Bitur og þreyttur stjórnandi fær engan með sér

Valgeir Magnússon segir að Ásgeir Jónsson megi ekki vera pirraður.
Valgeir Magnússon segir að Ásgeir Jónsson megi ekki vera pirraður. Samsett mynd

Valgeir Magnússon viðskipta- og hagfræðingur skrifar um stýrivaxtahækkanir. Hann segir að það gangi ekki upp að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sé pirraður yfir ástandinu. Hann þurfi að breyta um takt til að fá salinn með sér. 

Ég hef eins og allir fylgst með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra kynna hverja vaxtahækkunina á fætur annarri og séð viðtölin við hann á eftir. Hann hefur yfirleitt verið nokkuð skýr um það af hverju hækka þurfi vextina og hvert vandamálið er. Hann hefur einnig verið skýr um það að verkefnið að ná niður verðbólgunni sé samvinnuverkefni stjórnvalda, fyrirtækja og launþega. Að sama skapi hefur hann verið skýr um hlutverk Seðlabankans og að vextir séu eitt af fáum stýritækjum sem bankinn hefur til að hafa áhrif á verðbólguna. Til viðbótar hefur hann verið mjög skýr um það að honum finnist eins og bankinn sé einn í því verkefni að vinna bug á verðbólgunni og að stjórnvöld, fyrirtæki og fólkið í landinu sé ekki að spila með.

Nú eftir þennan langa tíma er hann farinn að hljóma eins og bitur og pirraður stjórnandi. Það er yfirleitt merki um að hann sé orðinn of þreyttur á verkefninu. Bitur og þreyttur stjórnandi fær engan með sér og er bara fyrir. Ég þekki það sjálfur af eigin reynslu að hafa endað á þeim stað að vera bitur og þreyttur í starfi og finnast aðrir ekki vera að leggjast með mér á árarnar. Sem betur fer var ég með fólk í kringum mig sem benti mér á staðreyndir og að ég þyrfti að gera breytingar ef ég ætlaði að ná fólki með mér.

Ásgeir virðist vera núna á þeim stað að hann þarf að endurskoða hvernig hann tjáir sig ef hann ætlar að ná fólki með sér. Setningar eins og „ef kjarasamningar fara illa“ eru ekki góð leið til að tjá sig ef maður vill að ná verkalýðshreyfingunni með sér. Enda hefur komið í ljós að þessi talsmáti fór öfugt ofan í fólk á þeim bænum. Kvartið yfir tásumyndunum á sínum tíma var fyndið en á sama tíma pirrandi fyrir þau sem voru búin að safna fyrir sólarlandaferðinni sinni að vera svo kennt um það að lán allra landsmanna myndu hækka.

Seðlabanki Íslands fer yfir stýrivaxtaákvörðunina í ágúst 2023. Hér er …
Seðlabanki Íslands fer yfir stýrivaxtaákvörðunina í ágúst 2023. Hér er Ásgeir Jónsson að fá sér kaffi og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri að pakka niður eftir fundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er mikil kúnst að benda fólki á að það þurfi að breyta hegðun eða sætta sig við að hlutirnir hafi breyst án þess að fá fólk upp á móti sér. Mín reynsla sem stjórnandi er að ef fólki misbýður fær maður það í andlitið og þá skiptir engu máli þó hagsmunir allra séu að veði. Tilfinningar eru alltaf sterkari en skynsemin.

Ef seðlabankastjóri ætlar að ná árangri í baráttu sinni þarf hann að gera sér grein fyrir að það þarf að höfða til tilfinninga og skynsemi og að það er ekki hægt að höfða til tilfinninga með skynsemisrökum. Einnig að það virkar alltaf öfugt að ráðast að fólki eða móðga það þó svo að það sé gert með skynsemisrökum.

Það er því nauðsynlegt að hugsa fyrst og tala svo. Það er nauðsynlegt að tala af hlutleysi og með sterkum rökum. Það er nauðsynlegt að segja alltaf satt og láta ekki standa sig að því að fegra sannleikann því þá fer traustið. Ekki halda því fram að laun hafi hvergi verið hækkuð í verðbólgunni nema á Íslandi ef það er ekki rétt. Betra væri því að tala um að laun hafi ekki verið hækkuð eins mikið eða jafn hratt á flestum stöðum. Einnig er matsatriði hvað þýðir að kjarasamningar fari illa. Fyrir suma þýðir það að engar hækkanir verði, fyrir aðra að þær verið of miklar. Betra hefði verið að segja að „ef laun hér verða hækkuð umfram það sem efnahagslífið þolir…“ eða eitthvað annað á mannamáli. Hótanir virka alltaf illa og ef fólk upplifir að sér sé hótað þá snýst það yfirleitt gegn sínum eigin hagsmunum.

Það er rétt hjá Ásgeiri að hugsunarháttur víðsvegar í Evrópu, sem og á hinum Norðurlöndunum, er öðruvísi á vinnumarkaði gagnvart því að ná niður verðbólgunni. Það er líka rétt að vinnumarkaðurinn og stjórnvöld spiluðu betur með á flestum stöðum í að ná henni niður enda hefur það gengið betur. Það er líka rétt hjá honum að Seðlabankinn er mjög einn í þessu verkefni. Það sem verra er er að með þessum talsmáta eru meiri líkur á því að hann verði áfram einn í verkefninu en ekki. Það er því óskynsamlegt að tala með þessum hætti þó rökin fyrir því sem sagt er séu byggð á skynsemi.

Við ættum öll að vera búin að læra af því að sú pólarisering sem hefur verið í samfélaginu er engum til góðs. Að kalla atvinnurekendur „arðræningja“ eins og sumir verkalýðsforingjar hafa gert er ekki fallegt og ósanngjarnt en það er líka ekki fallegt og ósanngjarnt að gera vinnandi fólk að sökudólgum fyrir verðbólgunni. Ef hlutir eiga að fara vel þarf fólk að vinna saman. Því þarf seðlabankastjóri að sitja á pirringi sínum og vera hlutlausari í tali og muna að hann hefur bara þau stjórntæki sem bankanum voru gefin og að hann þarf að halda sig við þau. Þá eru meiri líkur á að ró náist. Það hefur sýnt sig að þessi aðferð virkar ekki. Pirraði kallinn klæðir ekki svo vel gefinn mann sem Ásgeir er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál