Byrja nýr og glæsilegur morgunverðarstaður í veitingaflóruna

Hjónin Christina Rae og Vigfús Blær Ingason opnuðu morgunverðarstaðinn Byrja …
Hjónin Christina Rae og Vigfús Blær Ingason opnuðu morgunverðarstaðinn Byrja í janúar þar sem lögð er áhersla á fjölbreytan matseðil, góða þjónustu og hlýja stemningu fyrir alla fjölskylduna. Samsett mynd

Byrja er nýr og glæsilegur morgunverðarstaður sem opnaði á Selfossi í lok janúar og hefur hlotið verðskuldaða athygli. Byrja er staðsettur að Austurvegi 3, í Krónuhúsinu á Selfossi. Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil þar morgunverðarréttirnir eru í forgrunni. Eigendur staðarins eru hjónin Vigfús Blær Ingason og Christine Rae.

„Við stofnuðum veitingastaðinn Byrja eftir að hafa velt þessu fyrir okkur í nokkur ár, það má segja að þetta sé sameiginlegur draumur hjá mér og konunni minni Christine en við kynntumst fyrir 8 árum síðan,“ segir Vigfús og bætir við að þau búi á Selfossi og eigi tvær litlar og hressar stelpur.

Eitthvað nýtt og ferskt í veitingaflóruna

Þegar Vigfús er spurður út tilurð þess að þau hjónin ákváðu að opna morgunverðarstað segir hann að hugmyndin hafi blundað í þeim í nokkurn tíma. 

„Christine er frá Kanada og hefur unnið í veitingabransanum í um 20 ár og sjálfur er ég uppalinn á Selfossi og er með sterka tengingu við veitingageirann, enda alinn upp á veitingastöðum sem pabbi kom að alveg frá því að ég man eftir mér. Við erum mikið matarfólk og okkur langaði að opna okkar eigin stað þar sem blandað er saman þægilegri stemningu og góðri þjónustu en okkur langaði einnig að koma með eitthvað nýtt inn í veitingaflóruna hér á Selfossi. Við lögðum mikla vinnu og pælingar varðandi matseðilinn en erum einnig ótrúlega ánægð og heppin að fá Alexander Wiium matreiðslumann til liðs við okkur sem hefur hjálpað okkur að gera draumamatseðil að veruleika.“

Innblásturinn kom frá heimabæ Christine

Segðu okkur aðeins frá hvar fengu þið innblásturinn, hvað keyrði ykkur áfram til að opna staðinn ykkar?

„Í heimabæ Christine í Kanada er t.a.m. „local diner“ sem bæjarbúum þykir vænt um og heimsækja mjög reglulega. Þegar við fluttum á Selfoss fyrir nokkrum árum þá fannst okkur vanta nákvæmlega svona stað, og eftir að börnin okkar fæddust þá sáum við að það væri gott að komast inn á svona stað sem væri gott að fara út að borða með börnin með sér. Á endanum þá tvinnuðum við þetta saman og úr varð Byrja,“ segir Vigfús og brosir.

Við opnuðum síðan þann 26. janúar síðastliðinn. Við tókum viljandi svokallaða „hljóðláta opnun“. VIð auglýstum ekkert, við tókum bara úr lás og vildum fá að prófa okkur aðeins áfram en þetta var fljótt að spyrjast út og það er búið að vera alveg vitlaust að gera síðan við opnuðum og viðbrögðin frá bæjarbúum hafa verið hreint út sagt ótrúlega góð.“

Er saga bak við nafnið á staðnum ykkar, Byrja?

„Við vorum alveg hörð á því að skíra staðinn íslensku nafni. Við opnum snemma á daginn og bjóðum upp á fyrsta flokks morgunmat og gott kaffi. Hér er gott að Byrja daginn,“ segir Vigfús og er stoltur af nafninu.

Bjóða upp á heitan morgun- og hádegisverðarseðil

„Það má segja að sérstaða staðarins sé tvíþætt, en fyrst og fremst þá opnum við snemma á morgnana, klukkan 7 á virkum dögum og klukkan 8 um helgar, við bjóðum upp á heitan og góðan morgun- og hádegisverð en einnig er hægt að taka með sér í vinnuna eða bílinn. Costa kaffið er alltaf heitt á könnunni og svo koma heilu fjölskyldurnar til okkar því að leikhornið laðar að yngri kynslóðina, ömmur og afar með og allir fá eitthvað við sitt hæfi.“

Boðið er upp á girnilega morgunverðarrétti, bæði heita og kalda.
Boðið er upp á girnilega morgunverðarrétti, bæði heita og kalda. Ljósmynd/Byrja

Þegar kemur að matargerðinni þá er lögð áhersla á fjölbreytnina og vera með eitthvað fyrir alla. „Það er þessi blanda af fjölbreytni og einfaldleika. Við erum verulega stolt af matnum okkar, við gerum sósurnar okkar sjálf sem gera klassíska rétti eins og t.a.m. „Caesar salat“ að okkar eigin.

Segðu okkur aðeins frá hönnuninni og útlitinu á staðnum sjálfum.

„Við vildum hafa bjarta og þægilega stemningu. Litirnir okkar eru blár og gulur sem má sjá inn á milli á staðnum. Svo erum við í samstarfi við listamenn sem setja upp sín verk á veggina,“ segir Vigfús.

Hvernig hefur staðurinn gengið frá opnuninni?

„Viðbrögðin hafa frábær alveg frá upphafi og það er sérstaklega ánægjulegt að sá heimamenn koma til okkar aftur og aftur. Erlendir ferðamenn eru einnig farnir að streyma inn í inn í bland við heimamanninn og úr myndast þessi skemmtilega blanda af íslensku og erlendu, já sem passar svo vel við okkur Christine,“ segir Vigfús og bætir við: „Við hlökkum til að vera á vaktinni og taka á móti gestum á öllum aldri og endilega fylgist vel með því við munum að vera með alls konar viðburði á kvöldin, eitthvað fyrir alla.“

Alls konar súrdeigssamlokur eru í boði.
Alls konar súrdeigssamlokur eru í boði. Ljósmynd/Byrja

Vinsælustu réttirnir morgunverðarveislan og „Crispy Caesar“ vefjan

Ertu til í að deila með lesendum matarvefsins og segja frá hver er vinsælasti rétturinn á matseðlinum?

„Í morgunmatnum er það „Morning Glory“ eða morgunverðarveislan okkar sem er einn allsherjar morgunverðardiskur með eggjum, beikoni, pylsum, bökuðum baunum, brauði, ávöxtum, kartöflubátum og pönnukökum. Í hádeginu er það „Crispy Caesar“ kjúklingavefjan sem hefur slegið í gegn, þar er sósan í aðalhlutverki sem Alexander gerir.“

Morgunverðarveislan er vinsælasti morgunverðarrétturinn á matseðil.
Morgunverðarveislan er vinsælasti morgunverðarrétturinn á matseðil. Ljósmynd/Byrja

Eruð þið til í að svipta hulunni af einhverri uppskrift að rétti á matseðli?

Avocado Toast“ er einn af réttum sem eru vinsælir hjá okkur. Rétturinn er saman settur svona: „Vel ristað súrdeigsbrauð, ofan á það er lagt vel þroskað avókadó í sneiðum, kryddað til með salti og pipar, síðan eru ferskar tómatsneiðar lagðar ofan á, síðan er spælt egg sett yfir, loks er klettasalati dreift yfir og vel af aioli-majónesi.“

Réttirnir eru fallegar framreiddir fyrir augu og munn.
Réttirnir eru fallegar framreiddir fyrir augu og munn. Ljósmynd/Byrja
Barnahornið nýtur mikilla vinsælda en mikið er lagt upp úr …
Barnahornið nýtur mikilla vinsælda en mikið er lagt upp úr í hönnun staðarins að hafa hann fjölskylduvænann. Ljósmynd/Byrja
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert