Halla Hrund borðar helst nammi á milli mála

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi upplýsir lesendur matarvefsins um matarvenjur sínar …
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi upplýsir lesendur matarvefsins um matarvenjur sínar og hefðir. Helst borðar hún nammi á milli mála. mbl.is/Arnþór Birkisson

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi er viðmæl­andi mat­ar­vefs mbl.is að þessu sinni og segir frá matarvenjum sínum. Halla segist vera sælkeri og fátt hafi verið betra á bernskuárunum að fara á Skalla í Árbæ og fá sér girnilegan hamborgara með frönskum kartöflum.

Halla er fjölskyldumanneskja og tvær stelpur, Hildi og Sögu, og mann, Kristján Freyr. Hún er mikið fyrir útvist, skíði og hestamennsku. Henni er margt til lista lag en hún spilar á harmonikku og píanó. Hún hef verið orkumálastjóri undanfarin þrjú ár en fór í leyfi eftir að hún tók ákvörðun um að fara í framboð til forseta Íslands. „Áður vann ég að auðlindamálum við Harvard-háskóla,“ segir Halla.

Gott á búa á Íslandi ef maður er sælkeri

Þegar kemur að matarvenjum Höllu eru þær í nokkuð föstum skorðum, íslenskt lambakjöt og smælki eru í uppáhaldi og nammi er eitt af því sem Halla getur ekki sleppt. „Ég tala oft um að það besta við Ísland séu ferska loftið, jarðhitinn og líka matargæðin. Það er gott að búa á Íslandi ef maður er sælkeri.“

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Um helgar er kaffi með mjólk og síðan er ferð í bakaríið fastur punktur hjá okkur fjölskyldunni. Stelpurnar mínar eru sammála um að heimurinn sé aldrei betri en þegar þær fá kókómjólk, ostaslaufu og snúð.

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Nammi.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Góður hádegismatur er algjör lúxus. Oftar en ekki er ég mikið á ferðinni og þarf að grípa mér eitthvað í flýti og það dugir mér vel.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Mjólk.“

Ekkert skemmtilegar en að lenda í óvæntum matarævintýrum

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Nei, en mér finnst ekkert skemmtilegra en að lenda í óvæntum matarævintýrum í útlöndum án nokkurra væntinga og helst á stöðum sem lítið ber á. Fyrir skömmu var ég í Japan þar sem natni við matargerð er á hverju horni og gæðin ekki endilega í samræmi við verðin. Þeir vanda líka svo framsetninguna, sem mér finnst einmitt gera svo mikið fyrir hvern rétt. Amma Friðgerður vann í smurbrauðinu á Hótel Esju og ég dáðist alltaf að hæfileikum hennar að geta gert veislumat úr einföldu hráefni með framsetningunni einni saman.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

Pepperóní og ostur er klassískt en mér finnst pítsa með klettasalati, parmaskinku og parmesan æðisleg tilbreyting.“

Lambahryggur að hætti mömmu og ömmu

Uppáhaldsrétturinn þinn?

„Lambahryggur að hætti mömmu og ömmu. Síðan er nýr ferskur fiskur ofarlega á blaði og líka tacos, því ég elska samveruna sem fylgir því að útbúa matinn.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Bæði betra. En fátt er betra en nýuppteknar kartöflur (smælki) með smjöri og helst gullauga.“

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Baka, það geri ég með stelpunum mínum, oftast vöfflur eða súkkulaðiköku og er þokkalega fær í brauðtertugerð. Síðan finnst mér gaman að elda lambalæri, með hvítlauk, piparostasósu, fersku salati og stökkum kartöflum úr ofnskúffu, það er hinn fullkomni sunnudagsmatur. Virka daga finnst mér fátt betra en ferskt pasta með tómötum, sveppum og hvítlauk og með mikilli ólífuolíu - það er svo afslappandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert