Verður þetta heitasti líkjörinn í sumar?

Þristalíkjörin sló í gegn á opnunarhátíð Reykjavík Cocktails Weekend í …
Þristalíkjörin sló í gegn á opnunarhátíð Reykjavík Cocktails Weekend í Hörpu á miðvikudaginn síðastliðinn. Samsett mynd

Stórfréttir bárust á opnunarhátíð Reykjavík Cocktails Weekend þegar alíslenskur líkjör leit dagsins ljós. Það ætlaði allt að verða vitlaust við frumsýningu líkjörsins og gestir og gangandi hópuðust að til að gæða sér á þessum dýrindis líkjör. Þessi líkjör kemur úr herbúðum Hovdenak Distillery ehf. og ber heitið Þristalíkjör.

„Við fengum með okkur í lið Sanbó sem framleiðir þjóðþekktu vöruna Þristur og Örnu á Bolungarvík með laktósalausu mjólkina sína, úr þessu varð til Þristalíkjör sem mun líta dagsins ljós á árinu. Við frumsýndum vöruna á Reykjavík Cocktails Weekend í Hörpu með miklum látum og svakalegum undirtektum. Líkjörin verður ekki mikið íslenskari en þetta,“ segir Hákon Freyr Hovdnenak.

Ilmurinn frá sælgætisgerðinni Sanbó lá yfir hverfinu

Aðspurð segir Hákon að tilurðin að þessari nýjung eigi rætur sínar að rekja til æskustöðvanna og ánægju þeirra að vinna með öðrum. „Við höfum mjög gaman af því að vinna með öðrum fyrirtækjum, síðast gerðum við kaffilíkjörinn Rökkva með Te & Kaffi, nú var orðið tímabært að bæta við nýjum líkjör,“ segir Hákon. „Ég ólst upp í Árbænum þar sem að ilmurinn frá sælgætisgerðinni Sanbó lá yfir hverfinu, síðan þá held ég að súkkulaði og lakkrís lyktin sé innprentuð í nefið á mér. Þannig það kom ekkert annað til greina en að búa til Þristalíkjör með þessu frábæra fólki hjá Sanbó. Svo til að bæta við samstarfið vildi ég endilega nota laktósalausa mjólk frá Örnu á Bolungarvík,“ segir Hákon með bros á vör.

Viðtökurnar fram úr öllum væntingum

Viðtökurnar hafa farið langt fram úr öllum væntingum og ljóst að Þristalíkjörinn er að slá í gegn. „Það er búið að rigna yfir okkur símtöl, tölvupóstur og skilaboð á Facebook og Instagram miðlunum okkar eftir að við frumsýndum vöruna í Hörpunni á miðvikudaginn síðastliðinn á opnunarhátíð Reykjavík Cocktail Weekend, þar sem við vorum saman með Samtökum íslenskra eimingarhúsa að kynna vörurnar okkar.“

Hvenær er von á því að hægt sé að nálgast Þristalíkjörin?

„Í augnablikinu erum við að bíða eftir að fá flöskur undir vöruna svo við getum hafið framleiðslu, við vonum að það gerist sem allra fyrst, því spennan eftir vörunni er gríðarleg. Fyrir Þrista-þyrsta hvetjum fólk til að fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum þar sem við munum tilkynna það þegar og hvar varan verður fáanleg,“ segir Hákon að lokum.

Gestir og gangandi runnu á ilminn í smakk.
Gestir og gangandi runnu á ilminn í smakk. Ljósmynd/Hákon Freyr
Ljósmynd/Hákon Freyr
Ljósmynd/Hákon Freyr
Ljósmynd/Hákon Freyr
Ljósmynd/Hákon Freyr
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert