Djúsí kanilsnúðar sem gleðja alla sælkera

Djúsí kanilsnúðar sem gleðja svo sannarlega alla sælkera.
Djúsí kanilsnúðar sem gleðja svo sannarlega alla sælkera. Ljósmynd/Guðrún Ýr

Hvað er betra en djúsí kanilsnúðar með kaffibollanum eða kaldri mjólk á góðum degi? Það er líka lag að koma færandi hendi í vinnuna og gleðja samstarfsfélaganna með nýbakað kanilsnúða sem bráðna í munni. Hér erum við með uppskrift að djúsi kanilsnúðum sem koma úr smiðju Guðrúnu Ýrar Eðvaldsdóttur sem er með uppskriftasíðuna Döðlur og smjör. 

Sjáið þessa dýrð!
Sjáið þessa dýrð! Ljósmynd/Guðrún Ýr

Djúsí kanilsnúðar

Deig

  • 250 ml mjólk
  • 3 tsk. ger
  • 600 g hveiti
  • 1 tsk. salt
  • 50 g púðursykur
  • 2 egg
  • 140 g smjör, við stofuhita 

Aðferð:

  1. Hitið mjólk í örbylgjuofni eða í potti þangað til hún er volg, bætið þá gerinu saman við og leyfið því að gerjast í 2-3 mínútur.
  2. Setjið þá þurrefnin saman í hrærivélarskál og blandið eggjum og mjólkinni varlega saman við. Hrærið varlega saman, bætið þá smjörinu smátt og smátt saman við.
  3. Hrærið vel saman á hægum hraða en gott að leyfa því að hrærast saman í 5-10 mínútur.
  4. Leyfið deiginu að hefast klukkustund eða þangað að til að það hefur u.þ.b. tvöfaldast í stærð.
  5. Hitið ofninn á 180°C þegar deigið hefur náð að hefast.
  6. Fletjið deigið út u.þ.b. 60×40 cm og dreifið fyllingunni jafn yfir (sjá uppskrift fyrir neðan).
  7. Rúllið deigið upp og skerið í u.þ.b. 2 cm breiða snúða.
  8. Raðið þeim í eldfast mót og leyfið þeim að hefast aftur í 30 mínútur með viskastykki yfir.
  9. Setjið inn i ofn og bakið í 25 til 30 mínútur eða þangað til að snúðarnir eru fullbakaðir.
  10. Leyfið snúðunum að kólna lítillega og dreifið síðan kreminu (sjá uppskrift fyrir neðan) yfir, bestir enn volgir en svo sannarlega góðir líka kaldir. 

Fylling

  • 200 g púðursykur
  • 150 g smjör
  • 2 msk. kanill 

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í skál og bræðið örstutt í örbylgjuofni og hrærið vel saman, leyfið að hvíla við stofuhita meðan deigið er að hefast.

Krem

  • 200 g rjómaostur
  • 100 g flórsykur
  • 50 g hlynsíróp

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í hrærivélarskál og þeytið í 3-5 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert