nóg af blóðmör og lifrarpylsu í frystikistunni áður en vetur gengur í garð?

Blóðmör og lifrarpylsa að bestu gerð

Blóðmör

Fyrir 8 – 10

  • Einu slátri fylgir sviðahaus, 2 nýru, lifur, hjarta, mör, frosið blóð, vömb og keppur
  • 1 l blóð
  • 7 dl vatn
  • 2 msk. gróft salt
  • 400 g haframjöl
  • 500 g rúgmjöl
  • 500-600 g mör

Aðferð:

  1. Sigtið blóðið og blandið vatni og salti út í ásamt haframjölinu.
  2. Látið standa í smá stund á meðan saltið leysist upp og haframjölið blotnar.
  3. Setjið rúgmjölið út í ásamt mör og hrærið á meðan.
  4. Varist að gera hræruna of þykka.
  5. Felið upp, þ.e. setjið hræruna í keppina.
  6. Hafið þá rúmlega hálfa og saumið fyrir.
  7. Pikkið með nál lítil göt á hvern kepp og setjið í sjóðandi vatn með salti.
  8. Sjóðið í 2 ½ klukkustund.
  9. Það slátur sem á að frysta er sett í frystipoka en gott ráð er að hafa pokana flata með því að hafa þá á bökunarplötu, loka vel og setja strax í frost.

Lifrarpylsa

  • 2 lifrar
  • 4 nýru
  • 2 msk. gróft salt
  • 6 dl mjólk
  • 1 ½ dl heitt vatn og
  • ½ súputeningur
  • 300 g haframjöl
  • 400 g rúgmjöl
  • 300-400 g smátt skorinn mör 

Aðferð:

  1. Byrjum á mörnum
  2. Hvort sem gerð er lifrarpylsa eða blóðmör þarf að byrja á því að skera niður mörinn í hæfilega bita.
  3. Mælt er með því að skera hann ekki of smátt því þá geta þeir sem ekki vilja mikla fitu tekið bitana frá þegar slátrið er tilbúið.
  4. Ef kirtlar fylgja í mörnum eru þeir skornir frá og fleygt.
  5. Mörinn er síðan geymdur á köldum stað þar til hann er notaður.

Saumaskapur

  • Þar næst eru vambir og keppir teknir úr sláturkassanum og allt skolað.
  • Sníða má 4 til 5 keppi úr hverri vömb en keppirnir eru síðan saumaðir saman með sláturgarni og skilið eftir vænt op.
  • Geymið keppina á köldum stað á meðan lifrar- eða blóðmörshræran er löguð.

Aðferð:

  1. Himnuhreinsið lifur og nýru með því að klæða þau úr himnunni.
  2. Maukið í matarvinnsluvél. Setjið lifrarhræruna í rúmgott fat, blandið vökva, salti og haframjöli saman við.
  3. Látið standa í um 5 mínútur á meðan saltið leysist upp og haframjölið blotnar.
  4. Hrærið rúgmjöli og mör saman við og passið að hafa hræruna ekki of þykka.
  5. Lifrarhræran er höfð þykkari en blóðmörshræran.
  6. Gott er að setja örlítinn sykur út í hræruna, 1-2 tsk.
  7. Hálffyllið keppina og saumið fyrir með bómullargarni.
  8. Ágætt er að nota gamaldags rjómasprautu við að koma hrærunni fyrir.
  9. Pikkið með nál og setjið út í sjóðandi vatn, sjóðið í 2 ½ klukkutíma.
  10. Athugið að salta vatnið.
  11. Ef frysta á keppina eru þeir settir í plastpoka.
  12. Þegar slátur er tekið úr kistunni til suðu eru frosnu keppirnir settir út í heitt vatn með salti og soðnir í 3 klukkutíma.
  13. Ekki láta slátrið þiðna fyrir suðu.
  14. Þegar slátrið er fryst eru göt pikkuð á keppina þegar suðan kemur upp.
Júlía, Íris og Þórunn nemendur í Hússtjórnarskólanum höfðu virkilega gaman …
Júlía, Íris og Þórunn nemendur í Hússtjórnarskólanum höfðu virkilega gaman að því að taka slátur. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
Birna, Júlía, Stefanía, Hjördís Lára, Eydís Eir og Vigdís Hervör …
Birna, Júlía, Stefanía, Hjördís Lára, Eydís Eir og Vigdís Hervör mættu prúðbúnar í sláturgerðina með bros á vör. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
Allt gert eftir bókinni.
Allt gert eftir bókinni. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
Gott er að nota bala til að blanda hráefninun saman …
Gott er að nota bala til að blanda hráefninun saman í. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
Þegar búið er að gera blönduna er blanda fyllt í …
Þegar búið er að gera blönduna er blanda fyllt í keppina. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
Eitt af því skemmtilegasta er saumaskapurinn.
Eitt af því skemmtilegasta er saumaskapurinn. Ljósmynd/Hússtjórnarskólinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert