Yngst kvenna til að taka við aðjúnkt­stöðu

Diljá Helgadóttir lögfræðingur hefur náð langt þrátt fyrir ungan aldur.
Diljá Helgadóttir lögfræðingur hefur náð langt þrátt fyrir ungan aldur.

Diljá Helgadóttir er 27 ára lögfræðingur á alþjóðlegu lögmannsstofunni Van Bael & Bellis í Brussel og London. Hún hlaut nýverið framgöngu í stöðu aðjúnkts við Háskólann á Bifröst og er þar með yngsti aðjúnktinn við lagadeild á Íslandi. Hún sinnir einnig stundakennslu við Háskólann á Akureyri.

Diljá útskrifaðist frá lagadeild Háskólans í Reykjavík með hæstu meðaleinkunn á meistaraprófi sem gefin hefur verið í sögu deildarinnar áður en hún fór erlendis til frekara náms. Námsáhugi Diljár kviknaði fyrir alvöru í HR. „Ég hóf nám í Verzlunarskóla Íslands, en var svo hvött til að fara í íþróttamenntaskóla til Noregs, þar sem ég var í eitt ár að æfa og spila fótbolta með kvennaliði hjá Stabæk. Þegar ég kom aftur heim langaði mig að útskrifast með jafnöldrum mínum og það tókst. Það var aðeins töff, ef ég á að segja eins og er. Ég hafði lítinn áhuga á því sem ég var að læra og ég átti enn eftir að taka út mikinn andlegan þroska. Svo þegar ég hóf nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík þá var eins og nýjar dyr hefðu opnast fyrir mér. Námið gekk vel en það var fyrst og fremst vegna þess að ég hafði svo mikinn áhuga á því sem ég var að læra.“

Diljá fann sína hillu í lögfræðinni en Diljá segir að lögfræðin sé mun fjölbreyttari en fólk gerir sér grein fyrir. „Í minni vinnu snýst lögfræði svolítið um að vera með hugmyndaflug til þess að fara út fyrir þau mörk sem nú þegar eru til staðar. Tengslin við önnur fagsvið, eins og hagfræði og stjórnmálafræði gera lögfræðina ennþá meira spennandi því áhrif frá þessum fagsviðum valda því að lög og reglur eru sífellt að breytast,“ segir Diljá.

Diljá útskrifaðist frá lagadeild Háskólans í Reykjavík með hæstu meðaleinkunn …
Diljá útskrifaðist frá lagadeild Háskólans í Reykjavík með hæstu meðaleinkunn á meistaraprófi.

„Mér finnst að lykillinn að árangri í námi sé áhugi og vellíðan og það gæti átt við um allt annað í lífinu líka. Þetta þarf allt að spila saman og ég held að foreldrar mínir hafi kennt mér að umkringja mig jákvæðu fólki. Ég er líka mjög heppin með sambýlismann, Snæbjörn Val, þar sem við erum bæði metnaðarfull og með jákvæða nálgun á lífið, hvetjum hvort annað áfram og trúum því að ekkert verkefni sé of stórt! Það skemmir ekki fyrir að Snæbjörn Valur er líka lögfræðingur en hann starfar á bandarískri lögmannsstofu á sviði fjármála og verðbréfamarkaðsréttar.“

Diljá hefur náð góðum árangri þrátt fyrir ungan aldur. Hún segir hamingju, vellíðan, jákvæðni og heilbrigði mikilvæga þætti til þess að ná árangri. Rannsóknir sýna til dæmis fram á það að heilbrigður ánægður starfsmaður er minna stressaður og tekur færri veikindadaga, er minna viðkvæmur fyrir kulnun og er um 12 prósent afkastameiri en óánægður starfmaður. „Ég vinn núna mikið og finnst það gaman, en reyni þó að passa mig að skipuleggja líf mitt líka þannig að mér líði vel. Það geri ég með hreyfingu og samvistum við skemmtilegt fólk. Það er þó alltaf ákveðin fórnarkostnaður sem fylgir því að ná persónulegum markmiðum sínum rétt eins og hjá afreksíþróttamönnum – sem þurfa til að mynda að huga vel að næringu, svefni og æfingaálagi.“

Tækifæri erlendis

Diljá lauk viðbótarmeistaraprófi (LL.M.) í alþjóðlegum viðskiptarétti með fyrstu einkunn í lögfræði við Duke-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún var á skólastyrk. Duke-háskóli er einn fremsti háskóli í heimi. „Þar áttaði ég mig á þeim tækifærum sem felast í því að vinna í einkageiranum í útlöndum. Ég hóf störf á Van Bael & Bellis sem er ein fremsta lögmannsstofa í Evrópu á sviði samkeppnis- og Evrópuréttar en það eru þau réttarsvið sem ég starfa mest á. Síðasta haust leiddist mér svo í þessu covidástandi að ég ákvað að bæta við mig gráðu á meistarastigi í evrópskum samkeppnisrétti frá King‘s College London. Þetta var krefjandi með fullri vinnu en ég kláraði námið í vor með fyrstu einkunn. Það er ótrúlega hollt að bæta við sig þekkingu og lífið er í sjálfu sér stöðugt námsferli, jafnvel þótt maður sé ekki formlega skráður í menntastofnun þá er maður sífellt að læra. Að vera meðvitaður um gildi náms er mikilvægur þáttur í því að uppgötva að það eru mörg tækifæri í kringum okkur til vaxtar og þroska!“

Diljá og Snæbjörn Valur Ólafsson eiga meðal annars lögfræðina sameiginlega.
Diljá og Snæbjörn Valur Ólafsson eiga meðal annars lögfræðina sameiginlega.

Gaman að skrifa fræðigreinar

Diljá mun sinna starfi sínu sem aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Bifröst ásamt því að sinna starfi sínu á alþjóðlegu lögmannsstofunni Van Bael & Bellis. „Það er ánægjulegt að vera ung og vera ráðin í svona akademíska stöðu. Ég veit að þetta verður áhugavert, en ég er með fjölbreytta reynslu sem mun vonandi gagnast mér í kennslunni. Lögfræði er í stöðugri þróun og það er mér til tekna að starfa á alþjóðavettvangi. Þá hef ég líka birt fjölda ritrýndra fræðigreinar, um ýmis lagaleg álitaefni. Mér finnst gaman að skrifa fræðigreinar og þess vegna eru þær kannski fleiri en gengur og gerist, sé miðað við aldur og stutt starf mitt á þessu fræðasviði.

Það er auðvitað óvænt ánægja að vera yngst kvenna til að taka við aðjúnktstöðu við lagadeild hér á landi og ég er mjög spennt fyrir því að koma að uppbyggingu lagadeildarinnar. Háskólinn á Bifröst er búin að bæta við sig flottu fólki, eins og Björgu Valgeirsdóttur, Ernu Sigurðardóttur og Hönnu Kristínu Skaftadóttur sem ég hvet fólk til þess að fylgjast með því þær eiga eftir að gera góða hluti. Það sem heillar mig við Háskólann er sveigjanleikinn fyrir nemendur þar sem námið fer að mestu fram í fjarkennslu. Það höfðar í raun til hvers sem er, hvort sem um er að ræða ungt fólk sem er að koma úr menntaskóla, afreksíþróttamenn, fólk sem langar að skipta um feril, fólk sem er með fjölskyldu, sem býr erlendis eða langar einfaldlega að bæta við sig námi með vinnu.“

Diljá starfar á sviði samkeppnis- og Evrópuréttar. Hér er hún …
Diljá starfar á sviði samkeppnis- og Evrópuréttar. Hér er hún í Brussel í kórónuveirufaraldrinum.

Setur sér markmið

Aðspurð segist Diljá ekki vera búin að ná öllum sínum markmiðum. „Ég er með nokkrar tegundir skamm- og langtíma markmiða. Ég set mér til að mynda frammistöðumarkmið í hverri viku og svo er ég með langtímamarkmið sem snúa að því hvernig ég get haldið áfram að bæta mig á ýmsum sviðum lífsins.“

Hvað þurfa ungar konur að hafa í huga til þess að ná langt á sínu sviði?

„Að taka pláss og trúa á sjálfa sig og fara sínar eigin leiðir til þess og gera það besta í aðstæðum sínum og umhverfi. Ekki vera hrædd við að mistakast, því mistök eru til að læra af og geta gert mann betri. Á sama tíma er gott að vera alltaf opin fyrir gagnrýni en muna að hafa sínar eigin skoðanir – það er ekki hægt að þóknast öllum í þessu lífi!“

Diljá segir það líka mikilvægt að sinna áhugamálum, vinum og …
Diljá segir það líka mikilvægt að sinna áhugamálum, vinum og fjölskyldu.

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég á mér enga eina kvenfyrirmynd, heldur dáist ég af hæfileikum í fari margra og reyni að taka það besta frá öllum mér til fyrirmyndar. Í þessu sambandi er þó vert að nefna að móðir mín og systir eru til dæmis mjög öflugar konur sem að ég lít upp til.“

Mikilvægt að stunda hreyfingu

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Morgunrútínan mín er mjög einföld. Númer eitt, tvö og þrjú er að byrja daginn með jákvætt hugarfar – ef ég næ til dæmis litlum svefni þá reyni ég að hugsa sem minnst um það, því ég sé engan tilgang í að pirra mig á því. Ég byrja daginn alltaf á sturtu, svo fæ ég mér kaffi og skipulegg svo daginn. Þar sem að ég er í mjög krefjandi starfi þá er skipulag og forgangsröðun mjög mikilvæg. Ég set upp verkefnalista á morgnanna og gróf drög að tímasetningum. En það er líka gott að hafa í huga að maður getur ekki alltaf skipulagt allt, heldur er mikilvægt að geta aðlagast hratt breyttum aðstæðum og brugðist við og forgangsraðað upp á nýtt.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki að sinna námi eða vinnu?

„Bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu þá finnst mér mjög mikilvægt að stunda einhverskonar hreyfingu. Um þessar mundir er ég að hlaupa mikið og svo hef ég einnig stundað Crossfit. Mér finnst æðislegt að ferðast, borða góðan mat og eyða tíma með Snæbirni, fjölskyldu og vinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál