„Ríkið getur aldrei valið sigurvegara“

Þórdís Kolbrún segir mikilvægt að á Íslandi verði til umhverfi …
Þórdís Kolbrún segir mikilvægt að á Íslandi verði til umhverfi þar sem sigurvegarar verða til. mbl.is/Baldur Kristjánsson

„Ríkið getur aldrei valið sigurvegara, en við erum einbeitt í því markmiði okkar að tryggja umhverfi þar sem sigurvegarar verða til,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra í nýlegu viðtalið í Nýsköpun, tímariti Samtaka iðnaðarins. 

Í viðtalinu útskýrir Þordís Kolbrún sjóðinn Kríu, sem fjárfestir í vísisjóðum og mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar. 

Þórdís Kolbrún segir að við upphaf umróts fjórðu iðnbyltingarinnar séu einfaldlega nauðsynlegt að taka þessi skref sem nú eru tekin í umhverfi frumkvöðla. Ljóst sé að verðmætasköpun framtíðarinnar byggist á hugviti.

„Efnahagslegt sjálfstæði okkar og fullveldi veltur þess vegna að verulegu leyti á því að við tökum afgerandi stöðu með hugvitinu. Þannig búum við íslenskt samfélag undir áskoranir framtíðarinnar. Markmið nýsköpunarstefnunnar sem ég kynnti síðastliðið haust er að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.“

Hún segir hugvit og færni einstaklingsins mikilvægustu uppsprettu nýsköpunar. Takmarkið sé að auka þekkingu, hugvit og gagnrýna hugsun en líka frumkvöðlamenningu og sköpunargleði í öllum atvinnugreinum um land allt. Eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda sé að hlúa að og búa þessari þekkingu og sköpunarkrafti frjósamt umhverfi og farveg svo að atvinnulífið og samfélag þróist og eflist á sjálfbæran hátt.

„Náttúruauðlindir Íslands eru þess eðlis að þær umbreytast ekki fyrirhafnarlaust í efnahagsleg verðmæti. Íslendingar hafa þurft að leggja mikið undir og taka mikla áhættu til þess að gera úr auðlindum sínum þau miklu verðmæti sem við njótum góðs af í dag. Af allri þeirri þekkingu hafa svo skapast ný tækifæri á sviðum sem eiga rætur sínar í hefðbundnari greinum. Þetta sambland auðlindanýtingar og hugvits getur verið mikil töfrablanda ef vel er hlúð að hvoru tveggja,“ útskýrir hún og imprar á því að stærsta auðlindin sé nefnilega sköpunarkraftur einstaklinganna.

„Það er í honum, og hvergi annars staðar, sem við getum átt von á því að finna lausnirnar og svörin sem munu áfram gera það mögulegt að bjóða upp á framúrskarandi lífsgæði í harðbýlu landi. Stærsta hlutverk nýsköpunarstefnu stjórnvalda og aðgerða í kjölfar hennar er því að finna leiðir til þess að leyfa þeim sköpunarkrafti að brjótast fram, finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Ríkið getur aldrei valið sigurvegara, en við erum einbeitt í því markmiði okkar að tryggja umhverfi þar sem sigurvegarar verða til,“ segir hún að lokum í viðtalinu. 

Þórdís Kolbrún segir sambland auðlindanýtingar og hugvits geta verið mikil …
Þórdís Kolbrún segir sambland auðlindanýtingar og hugvits geta verið mikil töfrablanda ef vel er hlúð að hvoru tveggja. mbl.is/Baldur Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál