Rjúka út þrátt fyrir verðhækkun

Verð á svartsfuglseggjum hefur hækkað um hundrað krónur á milli ára og kosta þau nú 850 krónur stykkið. Þrátt fyrir verðhækkun seljast þau vel.

Í samtali við Morgunblaðið segir Pétur Alan Guðmundsson verslunarstjóri Melabúðarinnar að eftirspurn eftir eggjunum sé mikil og þau egg sem komi í búðina seljist um leið.

„Það er slegist um þetta, við eigum ekki nándar nærri nóg.“

Spurður út í verðhækkunina segir Pétur að ekki sé um mikla hækkun að ræða miðað við margt annað. Hækkun verðsins tengist þeirri vinnu sem fylgir þegar egg bjargfuglsins eru sótt.

„Þetta er bara vinna. Það eru ekki allir sem vilja vinna þessa vinnu, að síga í björg og annað. Það þarf tæki og tól. Það þarf bensín og olíur fyrir menn að keyra þangað, eins og út á Langanes, þaðan sem við fáum mest,“ segir Pétur og bætir við að eggjatínslan sé liggur við bara hobbí hjá mönnum sem hana stunda, svo lítill sé gróðinn sem eftir stendur.

Segir Pétur þá einnig að eggin geti skemmst í flutningum.

„Stærsta sendingin okkar var eiginlega öll ónýt, hún eyðilagðist í flutningum þannig að það var mikill missir. Því hafa færri fengið eggin en vildu,“ segir Pétur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert