Í fangelsi fyrir árás á lögreglu

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt sjö karlmenn í óskilorðsbundið fangelsi fyrir árás á lögreglumenn. Mennirnir veittust með höggum og spörkum að tveimur lögregluþjónum, konu og karlmanni, sem voru send í fjölbýlishús við Hraunbæ í Reykjavík í október í fyrra eftir að kvartað hafði verið undan hávaða í húsinu.

Fram kemur í dómnum, að íbúar í húsinu, þar sem samkvæmi stóð yfir, urðu við tilmælum lögreglu um að hætta leiknum og flestir gestir hurfu á brott.  Þegar lögreglumennirnir höfðu lokið störfum á vettvangi og voru í þann mund að setjast inn í bifreið sína réðist einn gestanna á lögreglumanninn. Árásarmaðurinn komst síðan inn í húsið þar sem hann og aðrir gengu í félagi í skrokk á lögreglumönnunum.

Samkvæmt ákæru tók einn mannanna m.a. lögreglukonuna hálstaki og annar sparkaði í hnakka lögreglumannsins, sem hlaut fjölmarga áverka á höfði. Konan marðist á höfði og bólgnaði. Lögregluþjónarnir voru fluttir á sjúkrahús og þurfti að sauma fjögur spor í höfuð mannsins. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að við lögreglurannsókn málsins voru allmargir menn yfirheyrðir sem sakborningar, þar á meðal átta menn sem síðar voru ákærðir.  Sumir hinna ákærðu sátu um tíma í gæsluvarðhaldi og einnig menn sem ekki sættu ákæru. 

Þrír mannanna voru dæmdir í 9 mánaða fangelsi, einn í sjö mánaða fangelsi, þrír í sex mánaða fangelsi og einn var sýknaður. Segir í dómnum, að upphaflega árásin á lögreglumanninn hafi verið algerlega tilefnislaus svo og afskipti hinna af handtöku hans og árás þeirra á lögreglumennina.  Virða beri mönnunum það til refsiþyngingar að þeir réðust sem hópur á lögreglumennina. Þeir eigi sér engar málsbætur og því séu ekki forsendur til að skilorðsbinda refsingarnar.

Fram kemur í dómnum, að einn mannanna hafi tvívegis verið sektaður fyrir umferðarlagabrot og annar hefur tvívegis verið ákærður fyrir þjófnað. Aðrir hafa ekki áður komist í kast við lögin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert