Hraðlestin gefur skóla 20 milljónir

Chandrika Gunnarsson afhenti skólanum styrkinn fyrr í vetur.
Chandrika Gunnarsson afhenti skólanum styrkinn fyrr í vetur.

Chandrika Gunnarsson, eigandi og framkvæmdastjóri veitingahúsakeðjunnar Hraðlestarinnar, færði SKS-barnaskólanum í Kodlipet í Coorg-héraði á Suður-Indlandi styrk að andvirði 20 milljónir króna skömmu fyrir jól. Stórfjölskylda hennar hefur byggt upp skólann frá grunni og Hraðlestin hefur verið mikilvægur bakhjarl, en þessi styrkur er að stórum hluta ágóði af sölu matvöru Hraðlestarinnar í verslunum hérlendis frá 2019.

Skólinn var stofnaður að frumkvæði fjölskyldu Chandriku 2002 og nú eru um 400 fimm til sautján ára nemendur í honum. „Við stofnuðum skólann og höfum stutt hann alla tíð,“ segir hún. Hraðlestin hafi útbúið indverskar vörur eins og naan-brauð, vefjur, kryddsmjör, sultur og sósur og hafi þær verið til sölu í Krónunni, Melabúðinni og víðar síðan haustið 2019. „Ýmist 50 eða 100 krónur af sölu hverrar vöru renna til skólans. Rekstur hans er fjármagnaður með frjálsum framlögum og Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum með því að kaupa þessar tólf vörutegundir, sem við framleiðum.“

Stórfjölskylda Chandriku hefur byggt upp skólann.
Stórfjölskylda Chandriku hefur byggt upp skólann.

Mikilvægur stuðningur

Coorg-hérað er þekkt fyrir kaffi- og kryddræktun og fjölskylda Chandriku hefur verið umsvifamikil í kaffiframleiðslu. Í Kodlipet búa tæplega 4.000 manns. Chandrika fæddist og ólst upp í smáþorpi skammt frá og fór í enskan einkaskóla í Bangalore þegar hún var fimm ára. Hún segir að rekstur Hraðlestarinnar og Austur-Indíafjelagsins hafi gengið vel og hún hafi viljað láta gott af sér leiða í sinni heimabyggð. Mikil fátækt sé í þorpunum, sem séu í allt að 50 km frá skólanum, litlir möguleikar séu til náms og skólinn gegni því mikilvægu hlutverki. „Ísland er mitt heimaland, hér hef ég haft heiður af því að kynna indverska matarmenningu í 30 ár og okkur hefur alltaf þótt mikilvægt að gefa til baka til staðarins sem var innblástur alls þessa. Ánægjulegt er að geta stuðlað að aðstoð Íslendinga á Indlandi með því að þeir kaupi indverskar matvörur.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 22. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert