„Námið er einstakt hér á landi“

Hallormsstaðarskóli er í einstöku umhverfi.
Hallormsstaðarskóli er í einstöku umhverfi.

Bryndís Fiona Ford skólameistari í Hallormsstaðarskóla telur nýtt nám um sjálfbærni og sköpun einstakt tækifæri til að tengjast náttúrunni. Hver vill ekki fara í nám þar sem skógarböð eru hluti af verklegri námskrá? 

Bryndís Fiona mun ásamt Sigurði Eyberg Jóhannessyni, doktor í umhverfisfræði og fagstjóra, stýra nýju námi Hallormsstaðarskóla, sjálfbærni og sköpun, sem gengur út frá því að hið samofna hagkerfi jarðar sé ósjálfbært og nemendur hvattir til að einbeita sér að lausnum frekar en vandamálum í því hvernig gera má heiminn sjálfbæran – í það minnsta sjálfbærari.

Bryndís er spennt fyrir vetrinum.

„Námið er algjörlega einstakt hér á landi og líklega þótt víðar væri leitað. Það blandar saman fræðilegri og verklegri nálgun á sjálfbærni með áherslu á sköpunargleði og nýsköpun.

Helmingur námsins er verklegur á móti helmingi sem er með fræðilegri nálgun. Í verklega hlutanum læra nemendur ýmiss konar handverk og tækni til að nýta auðlindir náttúrunnar. Að sjálfsögðu er sjálfbærni leiðarljósið og því er áherslan á að nýta náttúruna með sjálfbærum hætti. Námið er lotuskipt og hefur hver lota sitt þema þar sem kafað er ofan í ákveðna þætti mannlegs lífs. Þá þætti sem mestu máli skipta fyrir sjálfbærni. Við fáum til okkar fjölda sérfræðinga, hvern á sínu sviði, sem veitir náminu ákveðna fræðilega dýpt.“

Yngri kynslóðir vakandi fyrir umhverfinu

Er ný bylgja í landinu þar sem yngra fólk er að rækta sinn mat, blóm og fleira í garðinum?

„Mikil vitundarvakning hefur átt sér stað í umhverfismálum og yngri kynslóðir eru vakandi fyrir þeim. Við ættum öll að vera duglegri í að styðja við íslenska framleiðslu og minnka sem mest innflutning á þeim þáttum sem við gætum verið sjálfbær um. Það liggja mörg tækifæri í nýtingu ýmissa vannýttra auðlinda og við ættum að leggja meiri áherslu á fullnýtingu afurða.“

Hvernig er námið uppbyggt?

„Haustönn hefst með uppskeru á matarkistu Austurlands og náttúrulegu heilbrigði enda er heilbrigði undirstaða alls annars sem við gerum í lífinu. Fyrstu vikurnar eru þannig nýttar í að tína og safna ýmsum hráefnum náttúrunnar, veiða fisk og fleira. Þessi hráefni eru svo nýtt áfram í komandi lotum. Heilsufræðin eru skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og gerðar tilraunir með náttúrulegar og sjálfbærar leiðir til að bæta heilsu. Þar sem skólinn er í hjarta Hallormsstaðarskógar er auðvelt að fara í skógarböðun (shinrin-yoku) og virkja tengingu við náttúruna. Við tengjum verklega færni saman við fræðilega þekkingu með því að rannsaka sögu og umhverfisáhrif mismunandi lækningaaðferða og hverjar eru áskoranir framtíðarinnar gagnvart heilbrigði.

Bryndís Fiona Ford skólameistari er spennt fyrir vetrarstarfi skólans.
Bryndís Fiona Ford skólameistari er spennt fyrir vetrarstarfi skólans. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Næsta lota snýst um mat, matvælaframleiðslu, fæðuöryggi og matvælastefnu Íslands. Nemendur læra ýmsar aðferðir til að verka og varðveita matvæli. Við skoðum umhverfisáhrif matvælaframleiðslu auk heilsufarslegra áhrifa fæðutegunda.

Við förum yfir nytjahluti þar sem nemendur læra að búa til ýmsa gagnlega hluti úr afurðum náttúrunnar auk þess að rannsaka umhverfisáhrif þeirra hluta sem við notum hvað mest og teljum okkur þurfa.“

Nemendur læra vefnað

Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og einnig mjög skaðlegur fyrir heilsu fólks og vistkerfa.

„Nemendur læra vefnað, að vinna leður, fataviðgerðir, tóvinnu og kanna nýtingarmögueika fyrir íslenska hampinn í textíl.

Orka er eitt mikilvægasta atriðið í allri sjálfbærniumræðu og í orkulotunni verður sérstaklega horft til sjálfbærra leiða til virkjunar. Nemendur læra hvernig menn bera sig að til að virkja vind, vatn og jarðvarma. Skoðuð verða umhverfisáhrif þessara orkukosta sem og annarra svo sem olíu,“ segir hún.

Efnahagsleg sjálfbærni skiptir miklu máli og gerir námið því góð skil.

„Við köfum ofan í efnahagslega sjálfbærni og fjármál. Förum yfir peninga, viðskiptaáætlanir, rekstur heimilis, fyrirtækis eða stærri samfélagslegra heilda eins og sveitarfélaga eða í raun jarðarinnar allrar.“

Hvað með listsköpun?

„Listsköpun er mikilvægur þáttur mannlífsins og í náminu er lögð áhersla á sköpunina sjálfa og ekki síst sköpunargleðina. Nemendur eru hvattir til að finna sköpunargleði sinni farveg með einum eða öðrum hætti. Rökræður skipa einnig stóran sess í náminu og ætlast er til að nemendur nái tökum á rökræðum og virkri hlustun og geti lagt til hliðar tilfinningaviðbrögð og fyrirframgefnar skoðanir í slíkum samskiptum.“

Námið er fyrir alla

Fyrir hverja er námið?

„Námið hentar öllum sem hafa áhuga á skapandi sjálfbærni. Námið er á 4. hæfniþrepi og flokkast sem viðbótarnám við framhaldsskóla og er samsvarandi fyrsta hæfniþrepi við háskóla. Námið er lánshæft hjá menntasjóði námsmanna en einnig er það hluti af úrræði stjórnvalda og Vinnumálastofnunar „Nám er tækifæri“ sem gefur atvinnuleitendum kost á að stunda nám á atvinnuleysisbótum. Námið er þverfaglegt og því góður grunnur fyrir margs konar framhaldsnám svo sem á sviði sjálfbærni og umhverfisfræða, hönnunar og lista, búfræði, lýðheilsu, matar- og næringarfræði, hagfræði, félagsfræði, menntunarfræði og margt fleira,“ segir Kristín

Hvernig hagar þú þínu lífi í takt við það sem þú kennir?

„Ég er þakklát fyrir að starfa í jafn skapandi umhverfi og Hallormsstaðarskóli er og vera umkringd fræðimönnum sem opna augu manns fyrir hinum ýmsu fræðum og rannsóknum. Er orðin mjög meðvituð um neyslu og hvaða efni eru í umhverfi okkar, hvað við erum að setja ofan í okkur og á.“

Sjálfbærni einnig samfélagsleg

Stækkandi vandamál er einmanaleiki og þótt fólk eigi marga vini á samfélagsmiðlum upplifir það sig oft einmana.

„Til að skapa er mikilvægt að finna barnið í sjálfum sér. Kunna að leika sér og lifa í nýjum undraheimi á hverjum degi. Sköpun virkjast einna best með listum en einnig þar sem einstaklingar með ólíkan bakgrunn koma saman, þá verður til ákveðin orka sem getur verið upphafið að spennandi nýsköpun og nýjum tækifærum í lífinu.“

Hvaða þjóðir eru leiðandi á þessu sviði úti í heimi?

„Engin þjóð er leiðandi í öllum þáttum sjálfbærninnar þótt allir séu að reyna sitt besta í flóknum ósjálfbærum heimi. Ísland ætti að vera leiðandi í heiminum og þá þarf að huga að öllum þáttum sjálfbærninnar; umhverfis-, efnahags- og samfélagslegri sjálfbærni. En til þess þarf að mennta og fræða fólk.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál