Síðasti veitingastaður Gló skellir í lás

17 ára rekstrarsögu veitingarstaðarins Gló lýkur í dag þegar skellt …
17 ára rekstrarsögu veitingarstaðarins Gló lýkur í dag þegar skellt verður í lás í Fákafeni. Samsett mynd

Veitingastaðurinn Gló hættir starfsemi í dag, miðvikudaginn 27. mars eftir 17 ára rekstrarsögu. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins í dag. Þar kemur einnig fram að í staðinn mun veitingastaðurinn Saffran taka við en vörumerkið Gló verður þó enn til staðar.

„Við þökkum ykkur kærlega fyrir viðskiptin í gegnum árin,“ segir í auglýsingu Gló á Facebook.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa og eigandi Gló, segir í samtali við Viðskiptablaðið að í síðasta mánuði hafi verið tekin ákvörðun um að einfalda rekstur staðarins. „Eftir samtal við Saffran þá fannst okkur þetta góð lending. Gló lifir áfram sem vörumerki og verða vinsælustu skálarnar hjá Gló í boði á Saffran,“ segir Gréta í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins.

Solla opnaði fyrsta staðinn árið 2007

Sólveig Eiríksdóttir, alla jafna kölluð Solla Eiríks, stofnandi veitingastaðakeðjunnar, opnaði fyrsta veitingastaðinn undir merkjum Gló árið 2007 í Listhúsinu að Suðurlandsbraut. Með opnun í Fákafeni árið 2015 voru veitingastaðir Gló orðnir fjórir talsins.

Veitingastaðurinn Gló naut mikilla vinsælda fyrir holla og lífræna rétti. Ásamt kjúklingaréttum var Gló leiðandi um tíma í þróun grænmetis- og veganrétta hér á landi. Síðar fór hollustuveitingastaðurinn að horfa til götumatar-rétta, meðal annars með skálar.

Gló opnaði veitingastað í kjallaranum á verslunarhúsinu Magasin du Nord í Kaupmannahöfn árið 2017 og hafði áform um frekari stækkun í Kaupmannahöfn. Veitingafélagið var jafnframt komin með augun á Svíþjóð. Solla Eiríks hafði áður viðrað hugmyndum um að opna Gló veitingastað í Los Angeles.

Hjónin Birgir og Eygló keyptu 50% hlut árið 2014

Eins fram kemur í Viðskiptablaðinu þá keyptu hjónin Birgir Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir 50% hlut í Gló árið 2014 í gegnum fjárfestingafélagið Eyju. Árið 2017 eignuðust þau meirihluta í veitingastaðakeðjunni samhliða útrásinni í Danmörku. Tveimur árum síðar keyptu þau 30% eftirstandandi hlut Sollu og eignuðust þar með félagið að fullu.

Skeljungur eignaðist allt hlutfé

Sumarið 2021 eignaðist Skeljungur allt hlutafé í Gló veitingum ehf. eftir að hafa keypt 25% hlut í félaginu ári áður. Við uppstokkun á samstæðu Skeljungs, sem heitir í dag Skel fjárfestingarfélag, tók Orkan við eignarhaldi Gló og síðasta sumar var samið um kaup Heimkaupa, sem Skel á 81% hlut í, á Gló ásamt öðrum verslunar- og veitingasölueignum Orkunnar.

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Gló veitinga nam velta félagsins 178 milljónum árið 2022 sem var 3,8% samdráttur frá fyrra ári. Rekstrartap félagsins fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam rúmum 8 milljónum árið 2022 samanborið við 16 milljóna rekstrarhagnað árið áður.

Eignir félagsins námu voru bókfærðar á 72 milljónir króna í árslok 2022 og eigið fé var um 55 milljónir.

Hægt er að rifja upp eignarhald staðarins á vef Viðskiptablaðsins hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka