„Uppáhaldsbollastellið frá ömmu minni heitinni“

Nanna Ósk Jónsdóttir er mikið jólabarn og uppáhaldsstaðurinn á heimilinu …
Nanna Ósk Jónsdóttir er mikið jólabarn og uppáhaldsstaðurinn á heimilinu er eldhúsið. Eldhúsið er komið í jólabúninginn og hlutirnir hennar Nönnu eiga sér allir sinn stað. mbl.is/Eyþór Árnason

Nanna Ósk Jónsdóttir sælkeri með meiru sviptir hulunni af dásemdum eldhússins sem hún leggur mikið upp úr að hafa notalegt fyrir samverustundir fjölskyldunnar og þegar gesti ber að garði og fer óhefðbundnar leiðir til að ná því fram enda nýjungagjörn. Nanna er mikill orkubolti og er sjaldnast bara með einn bolta á lofti í einu og er m.a. að vinna í verkefnum fyrir Sjávarklasann.

Hún er tveggja barna móðir, athafnakona og frumkvöðull svo fátt eitt sé nefnt. Hún elskar að matreiða þegar hún hefur tíma, gefur sig þá alla í það og vill þá nostra við listina að búa til ljúffenga rétti og prófa sig áfram í alls konar matargerð. Nanna er búin að setja upp jólin í eldhúsinu sínu sem er uppáhaldsstaður fjölskyldunnar en þarna eyðir fjölskyldan mestum tíma saman.

Notendavænt og stílhreint eldhús

Ég legg mikið upp úr því að eldhúsið sé notendavænt og stílhreint. Ég uppfærði nýlega borðbúnaðinn í eldhúsinu, rjómahvítt með gylltri rönd frá HM Home, sem dóttir mín, sem er einstaklega smekkleg, benti móður sinni góðfúslega á. Það er einstaklega skemmtilegt að dekka upp með fallegum borðbúnaði og velja servíettur og annað skraut eftir þema. Hluti af upplifuninni og listinni að borða og reiða fram ljúffenga rétti. Í skápunum var nefnilega orðið heldur til mikið safn frá upphafi búslóðar, af samtíningi héðan og þaðan á 30 árum því ég er heldur nægjusöm. Ætti kannski að vera duglegri við að elta tískustrauma og endurnýja einu sinni á ári. Það væri nú vinsælt á heimilinu, segir Nanna og glottir.

Ég er afar ánægð með stóra og stílhreina ísskápinn minn, sem ég uppfærði nýlega þar sem að hinn bókstaflega gaf sig eftir 21 ár. Í þeim nýja er nóg af plássi og gaman að skipuleggja með glærum skipulagsboxum fyrir ávexti og grænmeti, þannig að allt sjáist vel t.d. hverju á að halda og henda. Ísskápurinn átti það nefnilega til hér áður að fara af stað og iða af lífi, segir Nanna og hlær.“

Nanna er nýbúin að uppfæra ísskápinn og er alsæl með …
Nanna er nýbúin að uppfæra ísskápinn og er alsæl með nýja skipulagið. mbl.is/Eyþór Árnason

Eldhúskrókurinn samverustaður fjölskyldunnar

Fyrir Nönnu er eldhúsið samverustaður fjölskyldunnar. „Fyrir utan allar helstu nauðsynjar sem eldhús þarf að vera útbúið, legg ég mikið upp úr því að eldhúsið  notalegt fyrir samverustundir. Ég var því með ákveðnar skoðanir á því hvernig eldhúskrókurinn ætti að vera hannaður þegar byggðum húsið fyrir 21 ári og og ég gjörbreytti grunnteikningum sem vorum með í höndum. Í eldhúskróknum er hægt að sitja við eldhúsborðið, hafa það huggulegt og ávallt eitthvað fallegt í augsýn. Ég gróðursetti gullregn fyrir framan eldhúskrókinn þar sem hægt er að njóta fegurðar þess út um gluggann og hafa það í augnsýn. Á sumrin gefur það falleg gul blóm og fuglarnir syngja á greinum þess og á veturna er það skreytt með jólaseríum sem unaður er að horfa á, oft með snævi þöktum greinum og birtan frá seríunum skín í gegn. Þetta er einn af mínum griðastöðum á heimilinu og við eldhúsborðið fæðast gjarnan margar hugmyndir í þessu hlýlega umhverfi, sem ég legg mikið upp úr,“ segir Nanna.

Fallegur bogadreginn glugginn lýsir upp borðkrókinn og jólaseríurnar fanga augað.
Fallegur bogadreginn glugginn lýsir upp borðkrókinn og jólaseríurnar fanga augað. mbl.is/Eyþór Árnason

Nanna er með fiskabúr í eldhúsinu með fallegum skrautfiskum sem fangar augað. „Ég legg mikið upp úr að velja vel og það er með ráðum gert. Ég hef átt fiska frá því ég man eftir mér, laðast að þeim og hef stúderað þá. Kannski að þetta hafi eitthvað með asísku genin mín að gera. Enginn annar í fjölskyldu minni eða í kringum mig hefur þetta. Þetta hefur ekkert með eldamennsku að gera en að mínu mati hefur það róandi áhrif að horfa á fiskana og þeir geta hreinlega dáleitt mann. Einhvers staðar heyrði ég að það boðaði gæfu í asískri trú, minnir mig kínverskri, að vera með fiskabúr í anddyri fyrirtækja. Það hlaut að vera, það boðar a.m.k. mikla friðsæld að vera með þetta fyrir framan sig, þegar vaknað er á morgnana og fólk mis árrisult. 

Í eldhúsinu er líka skrautfiskabúr sem gefur eldhúsinu mikið líf.
Í eldhúsinu er líka skrautfiskabúr sem gefur eldhúsinu mikið líf. mbl.is/Eyþór Árnason

Rjómasprautan ómissandi

Hvað finnst þér ómissandi að eiga í eldhúsinu?

Fyrir utan allt það nauðsynlega, finnst mér ómissandi að eiga rjómasprautu, því ég elska rjóma og vil hafa nóg af honum og getað haft hann tilbúin fljótt. Hvítlauksrifjárn, því ég er algjör aðdáandi hvítlauks og finnst auðveldara og fljótlegra að rífa hann niður en að pressa. Þá verða vera til alvöru beittir hnífar sem auðvelt er að matreiða með og vandaðar teflon pönnur sem auðvelt er að elda með. Kröftug kaffivél sem framleiðir gæðakaffi, mylur kaffibaunirnar í hvern bolla, þannig að hann sé ferskur og skilar því sjóðheitu. Síðan gerir gamli góði örbylgjuofninn kraftaverk á örfáum sekúndum og ég á eftir að fá mér nútíma sodastream-tæki sem hægt er að fá í fallegri hönnun annað en það sem hún amma mín, nafna mín heitin átti en gerði sannarlega sitt gagn þar sem hún gaf krökkunum og unglingunum límonaði með allskonar bragðtegundum. 

Áttu þér uppáhaldsglasalínu?

Nei, bara það sem mér finnst falleg hönnun hverju sinni og er ég þá sérstaklega fyrir stílhreina hönnun. 

Hvað finnst þér vera heitasta vetrartrendið í eldhúsið núna?

Ætli það séu ekki bara að hafa hlutina umhverfisvæna, flokka ruslið, sjálfbærni og engin matarsóun. A.m.k er ég búin að fara nokkrar ferðir í Ikea að reyna kaupa flokkunarruslatunnur og þær voru alltaf búnar, þangað til að það tókst í þeirri fjórðu. Þá er ég ekki frá því að ég hafi þyngst um þó nokkur kíló, því engu má að sjálfsögðu henda sem er matarkyns og treð ég alltaf of miklu á diskinn hjá mér.

Hvaða litur er heitastur í vetur?

Ég er voða mikið fyrir hvíta litinn og silfur.“

Uppáhaldsmatarstellið þitt?

Fína matarstellið mitt sem er tekið upp fyrir matarboð, hvítt postulín með silfurrönd frá DANKOTUWA. Fékkst í Borð fyrir tvo í Kringlunni, einu sinni. Sá svipað postulíns matarstell frá Ralph Lauren sem ég var líka afar hrifinn af.

Uppáhaldsmatarstellið komið á hátíðarborðið.
Uppáhaldsmatarstellið komið á hátíðarborðið. mbl.is/Eyþór Árnason

Uppáhaldshnífasettið?

Þessir flugbeittu sem hægt er að matreiða vel með og alltaf með nokkra til taks á eldhúsborðinu.“

Plast- eða viðarbretti?

Bæði en viðarbrettin eru að sjálfsögðu umhverfisvænni.“

Kröftug og framleiðir rótsterkt gæðakaffi

Ertu með kaffivél í eldhúsinu?

Já, eina kröftuga sem framleiðir yndis rótsterkt gæðakaffi, mylur kaffibaunirnar í hvern bolla, þannig að hann sé ferskur og skilar því sjóðheitu. Þetta er stóra og góða kaffivélin mín, Schaerer frá Sviss, mikið þarfaþing og hún malar ekki síður en kötturinn og það allan daginn, nautsterkt, sjóðandi gott kaffi. Hún móðir mín, sem er einstaklega praktísk, nægjusöm og skipulögð kona sem elskar heimilið sitt og fer vel með allt, var svo mikið yndi að gefa okkur þessa kaffivél sem er hreinlega eins og á bestu kaffihúsum. Nauðsynlegt til að koma vinnuvél mannslíkamans af stað á hverjum morgni, lífga við heilasellurnar og lífsnauðsynleg daginn eftir að mamma þarf að djamma,“ segir Nanna og hlær.

Áttu þér þinn uppáhaldskaffibolla?

„Já, þeir eru svo margir og ég á erfitt með að gera upp á milli. Ég ætti svei mér þá að tryggja þá, ef þeir ættu það til að brotna fyrir einhverjar sakir. Þeir eru svo margir af vandaðri gerðinni og mér þykir óhemjuvænt um fallegu hlutina mína, því þeir geyma minningar. Ég tek hálfgerðu ástfóstri við dauða hluti ef þeir hafa tilfinningalegt gildi fyrir mér. Er með hálfgerða söfnunaráráttu. Það vita allir sem þekkja mig. Í gamla daga fór fólk voða vel með hlutina sína, það var ekki til mikið af öllu og því ber ég ómælda virðingu fyrir. Að meta hlutina sem maður á og hugsa fallega um þá. Þannig leggur fólk líka rækt við sjálft  sig og jarðbindur sig, að mínu mati. Mér finnst það líka lýsa persónunni,“ segir Nanna.

Í mestu uppáhaldi kaffibollastellið úr eigu ömmu minnar heitinnar

Nanna er mjög hrifin af kaffibollum og safnar þeim. Skemmtilega við bollana hennar er að allir eiga þeir sér sögu. „Ég elska kaffibolla og þá sérstaklega ef það stendur eitthvað á honum sem veitir mér innblástur. Kaupi helst kaffibolla frá StarBucks sem eru merktir hverju landi fyrir sig, mjög sniðugir, ég kaupi expressó bollana. Síðan á ég stóran kakóbolla, hvítan, gylltan og bleikan sem á stendur „BUSY Being a MOM”, annar uppáhaldsbolli er hvítur og svartur með gylltu handfangi sem á stendur „ShowTime. Ég vel oft bolla eftir því hvernig skapi ég er í þann daginn og sá þriðji sem er líka uppáhalds, með upphafsstafnum mínum, N, gylltur, svartur og hvítur með mynstri eins og mósaíkflísum frá Anthropologie. Ég keypti glasamottu með upphafsstaf dótturinnar, M í stíl við bollann. Síðan kolféll ég fyrir fjórða bollanum út af elegant og skemmtilegri hönnun. Hann er eldrauður expressó kaffibolli með svörtu handfangi sem líður niður, hvítur að innan og inn í honum stendur Julius Meinl, Wien 1862. Hann vakti strax forvitni mína og mig langaði að vita meira um hann og hvaðan nafnið og ártalið vísaði í en Julius Meinl og ártalið vísar í stofnun eins elsta kaffiframleiðanda í heimi og er sögulegt kaffihúsamerki frá Vín í Austurríki. Bollinn er úr línu, hannaðri af ítölskum og áströlskum hönnuði að nafni Matteo Thun og er afar nútímalegur. Bollinn á sér fyndna sögu frá Flórída, sem einungis fjölskyldan veit af og verður ekki sögð hér. Fimmti bollinn er síðan handgerður postulínsbolli, hvítur og gyltur, úr gyltu línunni „Bambus” frá íslenska hönnuðinum Ingu Elínu. Gyllta baunin í botninum er algjör snilld.

Hér má sjá þrjá af uppáhaldsbollum Nönnu.
Hér má sjá þrjá af uppáhaldsbollum Nönnu. mbl.is/Eyþór Árnason

„Í mestu uppáhaldi verður þó alla tíð, postulíns expressó kaffibollastellið sem systir hennar mömmu gaf mér nýlega og hafði áður verið í eigu ömmu minnar heitinnar, nöfnu minnar, sem ég er skírð eftir og ég og mamma bjuggum hjá á Tunguvegi 98 í Bústaðarhverfinu þegar ég fæddist. Hún átti góð vinahjón í sömu raðhúsaröð, Jónda og Maddý. Maðurinn hennar var lengi vel, bílstjóri Davíðs Oddssonar. Skemmtilegar minningar frá Tunguveginum sem lifna við þegar mér voru gefnir bollarnir. Amma mín var mér eins og önnur móðir og líka besta vinkonan. Hún vildi gefa mér allt, sem ég vildi alls ekki þiggja en þessir bollar sem mér áskotnaðist nýlega, eru allir í mismunandi pastellitum, með gylltri rönd, botni og gylltu handfangi. Get ekki lesið á botninn á þeim, hvaðan þeir eru en svo gamlir eru þeir. Þá setti ég upp í gluggakistu til að hafa hana nöfnu mína alltaf nálægt mér.

Uppáhaldsbollastellið, postulíns expresso bollastellið frá ömmu Nönnu, heitinnar, fær sinn …
Uppáhaldsbollastellið, postulíns expresso bollastellið frá ömmu Nönnu, heitinnar, fær sinn stað í einni gluggakistunni. Þetta eru fallegir bollar í pastellitum og svo er einn af uppáhaldsbollum Nönnu sem fær að standa þarna með. mbl.is/Eyþór Árnason

Skipti fyrir í rauðar gardínur í aðdraganda jólanna

Breytir þú eldhúsinu eftir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?

„Já, mér finnst gaman að gera eldhúsið sumarlegt á sumrin, skipta um gardínur, hafa þær hvítar, hálf gegnsæjar og léttar til að hleypa birtunni inn. Þá kaupi ég gjarnan eitthvað í gulu, bleiku, túrkís bláu, litla vasa, vatnskönnur og glös. Ég prýði eldhúsið með litadýrð og blómin úr garðinum eru punkturinn yfir i-ið. Blómin í garðinum sem ég elska að rækta, þau færast inn á heimilið og þá sérstaklega eldhúsið, anddyri og stofu. Í aðdraganda jólanna skipti oft yfir í rauðar gardínur og eldhúsið og reyndar húsið allt, verður hálfgert jólahús. Þá eru seríur, rauður, glys og glitrandi tónar áberandi.“

Uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu?

Eldhúsborðið og við kaffivélina.“

Áttu þér drauma eldavél? Viltu gas eða spam?

„Ég er bara mjög sátt með mína og hrædd við gas.“

Ertu með kerti í eldhúsinu?

Viltu koma heim og telja?“ segir Nanna og hlær. Ég ætti að heita Kertasníkir. Ég gjörsamlega elska kerti eins og allir vita sem mig þekkja. Kerti og eldur eru eins og súrefni fyrir mig. Ætti að vera með ofurkrafta, með eld í höndum til að kveikja á öllum kertunum sem ég á, á heimilinu. Kveiki að meðaltali á 10 kertum á hverjum degi, víðs vegar um húsið. Eitt það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna, sumar eða vetur, skiptir ekki, kerti skal það vera með kaffibollanum ásamt að setja á góða djasstónlist. Næðisstund morgna til kvölds við kertaljós. Efst á óskalistanum, arinn inn í stofuna, búið að vera frá við byggðum eða í 21 ár og var gert ráð fyrir honum. Það er eitthvað svo róandi við kertaljós og birtuna og ilminum frá arninum. Ég er með ákveðna mynd í huga, þar sem ég ligg með bók og kakó í hendi við arineld. Ég er algjör nautnaseggur og lífskúnstner, arinn er ómissandi að hafa þó mig vant að sjálfsögðu ekki neitt.

Borðkrókurinn í eldhúsinu er uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu og Nanna leggur …
Borðkrókurinn í eldhúsinu er uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu og Nanna leggur mikinn metnað í að leggja fallega á borð. Ávallt er kveikt á kertum í eldhúsinu. mbl.is/Eyþór Árnason

Finnst þér skipta málið að leggja fallega á borð?

Já, ég hef virkilega gaman af því að leggja á borð, elska fallegan borðbúnað og fylgihluti. Er vanalega með þema  hverju sinni og hef haldið allskonar matarboð og veislur í gegnum tíðina. Flestir sem að þekkja mig, vita það og njóta góðs af. Ég er búin að leggja heilmikið inn hjá mörgum,“ segir Nanna og glottir.

Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?

Ég á flest sem eldhús þarf að hafa og er nægjusöm en úr því ég er svo nægjusöm, ætli það sé ekki komin tími á nýja eldhúsinnréttingu. Þessi Ikea innrétting er aldeilis búin að gera sitt gagn en við byggðum árið 2005. Margar spennandi nýjungar hafa komið síðan. Konur þurfa nú að hafa fínt í kringum sig,“ segir Nanna að lokum.

Litlu hlutirnir fá að njóta sín í eldhúsinu.
Litlu hlutirnir fá að njóta sín í eldhúsinu. mbl.is/Eyþór Árnason
Jólin eru alls staðar í eldhúsinu og ilmur af mandarínum …
Jólin eru alls staðar í eldhúsinu og ilmur af mandarínum fangar athyglina. mbl.is/Eyþór Árnason
Jólalegur bakki í eldhúsinu hjá Nönnu.
Jólalegur bakki í eldhúsinu hjá Nönnu. mbl.is/Eyþór Árnason
Fallegir hlutir sem lýsa boðskap jólanna fá að njóta sín …
Fallegir hlutir sem lýsa boðskap jólanna fá að njóta sín hjá Nönnu. mbl.is/Eyþór Árnason
Hunang og bismark brjóstsykur.
Hunang og bismark brjóstsykur. mbl.is/Eyþór Árnason
Uppskriftabækurnar hennar Nönnu fá líka að njóta sín í eldhúsinu …
Uppskriftabækurnar hennar Nönnu fá líka að njóta sín í eldhúsinu innan um hlutina. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert