Dýrðlegt laxa-taco með chili-hunangi

Dýrðlegt laxa-taco sem kemur úr smiðju Margrétar Ríkharðsdóttur með chili-hunangi …
Dýrðlegt laxa-taco sem kemur úr smiðju Margrétar Ríkharðsdóttur með chili-hunangi sem er heitasta dressingin í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hér er á ferðinni dýrðlegt laxa-taco með avókadó- og eplahrásalati, sýrðum lauk og chili-hunangi sem þú verður að prófa. Þessi uppskrift kemur úr smiðju Margrétar Ríkharðsdóttur matreiðslumeistara og yfirkokki á veitingastaðnum Duck & Rose. Uppskriftin hennar með leynisósunni og heilsteikta kjúklingnum sem birtist á matarvefnum síðasta föstudag sló heldur betur í gegn. 

Chili-hunang það heitasta í dag

„Það sem gerir þetta taco svo ljúffengt er chili-hunangið. Það fer sigurför um heiminn þessa daga og er að slá í gegn erlendis. Chili-hunangið er hægt að nota á allt, til dæmis sem dressingu yfir salöt, yfir kjúkling, með ostum og meira segja ofan á vanilluís. Þetta er það heitasta í matargerðinni í dag og blandan er fullkomin fyrir haustið og inn í veturinn,“ segir Margrét og bætir við að það sé ávallt gott að fá smá hita frá chili þegar farið að kólna úti. Margréti finnst best að byrja á hrásalatinu. „Ég notaði ferskt guacamole frá El taco truck þar sem avókadóið sem var í boði í búðinni var ekki tilbúið, það er líka fljótlegra að nota tilbúið. Síðan geri ég sýrða laukinn og laxinn og enda á hinu rómaða chili-hunangi,“ segir Margrét.

Unaður að njóta þessara kræsinga um helgina.
Unaður að njóta þessara kræsinga um helgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laxa-taco með avókadó- og eplahrásalati, chilihunangi og sýrðum lauk

Fyrir 4

  • Taco 4-6 tommu ( má gera ráð f. 2-3 á mann)
  • 1 kg af laxi úr veiðiferð sumarsins eða úr landeldi (má líka nota bleikju) skorið í munnbita stærð
  • 4 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. reykt paprikukrydd
  • 1 msk. sítrónublanda frá Mabrúka
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander til skrauts

Aðferð:

  1. Byrjið á því hita ofninn á 190°C með blæstri.
  2. Skerið laxinn niður í munnbitastærð.
  3. Setjið á fat með ólífuolíu og paprikukryddi ásamt sítrónublöndunni frá Mabrúka.
  4. Saltið og piprið eftir smekk og veltið saman.
  5. Setjið inn í ofn í 7-10 mínútur.

Avókadó- og eplahrásalat

  • ½ haus hvítkál eða iceberg smátt skorið eða rifið
  • 1 stk. grænt epli skorið smátt eða rifið
  • 4 msk. japanskt majónes eða létt majónes
  • 1 stk. avókadó fullþroskað maukað eða 1 dós af fersku guacamole
  • 1 lime börkurinn rifinn niður og safinn notaður (má taka aukalega til þess að kreista yfir)
  • 2 msk. jalapeno (úr krukku) smátt skorinn
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja majónes-ið, jalapeno-ið og guacamole í skál.
  2. Rífið börkinn af einu lime út í og kreistið síðan safann yfir blönduna.
  3. Skerið síðan hvítkál út í eða rífið.
  4. Bætið út í eplabitunum og blandið öllu vel saman.
  5. Smakkið til með salti og pipar.
  6. Setjið í fallega skál og leyfið því að taka sig á borðinu á meðan hinir réttirnir eru gerðir.
  7. Það má líka gera salatið deginum áður og geyma í kæli.

Chili-hunang

  • 2 dl hunang
  • 2 msk. tabasco-sósa eða önnur chili-sósa
  • 2 tsk. cayennepipar
  • ½ tsk. hvítlauksduft
  • ½ tsk. laukduft 

Aðferð:

  1. Á meðan laxinn er inn í ofni er gott að gera þessa blöndu.
  2. Setjið hunangið í pott ásamt tabasco-sósunni, cayennepiparnum, hvítlauks- og laukduftinu.
  3. Látið suðuna koma upp og lækkið þá hitann og leyfið að krauma í um það bil 2 mínútur. 

Sýrður laukur

  • 2 stk. rauðlaukur skorin í lítil lauf
  • ½ dl edik
  • 1 dl sykur
  • 1,5 dl vatn

Aðferð:

  1. Skerið laukinn í þunnar sneiðar eða lauf og setjið í lítinn pott með edikinu, sykri og vatni.
  2. Leyfið suðunni að koma upp og látið sjóða í 2-3 mínútur og slökkvið svo undir.
  3. Leyfið að vera í pottinum meðan laxinn er matreiddur og chili-hunangið er lagað.

Samsetning:

  1. Hitið tortillurnar í ofni eða á pönnu með smá olíu.
  2. Setjið fyrst hrásalat á tortillurnar, síðan laxinn og þar á eftir sýrða laukinn og loks chili-hunangið.
  3. Síðan er vert að skreyta með fersku kóríander og kreista fersku lime-safa yfir kræsingarnar.
  4. Berið fram og njótið.
Margrét Ríkharðsdóttir veit fátt skemmtilegra en að bjóða heim í …
Margrét Ríkharðsdóttir veit fátt skemmtilegra en að bjóða heim í mat og töfrar þá gjarnan fram nýjungar sem eru að slá í gegn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert