Ég vorkenni Einari

Valgeir Magnússon vorkennir Einari Þorsteinssyni.
Valgeir Magnússon vorkennir Einari Þorsteinssyni. Ljósmynd/Samsett

„Ég hef nú í mörg ár fylgst með borginni okkar að sökkva dýpra og dýpra í skuldir, þjónustuna versna og verða óskipulegri. En ef þú heldur að hér sé á ferðinni enn ein pólitíska greinin um það hvað Dagur sé lélegur borgarstjóri og að skipta þurfi um meirihluta, þá verðurðu fyrir vonbrigðum,“ segir Valgeir Magnússon auglýsingamaður í nýjum pistli á Smartlandi: 

Að reka borg er ekkert smámál. Reykjavíkurborg, Landspítalinn og Icelandair eru þrír stærstu vinnustaðir Íslands. Borgin er flókinn vinnustaður með miklar áskoranir ásamt því að það er atvinnufólk til staðar í að benda á hvað fer úrskeiðis, þar sem pólitík virkar þannig. En ef við veltum fyrir okkur hvað hefur fólk eins og Dagur, Jón Gnarr, Ingibjörg Sólrún, Davíð Oddsson og fleiri góðir einstaklingar fram að færa sem forstjórar í svona stóru og flóknu fyrirtæki? Þau eru hvert um sig snillingar.

Davíð Oddsson; lögfræðingur, með skýra sýn, ritsnillingur og húmoristi. Hann hefur mikinn sjarma og guð hjálpi þeim sem lendir upp á kannt við Davíð.

Ingibjörg Sólrún; frábær í að svara fyrir sig og fékk fólk með sér í ferðalag sem enginn hefði trúað á án hennar og Sjálfstæðisflokkurinn var felldur eftir áratuga áskrift að borgarstjórastólnum.

Jón Gnarr; hugsjónarmaður með skrítinn en einlægan sjarma. Hann hefur umfram alla stjórnmálamenn þann hæfileika að segja satt, þó það sé honum ekki til góðs. Hann svarar bara hlutum sem hann veit og segist ekki vita aðra hluti. Líklega það besta sem hann gerði var að hann lét fagfólkið um reksturinn og ákvarðanir aðrar en stefnumótandi ákvarðanir.

Dagur; læknir og algjör sjarmör og tungulipur með eindæmum. Hann er vinsamlegur og mjög sleipur í leiknum. Hann er eins og köttur nema með enn fleiri líf. Það má aldrei vanmeta Dag sem stjórnmálamann. En ekkert af þessu fólki eru sérfræðingar í rekstri, hvað þá að snúa við mjög erfiðum rekstri hjá stórfyrirtæki.

Hversu mikill stjórnmálamaður og sjarmör sem Dagur er, þá er hann greinilega ekki góður rekstrarmaður. Enda er það að vera góður rekstrarmaður ekki endilega það mikilvægasta sem borgarstjóri þarf að hafa. En hann þarf þá að hafa sér við hlið góðan rekstrareinstakling til að vega það upp, það er nauðsynlegt. Einhvern sem gefur þér upplýsingar um hvað er hægt að gera og hvað ekki. Það er ekki bara hægt að elta drauma sína úr í bláinn og standa svo uppi með gjaldþrota borg og skilja ekkert í því hvað gerðist.

Ef við hugsum málið aðeins betur. Icelandair var ekki í ósvipaðri stöðu í Covid faraldrinum og Reykjavíkurborg er nú í. Mikið tap og skuldir sem erfitt var að yfirstíga. Hefðu eitthvað af þessum miklu borgarstjórum sem ég taldi upp hér á undan verið ráðin sem forstjóri Icelandair á þeim tímapunkti? Væru þau með réttu reynsluna til að valda því starfi og bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti og snúa því við? Þið sem svöruðuð játandi í huganum eruð annað hvort að örga mér og öðrum eða jafn mikið draumórafólk og Dagur. Nei, það myndi aldrei gerast.

Borg gengur ekki út á mjög marga hluti í grunninn. Þetta er okkar sameiginlegi rekstur og snýst um að hafa göturnar opnar, leikskólana í gangi, grunnskóla, sækja ruslið og vinna með það, hugsa um gamla fólkið og fatlaða. Svo þarf að skipuleggja og úthluta lóðum fyrir húsnæði og sjá um allskyns skráningar og skjölun. Svo er hægt að bæta við ýmsum verkefnum sem hver meirihluti setur oddinn hverju sinni. En grunninn tökum við aldrei í burtu. Hann verður að vera í lagi. Þetta er bara rekstur í rauninni. Rekstur á okkar sameiginlegu hlutum. Fólk getur haft skoðun á mikilvægisröðinni en þetta er samt bara rekstur. Í ríkismálum getur verið vinstri og hægri pólitík, en í borg er þetta aðallega bara rekstur.

En hvernig snúum við rekstri sem tapar 15,6 milljörðum á einu ári? (En það var tap á rekstri borgarinnar árið 2022, sama hvaða umbúðum einhverjir reyna að pakka niðurstöðunni í. Aðrar tölur eru bara rekstrarárangur dótturfyrirtækja eins og Orkuveitunnar og fleiri.) Tapið er svo mikið og vaxtakostnaðurinn svo svakalegur að borgin er stödd á mjög hættulegum stað. Það þarf annaðhvort að auka tekjurnar eða minnka kostnaðinn, nema hvort tveggja sé. Það eru engar aðrar töfralausnir til. Ef Icelandair væri að tapa 15,6 milljörðum á ári myndu þau gera breytingar?

Svarið er já, því annars færi fyrirtækið á hausinn. Það yrði ráðinn einstaklingur í brúna sem væri mikill rekstareinstaklingur, sem þorir að taka óvinsælar ákvarðanir hvað kostnað varðar og hefði hugmyndir um hvernig hægt væri að auka tekjurnar. Einstaklingur sem þyrfti að velja hvað er nauðsynlegt að hafa og hvað er gott að hafa (must have vs nice to have). Svo er bara spurning um hvað af því sem er gott að hafa yrði látið víkja á meðan rekstrinum yrði snúið við.

Einar Þorsteinsson má eiga það að hann kemur vel fyrir og var mjög góður að spyrja spurninga í Kastljósinu. En hefur hann rekið stórfyrirtæki? Nei. Hefur hann tekið við rekstri á gjaldþrota stórfyrirtæki? Nei. Er hann rétti maðurinn til að snúa þessum rekstri? Líklega ekki. Ég vorkenni Einari, sem hélt að hann væri að fara í mjög áhugavert starf en endar í starfi sem hann að öllum líkindum ræður á engan hátt við. Starf þar sem hann mun þurfa að velja á milli þess að verða óvinsæll fyrir óvinsælar ákvarðanir eða óvinsæll fyrir að safna skuldum.

Vandamálið er að pólitíkusar í dag taka ekki óvinsælar ákvarðanir. Hvernig er þá hægt að snúa rekstri borgarinnar við? Það er bara ein leið sem ég sé; að ráða forstjóra í verkið, rekstrareinstakling með reynslu af slíkum verkefnum. Pólitíkusarnir geta séð um að hugsa um stefnumótandi ákvarðanir en eins og staðan er núna verður reksturinn að vera í höndum atvinnumanneskju sem veit hvað hún er að gera. Slík manneskja er aldrei að fara í framboð til að verða borgarstjóri. Hana þarf að ráða í vinnu. Þannig manneskja getur valið úr störfum og fer ekki í atvinnuviðtal við alla borgarbúa til að láta draga sig upp úr drullupolli.

Ég er búinn að taka ákvörðun um það að ef einhver flokkur ákveður að bjóða fram næst með það sem kosningaloforð að ráða borgarstjóra í stað þess að enn ein manneskjan sem kemur vel fyrir eigi allt í einu að verða rekstrarmanneskja, þá mun ég kjósa þann flokk, hvað sem flokkurinn heitir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál