Skotheldur núðluréttur með tófú og grænmeti

Einfaldur, fljótlegur og ódýr núðlurétur með tófú og grænmeti.
Einfaldur, fljótlegur og ódýr núðlurétur með tófú og grænmeti. Ljósmynd/Valla Gröndal

Núðluréttir eru einfaldir, bragðgóðir og almennt frekar ódýrir réttir. Þessi réttur er svo sannarlega einn af þeim og sérlega gott að útbúa til þess að taka með sér í nesti í vinnuna. Heiðurinn af þessum góða núðlurétti á Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla Gröndal, sem heldur úti uppskriftasíðunni Valla Gröndal.

Valla notar tófú með núðlunum en tófú er þægilegur og ódýr valkostur og hentar sérstaklega vel í asíska rétti. Það virkar í raun eins og svampur og hægt að nota hvaða marínerningar og sósur sem er með því. Hoisin-sósa eins og hún notar hér hentar einstaklega vel og Valla valdi að hafa fíngerðar eggjanúðlur í réttinum og vel af grænmeti og er sannarlega fátt sem getur klikkað.

Hoisin-núðlur með tófú og grænmeti

 • 1 kubbur tófú (firm, fæst í öllum búðum í grænmetiskælinum)
 • 1 msk. maizena-mjöl
 • 200 g fínar eggjanúðlur frá Blue dragon
 • 1 msk. sesamolía frá Blue dragon
 • 1 geiralaus hvítlaukur, fínt saxaður
 • 4 cm bútur af fersku engifer, fínt saxaður
 • 4 vorlaukar, skerið hvíta hlutann frá og skerið í þunnar sneiðar
 • 1 lítill laukur, þunnt sneiddur
 • 1 stór gulrót, skorin í fíngerða strimla
 • ½ stór rauð paprika, skorin í fíngerða strimla
 • ¼ lítill hvítkálshaus, þunnt sneiddur
 • Ristuð sesamfræ

Hoisin-sósa – marínering

 • 2 msk. dökk sojasósa (eða venjuleg)
 • 2 msk. japönsk sojasósa frá Blue dragon
 • 2 msk. hoisin-sósa frá Blue dragon
 • 1 msk. hrísgrjónaedik frá Blue dragon
 • 1 msk. sriracha-sósa
 • 1 msk. hunang

Aðferð:

 1. Takið tófúið úr plastinu og skerið það langsum í 3 sneiðar.
 2. Setjið þykkt lag af eldhúsbréfi eða samanbrotið hreint viskastykki á bretti.
 3. Raðið tófússneiðunum á og leggið annað viskastykki eða pappír yfir.
 4. Setjið eitthvað mjög þungt ofan á. Ég notaði steypujárnspott og lóð.
 5. Pressið tófúið í 30 mínútur, ágætt er að færa til eða skipta um pappír þegar helmingurinn af tímanum er liðinn.
 6. Með þessu er vökvinn pressaður úr því og það verður þá stökkara og tekur betur við maríneringu.
 7. Setjið öll innihaldsefni í sósuna í skál og setjið til hliðar.
 8. Takið þessar 3 sneiðar af tófúinu og skerið þær í 1 cm kubba og setjið í skál. Setjið 2 msk. af sósunni og veltið tófúinu upp úr henni.
 9. Látið marínerast í 15 mínútur. Gott er að nota tímann þá til þess að skera grænmetið.
 10. Stráið maizena-mjölinu yfir tófúið og veltið saman.
 11. Setjið sesamolíu á pönnu og hitið vel. Steikið tófúið á pönnunni þar til það fer að brúnast, setjið til hliðar.
 12. Setjið smávegis af sesamolíu á pönnuna og steikið engiferið, hvítlaukinn, hvíta hluta vorlauksins og laukinn þar til laukurinn fer að mýkjast.
 13. Bætið þá paprikunni, hvítkálinu, græna hlutanum af vorlauknum (gott að skilja smá eftir sem skraut ef vill) og gulrótinni saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.
 14. Sjóðið núðlurnar í 4 mínútur og bætið út á pönnuna ásamt sósunni og steikta tófúinu. Smakkið til. Ef þið viljið er hægt að bæta við smávegis af soja- eða hoisin-sósu.
 15. Berið fram með ristuðum sesamfræjum og vorlauk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka