Fer með því hugarfari að vinna

Grétar Matthíasson sigraði í Íslandsmóti barþjóna í ár og er …
Grétar Matthíasson sigraði í Íslandsmóti barþjóna í ár og er nú á leið til Rómar að keppa í heimsmeistarakeppni barþjóna þar sem hann ætlar alla leið. mbl.is/Árni Sæberg

Heimsmeistaramót barþjóna fer fram með pomp og prakt í Róm dagana 28. nóvember til 2. desember. Fyrir Íslands hönd keppir Grétar Matthíasson, matreiðslu- og framreiðslumeistari, besti barþjónn landsins, en hann hefur unnið til fjölda verðlauna í faginu á undanförnum árum. 

Grétar, Íslandsmeistari barþjóna, keppir á heimsmeistaramóti barþjóna sem fram fer í Róm á Ítalíu í næstu viku. Grétar segist njóta sín í starfi sínu og hefur ávallt jafn gaman af að galdra fram ljúffenga kokteila fyrir gesti sína við hin ýmsu tilefni.

Grétar lærði til þjóns á Hilton og frá upphafi fannst honum barvaktirnar ávallt skemmtilegastar. „Ég var lengst á Grillmarkaðnum, eða í um það bil átta ár, og þar var ég í öllum helstu störfum sem tengdust þjónustunni og rekstrinum en fannst alltaf gaman að fara á bak við barinn og prufa nýja hluti sem komu upp í hugann hverju sinni,“ segir Grétar.

Langaði að keppa aftur og kom, sá og sigraði

Þátttaka Grétars í hans fyrstu barþjónakeppni átti eftir að hafa áhrif á framtíðina og Grétar fann sína hillu ef svo má að orði komast. „Þegar ég keppti í minni fyrstu barþjónakeppni árið 2016 vaknaði þessi blossandi áhugi á barþjóninum og eftir það lá leið mín í Barþjónaklúbb Íslands. Árið 2017 keppti ég síðan aftur og 2018 varð ég Íslandsmeistari. Síðan lá leiðin í heimsmeistarakeppni barþjóna 2018 í Tallinn í Eistlandi þar sem ég vann minn flokk og fékk gull í „Short drinks“. Eftir þetta bauð ég mig fram sem forseta Barþjónaklúbbs Íslands og var kosinn forseti klúbbsins. Í því hlutverki var ég þangað til ég gaf boltann áfram á núverandi forseta þar sem bæði var orðið mikið að gera í nýjum verkefnum hjá mér og mig langaði til að keppa aftur en forseti má til að mynda ekki keppa á Íslandsmeistaramótum. Ég tók aftur þátt í Íslandsmeistaramóti barþjóna í ár og sigraði í keppninni og er því á leiðinni til Rómar í næstu viku að keppa á heimsmeistarakeppni barþjóna með drykkinn minn „Candied lemonade“ sem er í flokki „After dinner“-drykkja sem eiga að koma í stað eftirrétta,“ segir Grétar og er fullur tilhlökkunar fyrir Rómarförinni. Grétar er hokinn af keppnisreynslu sem á eftir að nýtast honum vel en hann hefur tekið þátt í fjórum Íslandsmeistarakeppnum, heimsmeistarakeppni og Evrópukeppninni í ár og endaði þar í fjórða sæti.

Aðspurður segir Grétar að hann hafi verið mjög ungur þegar hann vissi hvert hugurinn stefndi. „Það kom mjög snemma upp hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór en fyrst lá alltaf leið í bakarann en eftir nokkra daga í bakaranum tók ég u-beygju og fór í kokkinn. Ég kláraði kokkinn og eftir rétt rúmlega ár í eldhúsinu lét ég verða af því að fara einnig í þjóninn þar sem mér fannst áhugavert að vera í kringum gestina og geta talað við þá.“

Alltaf fundist gaman bak við barinn

Grétar hefur ávallt haft ástríðu fyrir starfi barþjónsins. „Alveg frá fyrsta degi hef ég fundið ástríðuna fyrir faginu, mér hefur alltaf fundist gaman að vera á bak við barinn.“ Grétar segir að margt sé heillandi við starfið, eins og kokteilagerðin. „Ég myndi segja að hugmyndavinnan á bak við kokteilagerðina sé rauði þráðurinn í því hversu heillandi starfið er, að setja eitthvað saman sem svo verður að frábærum drykk.“ Þegar Grétar er beðinn um að lýsa sínum kokteilastíl stendur ekki á svörum. „Ég er oftast í sætari og klassískari stílnum og ég hef gaman af því að gera ávaxtaríka kokteila.“ Grétar segir að þeir hæfileikar sem góður barþjónn þurfi að búa yfir séu hugmyndaauðgi, gott bragðskyn og snyrtimennska. „Þetta þrennt skiptir máli.“

Grétari líður best bak við barinn að blanda kokteila fyrir …
Grétari líður best bak við barinn að blanda kokteila fyrir gesti sína. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlar að heilla dómnefndina upp úr skónum

Í heimsmeistarakeppninni sem fram fer í næstu viku verður eins konar flokkakeppni í forgrunni. Flokkarnir eru fimm talsins:

 • Before dinner cocktails
 • Sparkling cocktails
 • Long drink cocktails
 • Low abv (kokteilar sem innihalda lágt innihald vínanda en samt sem áður ekki óáfengir)
 • After dinner cocktails (flokkurinn sem Grétar keppir í)

Þrír efstu í þessum flokkum fara áfram í undanúrslit þar sem 15 keppa í lyktar- og bragðprófi, skriflegu prófi og hraðkeppni. Þrír efstu komast síðan í úrslit þar sem er keppt í „Mistery basket“ og besti kokteillinn í þessari lokakeppni vinnur heimsmeistaratitilinn.

Hvernig ætlar þú að heilla dómnefndina upp úr skónum?

„Auðvitað fyrst og fremst með því að gera frábæran drykk en síðan er framkoman og fagleg vinnubrögð sem ég hef í forgrunni stór hluti af heildarstigagjöfinni. Ég fer ávallt í keppni með því hugarfari að vinna hana.“

Skiptir hráefnið sem notað er máli?

„Já, það myndi ég segja, en við fáum ekki að ákveða hráefnin sjálf heldur þurfum að vinna út frá lista sem okkur er úthlutaður með öllu því áfengi sem verður í boði að nota ásamt sírópi.“

Þegar kemur að glasavali, skiptir máli í hvernig glösum drykkirnir eru bornir fram?

„Glös geta skipt miklu máli þegar kemur að heildarútkomu drykkjarins en þá aðallega hvernig skreytingin verður á glasinu.“

Grétar er orðinn mjög spenntur fyrir keppninni og vill að sjálfsögðu að allir fylgist með ferðinni. Aldrei áður hafa jafn margir farið á heimsmeistarakeppnina á vegum Barþjónaklúbbs Íslands og nú. Hátt í 20 manns fara frá Íslandi að þessu sinni sem sýnir hve mikið áhugi á kokteilagerð á Íslandi er að aukast og kokteilamenningin að blómstra.

Í tilefni þess að Grétar er að fara út deilir hann með lesendum eftirréttakokteilnum sínum, Candied lemonade, sem hann ætlar að heilla dómnefndina upp úr skónum með.

Draumkenndur og fallegur kokteillinn hans Grétars sem ber enska heitið …
Draumkenndur og fallegur kokteillinn hans Grétars sem ber enska heitið Candied lemonade. mbl.is/Árni Sæberg

Candied lemonade

Fyrir 1

 • 4 cl Luxardo Linochello
 • 1,5 cl Grand marnier
 • 2 cl ferskur sítrónusafi
 • 4 cl heimagert síróp úr Xanté

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið saman í kokteilhristara og hristið vel og lengi.
 2. Hellið í gegnum sigti í vel valið glas og skreytið með sítrusávöxtum.

Heimagert síróp

 • 500 ml Xanté perukoníak
 • 500 ml sykur
 • 250 ml kantalópusíróp
 • Vanillustöng
 • Kardimommur
 • Anísstjörnur

Aðferð:

 1. Setjið allt hráefnið saman í pott og sjóðið þar til sykurinn hefur bráðnað.
 2. Kælið síðan niður.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert