Ævintýralega góðar sítrónubollakökur

Gullfallegar sítrónubollakökur sem grípa augað og eru hinar fullkomnu páskakökur …
Gullfallegar sítrónubollakökur sem grípa augað og eru hinar fullkomnu páskakökur sem boða sumarið. Ljósmynd/Ruth Ásgeirsdóttir

Hér eru á ferðinni ævintýralega góðar sítrónubollakökur sem eiga einstaklega vel við páskahátíðina. Þær eru sumarlegar og ferskar og guli liturinn er skírskotun í páskana.

Heiðurinn af þessum dýrðlegu bollakökum á Ólöf Ólafsdóttir eftirréttadrottningin knáa, konditori, pastrychef og landsliðskokkur. Fyrr í vetur gaf hún út bókina Ómótstæðilegir eftirréttir sem sló í gegn fyrir jólin. Ólöf er nýkomin heim frá Stuttgart í Þýskalandi þar sem hún tók þátt í Ólympíuleikunum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu og liðið stóð sig framúrskarandi vel eins og vel hefur komið fram á matarvef mbl.is.

Eftirréttadrottningin Ólöf Ólafsdóttir ætlar að bjóða upp á ævintýralega bragðgóðar …
Eftirréttadrottningin Ólöf Ólafsdóttir ætlar að bjóða upp á ævintýralega bragðgóðar og fallegar sítrónubollakökur um páskana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlakka til að skreyta á næsta ári

Aðspurð segir Ólöf að hún og fjölskylda hennar haldi í ákveðnar gamlar hefðir í tengslum við páskana í bland við nýjar. „Það er langoftast páskalamb hjá okkur í matinn á páskadag ásamt páskaeggjaleitinni sem að hittir beint í mark,“ segir Ólöf og bætir við að það verði þí lítið skreytt í ár. „Ég er vön að skreyta fyrir páskana en eins og er erum við í miðjum húsaframkvæmdum en ég hlakka til að skreyta á næsta ári í nýja húsinu okkar.“

Eftirréttadrottning segist ávallt fá sér páskaegg og það sé hluti af páskastemningunni. „Við elskum klassíska Nóa Síríus rjómasúkkulaði páskaeggið en ég er líka orðin spennt fyrir lakkríspáskaeggi. Hér áður fyrr þurftum við að leita af páskaeggjunum okkar en páskaeggjaleitin hjá Ásu frænku er mér einstaklega minnisstæð. Hún faldi og fyllti garðinn af páskaeggjum sem við krakkarnir leituðum síðan að og keppst var um að fá sem flestu páskaeggin. Ógleymanlegar minningar og mun ég klárlega halda þessa hefð með mínum börnum,“ segir Ólöf.

Bragðgóðar og grípa augað

Ólöf ætlar að baka sítrónubollakökur um páskana sem hún heldur mikið upp á. „Þessar bollakökur kalla inn páskana og er frábær upphitun fyrir sumarið og þær eru einnig fullkomin skreyting fyrir páskaborðið, þær eru nefnilega ekki bara bragðgóðar heldur grípa þær augað líka. Þær eru litríkar, páskalegar og fullkomnar í veislur eða matarboð um páskana.“

Ævintýralegar sítrónubollakökur

8–10 kökur, fyrir 6–10

Lemon curd

  • 130 g sítrónusafi
  • 70 g sykur
  • 2 msk. kókosrjómi
  • Gulur matarlitur
  • Smá salt
  • 2 msk. maíssterkja
  • 2 msk. mjúkt smjörlíki

Aðferð:

  1. Hitið sítrónusafa, sykur, kókosrjóma, matarlit, salt og maíssterkju í potti við vægan hita. Hrærið stöðugt þar til blandan þykknar.
  2. Takið blönduna af hellunni og leyfið henni að kólna í 5 mínútur.
  3. Bætið smjörlíkinu við og hrærið þar til það er komið saman við.
  4. Setjið lemon curd í skál og síðan inn í kæli til að kólna.

Bollakökur

  • 150 g hveiti
  • 65 g sykur
  • 2 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. salt
  • 70 g sojamjólk
  • 60 g sítrónusafi
  • Rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 60 g vegan jógurt
  • 90 g brætt smjörlíki
  • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Vigtið öll blautefni saman í skál eða könnu.
  2. Blandið öllum þurrefnunum saman í hrærivélarskál.
  3. Hellið blautu efnunum í þremur skömmtum saman við og hrærið.
  4. Skafið með fram köntum skálarinnar með sleikju inn á milli svo allt blandist vel saman. Setjið deigið í bollakökuform og bakið í 180°C heitum ofni í 20–25 mínútur eða þangað til að þær eru orðnar gullinbrúnar.
  5. Leyfið bollakökunum að kólna, gerið litla holu í miðjuna á þeim með teskeið og setjið lemon curd í miðjuna.
  6. Munið að skilja eftir 30 g af lemon curd fyrir kremið.

Krem

  • 200 g mjúkt smjörlíki
  • 400 g flórsykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1–1½ msk. sojamjólk
  • Gulur matarlitur
  • 30 g lemon curd

Í skreytingu

  • Þurrkuð ætisblóm að eigin vali
  • Basilíkulauf

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið þar til það er orðið ljóst.
  2. Bætið flórsykri saman við og haldið áfram að þeyta.
  3. Að lokum er sojamjólkinni ásamt vanilludropunum bætt saman við.
  4. Þetta er þeytt í rúmar 5 mínútur.
  5. Bætið lemon curd og gula matarlitnum saman við og þeytið aftur. Kremið á að vera ljóst og létt.
  6. Setjið kremið í sprautupoka með stjörnusprautustút og sprautið því á bollakökurnar.
  7. Ólöf skreytti bollakökurnar sínar með þurrkuðum blómum og basilíkulaufum.
  8. Berið fallega fram og njótið við huggulegheit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert