Nígella elskar hunang með ostum

Nigella elskar skoskt hunang.
Nigella elskar skoskt hunang.

Hunang á hug og hjarta Nigellu Lawson um þessar mundir. Hún stendur nú fyrir samkeppni í samstarfi við verslunarkeðjuna Ocado og markmiðið er að finna besta hunangið.

„Það er til siðs að tala við býflugurnar og segja þeim frá öllu því sem gerist í lífi manns. Ég held að þetta sé keltneskur siður. Maður segir þeim frá sorgum og sigrum og þannig tengist maður þeim,“ segir Lawson í viðtali við The Times.

„Þá geymist hunang furðu vel í búunum. Ég hélt alltaf að það héldist ætt í nokkur ár en svo voru þeir að finna hugang í búi inni í grafhýsi faraóa og það er enn ætt!“

Uppáhaldshunang Lawson er hunang sem er með djúpum hnetukeim eða keim blóðbergi. Þegar hún er á ferðalagi gætir hún sig á því að smakka ýmsar tegundir af hunangi sem einkenna hvern stað. Í uppáhaldi þessa dagana er skoskt hunang sem heitir Heather Honey og er frá Scottish Bee Company. „Ég fór til Skotlands og varð yfir mig hrifin. Þetta var eins og að borða landslagið.“

Lawson elskar að borða hunang með ostum. „Á Ítalíu fær maður margar litlar sneiðar af osti með mismunandi tegundum af hunangi til að hella yfir. Það er dásamleg pörun.“

Margir skipta út sykri fyrir hunang en Lawson segist þó efast um að það sé nokkur heilsufarslegur ávinningur af því. „Þetta er bara til marks um þá rómantísku hugmynd sem við höfum um hunang.“

Maturinn verður að veita manni ánægju

Lawson hefur alltaf lagt áherslu á ánægjuna sem maturinn veitir. Aðspurð um megrunarsprauturnar segir hún það ekki vera fyrir sig.

„Ég las um einn sem sagðist vera á Ozempic og var alveg hættur að hugsa um mat. Ég get ekki ímyndað mér neitt verra! Ég elska að hugsa um mat allan tímann.“

„En ég vil þó ekki fordæma heilsufarslegar ákvarðanir sem fólk tekur. Líf mitt hefur þó snúist um það að hjálpa fólki að skilja að matur er ekki óvinur manns. Ég hugsa alltaf um hverju ég get bætt í matarræði mitt frekar en tekið út.“

„Ef maður nálgast matartímann í núvitund, borðar og bragðar. Þá er það mun heilbrigðara en bara að skófla einhverju í sig eða neita sér um eitthvað.“

„Ég er á þeim aldri að ég á fleiri máltíðir að baki en framundan. Ég vil því borða það sem veitir mér hamingju. Alvöru matur vekur hjá manni góðar tilfinningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert