Norskir lögreglumenn í 90 mínútna verkfall

Norskir lögreglumenn sjást hér handtaka mótmælanda, sem mótmælti stríðinu á …
Norskir lögreglumenn sjást hér handtaka mótmælanda, sem mótmælti stríðinu á Gaza, í Ósló fyrr í þessu mánuði. Reuters

Langstærsta stéttarfélag lögreglumanna í Noregi hefur kallað eftir því við félagsmenn sína að þeir taki þátt í 90 mínútna löngu verkfalli á morgun. Með þessu vilja þeir mótmæla aðbúnaði lögreglumanna í landinu.

„Við eigum von á því að það verði farið eftir þessu sem víðast, en verkfallið mun hafa áhrif á öll héruð landsins,“ segir Arne Johannessen, forseti Politiets Fellesforbund, sem er stéttarfélag um 12.000 lögreglumanna.

„Við munum aðeins sinna brýnustu verkefnunum, t.d. aðgerðum í höfuðstöðvunum, svo við getum sinnt samfélagsskyldum okkar,“ sagði hann í samtali við AFP-fréttastofuna í dag. Stefnt er að því að lögreglan leggi niður störf á milli 11 til 12:30 á staðartíma á morgun.

Stéttarfélagið, sem nær allir norskir lögreglumenn eru í, vill með þessu mótmæla ákvörðun norskra stjórnvalda að þvinga lögreglumenn til að víkja frá ákvæðum í lögum um hvíldartíma vegna manneklu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert