Ofurhollar bananapönnsur að hætti Dagnýjar

Dagný Berglind Gísladóttir ljóstrar hér upp sínum uppáhaldsmorgunverði sem eru …
Dagný Berglind Gísladóttir ljóstrar hér upp sínum uppáhaldsmorgunverði sem eru ofurhollar bananapönnsur sem sonur hennar elskar líka. mbl.is/Árni Sæberg

Á dögunum skoraði Eva Dögg Rúnarsdóttir á vinkonu sína og samstarfskonu, Dagnýju Berglindi Gísladóttur, að taka við keflinu af sér og ljóstra upp sínum uppáhaldsmorgunverði eða rétti. Dagný sem er þekkt fyrir að töfra fram girnilega morgunverði tók áskoruninni fagnandi og ljóstrar hér upp sínum uppáhaldsmorgunverði.

Fyrstu 40 dagarnir eftir fæðingu mikilvægir

Dagný er annar eigandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual en hún og Eva Dögg eiga fyrirtækið saman. Rvk Ritual rekur fallegt stúdíó á Seljaveginum þar sem haldnir eru ýmsir viðburðir sem eru tengdir jóga og vellíðan, þær halda einnig úti vinsælum netnámskeiðum í hugleiðslu og sjálfsvinnu og framleiða hreina snyrtivörulínu af kremum á andlit og líkama. Dagný er nýkomin í fæðingarorlof og er að einbeita sér að því að næra sig vel. „Fyrstu 40 dagana eftir fæðingu er mikilvægt að nærast, hvílast og tengjast til að líkaminn jafni sig vel og svo að brjóstagjöf gangi vel,“ segir Dagný. 

„Ég lít á fyrstu 40 dagana eftir fæðingu sem heilagan tíma þar sem móðir á að hvílast, einbeita sér að því að tengjast barninu sínu og nærast vel. Ég á gott fólk í kringum mig sem er búið að hjálpa mér fyrstu dagana með því að færa mér heimagerðan og næringarríkan mat en reyni svo sjálf að gera einfaldan en dúndur hollan mat, allt sem er hægt að borða með einni hendi, svo að ég geti haldið á litlu dúllunni minni með hinni,“ segir Dagný með bros á vör.

Lærimóðir mín Solla Eiríks

Ástríða þín er í eldhúsinu og matargerð, hvaðan færðu innblásturinn? 

„Þó að ég borði „allt“ nú til dags, þá elska ég grænmeti og grænmetismat framar öllu og það er og verður alltaf meirihlutinn á disknum mínum. Ég trúi því heitt að maturinn sé meðalið og því vil ég borða til að vera hraust og líða vel. Ég myndi segja að lærimóðir mín í eldhúsinu sé hún Solla Eiríks. Ég vann hjá henni á Gló lengi vel og hef alltaf elskað hvernig hún getur gert hollan mat að gúmmelaði og hef mikið stuðst við hennar bækur og uppskriftir í eldhúsinu. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir þær öflugu konur sem ruddu brautina hér heima í grænmetis- og heilsufæði eins og Sollu, Gunnhildi Á Næstu Grösum og fleiri fyrirmyndum sem komu fleiri brögðum og nálgun inn í matarflóru landans.“ 

Freistingar að horfa á þessar dásamlegu bananapönnsur.
Freistingar að horfa á þessar dásamlegu bananapönnsur. mbl.is/Árni Sæberg

Ofurhollar bananapönnsur fyrir okkur son minn

Ertu til í að ljóstra upp uppskrift að þínum uppáhaldsmorgunverði eða hádegisverði?

„Um helgar þá vil ég helst hafa það sérlega huggulegt en á sama tíma koma góðri og fjölbreyttri næringu ofan í fjögra ára son minn. Það sem verður oftast fyrir valinu eru heimagerðar glútenlausar og ofurhollar bananapönnsur og hvolpasveita-þeytingur. Þá velur hann karakter úr hvolpasveitinni og við gerum saman þeyting í þeirra einkennis lit. Þá bý ég til grunn fyrir þeyting oftast úr banana, hampfræjum, kókosvatni og reyni að passa hlutföllin á hindberjum til að fá bleikan fyrir Pílu-þeyting, nota blátt spirulina fyrir Kappa-þeyting, ananas og mangó fyrir Kögg, trönuberjasafa og jarðarber fyrir Bersa og grænan sem er minn uppáhalds, fyrir Rikka, því þá næ ég spínati, avókadói og alls kyns grænu ofan í minn mann.“

Á hvern viltu skora næst til að taka við kefl­inu af þér og svipta hul­unni af sín­um upp­á­haldsmorg­un­verði fyr­ir les­end­ur mat­ar­vefjar­ins?

„Mig langar að skora á Örnu Engilberts, sem heldur úti ótrúlega fallegu grænmetis matarbloggi sem heitir Fræ.com sem ég elska.“

Sírópið fær að njóta sín með.
Sírópið fær að njóta sín með. mbl.is/Árni Sæberg

Ofur hollar bananapönnsur

Fyrir 2-3

 • 4 lífræn egg
 • 2 bananar
 • 2-4 skeiðar möndlusmjör
 • Smá kanill 

Meðlæti

 • Bláber eftir smekk
 • Síróp
 • Hnetusmjör

Aðferð:

 1. Stappið niður banana með gaffli og blandið svo öllu saman með handþeytara.
 2. Hitið kókosolíu á pönnu.
 3. Þegar pannan er orðin nógu heit, skammtið þá deigi á pönnuna.
 4. Steikið báðum megin á lágum til miðlungshita upp úr kókosolíu.
 5. Berið fram með bláberjum, sírópi og hnetusmjöri og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert