Hátíðlegur innbakaður lax á spínatbeði

Guðbjörg Glóð Logadóttir er þekkt fyrir sína dýrindis fisk- og …
Guðbjörg Glóð Logadóttir er þekkt fyrir sína dýrindis fisk- og sjávarrétti sem eiga vel við yfir hátíðarnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðbjörg Glóð Logadóttir, stofnandi og eigandi Fylgifiska, er mikill matgæðingur. Hefðbundin jól hjá henni snúast um matargerð og samveru fjölskyldunnar.

Guðbjörgu langar að fara nokkur skref til baka svo allir nái að njóta jólanna betur, en þessi jól verður hún stödd erlendis svo þetta verða öðruvísi jól hjá henni en áður. Guðbjörg deilir með lesendum nokkrum af sínum uppáhaldsuppskriftum sem eiga vel við yfir hátíðirnar og ekki síður á aðventunni.

Ertu jólabarn?

„Já og nei, mér finnst jólin skemmtilegur tími og mikilvægur til þess að lífga upp á mesta vetrarþungann, hins vegar finnst mér umfang jólanna fyrir löngu farið úr böndunum og vildi óska þess að við tækjum nokkur skref til baka. Jólin eru í grunninn eru hátíð ljóss og friðar en sá boðskapur verður undir í kappinu um að kaupa og gera sem mest. Kannski er mest við mína stétt að sakast því kaupmenn keppast við að selja sem mest á þessum árstíma. Afgreiðslutími verslana verður sífellt lengri en gríðarlegur fjöldi fólks í búðunum sýnir að við erum flest meðsek í látunum. Mér þykja jólin yndisleg en vildi óska að aðdragandinn væri ekki svona ákafur,“ segir Guðbjörg einlæg.

Humarsúpan hluti af mínum jólum

Heldur þú í ákveðnar hefðir og venjur hvað viðkemur hátíðarmatnum um jól og áramót?

„Sem barn ólst ég upp við að pabbi útbjó stóran pott af humar- eða fiskisúpu sem við fengum sem forrétt á aðfangadag og gátum svo farið í og fengið okkur yfir jólin. Súpan varð sífellt betri því oftar sem hún var hituð upp svo að humarsúpan frá Fylgifiskum er hluti af mínum jólum því þótt hún sé ekki á matseðlinum á aðfangadag þá finnst mér fátt jólalegra en að fá mér rjómalagaða humarsúpu og brauð á jóladagsmorgun. Önnur jólatengd matarhefð er að mamma bakar lagköku með súkkulaðikremi sem við köllum Randalínu og gefur okkur. Mjólkurglas og randalína eru mikil jól fyrir mér,“ segir Guðbjörg og brosir. Aðspurð segir Guðbjörg að það sé hreindýrið sem hringi inn jólin á aðfangadag núna. „Barnsfaðir minn kenndi okkur að meta hreindýr og þótt hann sé ekki lengur í fjölskyldunni þá hefur þessi siður haldist og ég er ár eftir ár beðin að hafa hreindýr á aðfangadag, sem ég geri glöð því það er fátt sem bragðast betur en mjúkt og gott hreindýrakjötið. Afganginn er tilvalið að setja í tartalettur og eiga til upphitunar yfir hátíðirnar. Hér áður fyrr var ég með alltaf með fisk í forrétt eins og til dæmis humarsúpu, ceviche, ostrur, reyklaxarúllu á laufabrauði, graflax eða hörpuskel í sítrónusmjöri svo eitthvað sé nefnt en undanfarin ár höfum við látið aðalrétt og eftirrétt duga.“

Humarsúpan hjá Fylgifiskum er ómótstæðilega ljúffeng er partur af jólunum …
Humarsúpan hjá Fylgifiskum er ómótstæðilega ljúffeng er partur af jólunum hennar Guðbjargar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stórfjölskyldan borðar saman um áramótin

Hvernig lítur hátíðarmatseðillinn þinn út um áramót?

„Áramótin hafa einkennst af því að prófa eitthvað nýtt í matargerð svo það er nánast aldrei það sama í matinn hjá okkur um áramótin. Pabbi kom þeirri hefð á hjá okkur því hann var mikið á móti hefðum,“ segir Guðbjörg og hlær. „Við systkinin eigum því öll voðalega erfitt með að viðurkenna ef við erum farin að gera eitthvað að hefð því það er eiginlega bannorð innan fjölskyldunnar. Um jólin eru allir heima hjá sér en um áramót borðum við stórfjölskyldan saman. Áður en börnin okkar fæddust höfðum við oft fondú sem er mjög skemmtilegt borðhald og þá var sett alls konar góðgæti í pottinn, kjöt, fiskur og grænmeti. En eftir að krökkunum fjölgaði höfum við oftast valið eitthvert þema og komum hvert með sinn rétt eða meðlæti og borðum saman alls konar spennandi mat enda matargerð mikið áhugamál innan fjölskyldunnar.“

Hvort ertu hrifnari af því að vera með sjávarfang eða kjötmeti?

„Mér finnst nauðsynlegt að blanda. Fiskur, fuglar, kjöt og grænmeti; allt er þetta gott ef vel er gert.“

Innbakaði laxinn fangar bæði auga og munn og er sannkallaður …
Innbakaði laxinn fangar bæði auga og munn og er sannkallaður hátíðarmatur til að njóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðum í Víetnam

Þessi jól verða öðruvísi hjá Guðbjörgu en vant er. „Ég verð erlendis yfir jól og áramót svo þetta verða óhefðbundin jól hjá mér og syni mínum en aðventan er tilvalin fyrir samverustundir með fjölskyldu og vinum. Ég vil því deila með lesendum Morgunblaðsins uppskriftum sem hægt er að bjóða upp á við alls kyns tækifæri yfir aðventuna. Einn vinsælasti hátíðarrétturinn sem við seljum í Fylgifiskum er innbakaður lax. Ég ætla að deila uppskriftinni okkar með ykkur því það komast ekki allir í Fylgifiska um jólin. En líka uppskrift að jólalegu spínatsalati sem ég fann einhvers staðar fyrir mörgum árum og smellpassar með laxinum en gengur að sjálfsögðu með alls konar mat. Og loks uppskrift að döðlusultu með perum og eplum sem ég geri nánast fyrir hver jól því hún er mjög góð með reyktu kjöti, hvítu fuglakjöti og með ostum. Mér finnst því gott að eiga hana til að grípa í. Sultuna gaf ég eitt árið í jólagjöf því hún er tilvalin gjöf handa matgæðingum.“

Spínat- og perusalatið á vel við á aðventunni og það …
Spínat- og perusalatið á vel við á aðventunni og það er eitthvað svo jólalegt við salat með perum og granateplafræjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innbakaður lax Fylgifiska á spínatbeði með sítrónu- og basilmauki

Fyrir 4

  • 700 g vel snyrtur, roðlaus, beinlaus lax (gott að þerra hann vel)
  • 1-2 pk. smjördeig
  • 2 lúkur spínat eða eftir smekk
  • 100 g rjómaostur
  • 40-50 g ferskt basil
  • börkur af einni sítrónu (eða 1 msk. sítrónuolía)
  • pipar og salt eftir smekk
  • 1 egg til að pensla

Aðferð:

  1. Búið til eina heild úr smjördeiginu sem dugar til að pakka inn laxinum.
  2. Setjið spínat fyrst á deigið.
  3. Piprið og saltið laxinn eftir smekk og leggið ofan á.
  4. Saxið basil og setjið ofan á laxinn.
  5. Smyrjið rjómaostinum ofan á og raspið yfir börk af einni sítrónu.
  6. Pakkið inn í deigið og lokið með gaffli. Penslið svo yfir með hrærðu eggi.
  7. Laxinn er hægt að gera áður og eiga í frysti. Bakið í forhituðum ofni við 170°C í 35 mínútur.

Spínat- og perusalat

Salat

  • 1 pk. spínat eða annað gott salat
  • 150 g saxaðar valhnetur eða pekanhnetur (gott að léttrista á pönnu)
  • 1 stk. granatepli (skiljið fræin frá og notið þau)
  • 100 g fetaostur, gott að nota kubb (brjótið í minni bita)
  • 100 g trönuber
  • 2 stórar og vel þroskaðar perur (skrælið og skerið í bita)

Dressing

  • 3 msk. eplaedik
  • 9 msk. ólífuolía
  • 3 msk. dijon-sinnep
  • 3 msk. hunang
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Allt sett í skál og hrært saman þar til dressingin þykknar.

Samsetning

  1. Setjið spínatið í skál og svo annað saman við. Endið á að hella dressingunni yfir.

Döðlusulta með eplum og perum

  • 500 g þroskaðar perur, skornar í bita
  • 225 g döðlur, skornar í bita
  • 225 g rauðlaukur, skorinn í bita
  • 1 stórt epli, skorið í bita
  • 150 g púðursykur
  • 1 tsk. kanill
  • 300 ml eplaedik

Aðferð:

  1. Skrælið og kjarnið perur og epli og saxið í litla bita. Skerið rauðlauk og döðlur í bita.
  2. Setjið allt innihald í pott ásamt helmingi af ediki.
  3. Sjóðið í 30 mínútur við vægan hita þar til allt er orðið mjúkt og hrærið reglulega í á meðan.
  4. Bætið afganginum af edikinu saman við og sjóðið í aðrar 30 mínútur eða þar til maukið er orðið þykkt.
  5. Setjið í krukkur og kælið.
Döðlusultan með eplum og perum er fullkomin gjöf fyrir sælkerann …
Döðlusultan með eplum og perum er fullkomin gjöf fyrir sælkerann sem kann gott að meta. Jólakeimur kemur með hverjum munnbita. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert