Heimabakaða Brioche brauð að hætti Lindu Ben

Syndsamlega girnilegt Brioche brauðið hennar Lindu Ben.
Syndsamlega girnilegt Brioche brauðið hennar Lindu Ben. Ljósmynd/Linda Ben

Einstaklega mjúkt, loft- og bragðmikið eru réttu lýsingarorðin um brioche brauð. Brioche brauð eru lík venjulegum gerbrauðum en með viðbættum eggjum og smjöri, sem gerir áferðina enn þá mýkri og bragðið miklu meira. Hér er uppskrift að þessu dásamlega brauði sem kemur úr smiðju Lindu Ben sem heldur úti uppskriftasíðu með sínu nafni. Það er einnig hægt að nota þessa uppskrift til að gera brioche brauðbollur og heimabakað hamborgarabrauð, maður einfaldlega hnoðar deiginu upp í bollur að hæfilegri stærð og styttir bökunartímann. Gott er að miða við að baka brauðið þar til það er orðið gullið á lit. Vert er að hafa í huga að það er gott að byrja að hnoða deigið að kvöldi til og láta það hefa sig inn í ísskáp yfir nótt, þannig nær maður brauðinu mjög loftmiklu og mjúku.

Brioche brauð

 • 12 g þurrger
 • 60 ml mjólk
 • 30 g sykur
 • 3 lífræn egg við stofuhita + 1 egg til viðbótar til að pensla á deigið
 • 300 g hveiti
 • 1 tsk. salt
 • 100 g mjúkt smjör

Aðferð:

 1. Hitið mjólkina svo hún sé u.þ.b. fingurvolg, bætið sykri og geri í mjólkina og hrærið saman.
 2. Setjið hveiti og salt í skál, blandið saman.
 3. Setjið 3 egg í skál og hrærið þeim saman.
 4. Hellið gerblöndunni og eggjunum saman við hveitið og hnoðið saman rólega í u.þ.b. 5 mín.
 5. Setjið mjúka smjörið ofan í deigið og hnoðið í u.þ.b. 15 mínútur, deigið á að vera klístrað.
 6. Leyfið deiginu að hefast í ísskáp í 4-12 klukkustundir.
 7. Setjið deigið á borð og skiptið því í 5 hluta. Smyrjið 10×25 cm stórt form (eða álíka stórt) og rúllið hverjum hlutanum upp og raðið í formið. Leyfið deiginu að hefa sig aftur í 1-2 klukkustundir.
 8. Hrærið saman 1 egg og penslið því yfir deigið.
 9. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
 10. Bakið brauðið í 30 mínútur.
 11. Berið fram og njótið með því sem ykkur langar í.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert