Peruterta, þessi gamla góða

Albert Eiríksson sælkeri með meiru kolféll fyrir þessari perutertu sem …
Albert Eiríksson sælkeri með meiru kolféll fyrir þessari perutertu sem minnir hann á ungdómsárin. Samsett mynd

Perutertur voru hér áður fyrr í öllum barnaafmælum og mörgum fermingarveislum. Þær hurfu síðan á braut en eru að koma aftur sterkar inn. Það sem einkennir peruterturnar er að botnarnir voru mjúkir og gegnblautir. Albert Eiríksson, sælkeri og matarbloggari, fékk nostalgíukast þegar hann rakst á eina slíka á fésbókinni og fékk uppskriftina og deildi með lesendum sínum á heimasíðu sinni Albert eldar.

„Þegar ég sá á fésbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið,“ segir Albert.

„Það er ekki lyftiduft í uppskriftinni minni en það má örugglega bæta við 1 teskeið ef fólk vill,” segir uppskriftahöfundurinn Borghildur Jóna á Stöðvarfirði.

Vert er að láta þess getið að það er til Hið íslenska Perutertufélag á fésbókinni og er gaman að skoða síðu þess og uppskriftirnar sem þar er að finna.

Peruterta

Botnarnir

  • 4 stk. egg
  • 140 g sykur
  • 60 g hveiti
  • 40 g kartöflumjöl
  • ½ tsk. salt

Aðferð:

  1. Þeytið saman egg og sykur.
  2. Bætið við hveiti og kartöflumjöli og hrærið vel saman.
  3. Setjið deigið í tvö kringlótt form, 22-24 cm að stærð.
  4. Hitið ofninn í 200°C.
  5. Setjið formin inn í ofn og bakið í tíu mínútur.

Súkkulaðikrem

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk. flórsykur
  • 100 g súkkulaði, brætt
  • 4 dl rjómi
  • 1 stór dós niðursoðnar perur

Aðferð:

  1. Þeytið vel saman eggjarauður og flórsykur.
  2. Bætið súkkulaðinu varlega saman við.
  3. Stífþeytið rjómann og setjið varlega saman við.
  4. Setjið annan botninn á tertudisk, vætið vel í honum með safanum, setjið helminginn af súkkulaðirjómanum á og nokkrar perur sem eru skornar í helminga, hinn botninn yfir og vætið með safanum.
  5. Dreifið úr því sem eftir er af súkkulaðirjómanum yfir og raðið perunum á.
  6. Sprautið þeyttum rjóma á hliðarnar og ofan á að vild.
  7. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert