Ítalskt melanzane alla parmigiana

Ekta ítalskt melanzane alla parmigiana þar sem eggaldin er í …
Ekta ítalskt melanzane alla parmigiana þar sem eggaldin er í aðalhlutverki ásamt tómötum og mozzarella osti. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Þessi réttur kemur úr smiðju Hönnu Thordarson keramiker og ástríðukokki og er í uppáhaldi hjá Dagnýju vinkonu hennar. Hér er á ferðinni ítalskt melanzane alla parmigiana þar sem eggaldin er í aðalhlutverki ásamt tómötum og mozzarella osti. „Við lærðum að búa hann til á matreiðslunámskeiðinu í Flórens hér um árið. Það hefur verið lengi á dagskrá að setja inn uppskriftina að þessum rétt inn á uppskriftasíðuna mína Hanna.is en þar sem heimilisfólkið átti erfitt með að sannfærast um ágæti réttarins varð hann alltaf undir.  En viti menn svo kemur í ljós að hann þykir bara nokkuð góður.  Það má mæla með þessum rétti, sérstaklega fyrir þá sem eru grænir og vænir en líka hina,“ segir Hanna.

Melanzane alla parmigiana

 • 2-3 meðalstór eggaldin, skorin í þunnar sneiðar (langsum eða þversum)
 • 40 g hveiti, sett á disk
 • 400 g sólblómaolía
 • 500 g tómatar, niðursoðnir eða ferskir, gott að nota tómata sem liggja undir skemmdum
 • 200 g mozzarella ostur, aðeins kreistur og skorinn í smá bita
 • Ólífuolía eftir smekk
 • Salt eftir smekk
 • 10-15 basillauf, söxuð.  Einnig má nota þurrkað basil
 • 2-4 hvítlauksrif, söxuð
 • Parmesanostur, rifinn fínt

Aðferð:

 1. Veltið eggaldinsneiðunum létt upp úr hveitinu, ágætt að dusta hveitið aðeins af, þá verður það síður eftir í olíunni þegar það er steikt.
 2. Setjið olíu í djúpa pönnu eða pott og hitið, gott að stinga hitamæli í olíuna til að sjá hvenær réttu hitastigi er náð þ.e. 180° – 200°C
 3. Steikið eggaldinsneiðarnar á báðum hliðum. Athugið olían þarf alls ekki að vera svo mikil bara þannig að sneiðarnar nái að steikjast vel. 
 4. Þær eru tilbúnar þegar þær hafa náð gulbrúnum lit. 
 5. Leggið sneiðarnar á eldhúspappír þegar þær eru tilbúnar og stráið salti yfir.

Sósan

 1. Setjið saxaðan hvítlauk ofan í heita pönnu eða pott með olíu í, og hrærið.
 2. Bætið tómötum og hluta af basil við.
 3. Látið malla í 15 mínútur.
 4. Hitið ofninn í 180°C

Samsetning:

 1. Setjið fyrst er lag af tómatmauki í eldfast fat eða í Hönnupott má setja bæði í efri og neðri hlutan). 
 2. Dreifið eggaldinsneiðum yfir og síðan mozzarellabitum
 3. Stráið að lokum parmesanosti yfir. 
 4. Síðan aftur, tómatmauk, eggaldin, mozzarella, parmesan. Þegar 3 – 4 lög af eggaldini eru komin endið þið með tómatmauki og parmesanosti.
 5.  Það er svolítið smekksatriði hversu margar eggaldinsneiðar eru settar í hvert lag, þær geta verið mjög þétt saman eða ekki þétt saman, fer eftir smekk hvers og eins.
 6. Bakið í ofni í 20-25 mínútur.
 7. Njótið með þeim sem elska ítalskan mat eldaðan ástríðu og natni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka