Gæti ekki setið allan daginn

Unnur segir að dans sé fyrir alla. Hér er hún …
Unnur segir að dans sé fyrir alla. Hér er hún á ströndinni með kærastanum sínum Þorgils. mbl.is

Unnur Elísabet Gunnarsdóttir er dansari og danshöfundur og lifandi dæmi um hvað dansinn getur gert fyrir líkama og sál. Hún er þekkt fyrir að vera í fallegu formi, borðar nánast allt, að eigin sögn, og nýtir oft kvöldin heima í stofu til að dansa með dóttur sinni, Emilíu Álfsól Gunnarsdóttur, eða Millu eins og hún er kölluð. Hún segir dansinn lífið. 

Unnur fór til Ísrael fyrir jól með kærastanum sínum Þorgils Helgasyni þar sem þau fóru á fjórar danssýningar á International dance festival og það er greinilegt að dans á hug hennar allan. „Þetta var mjög skemmtilegt. Ég náði meira að segja að fá kærastann með mér í Gaga danstíma og var rosalega ánægð með hann. Enda er ég á þeirri skoðun að dans sé fyrir alla,“ segir Unnur og heldur áfram.

„Ég hef dansað allt mitt líf. Ég var í Listdanskóla Íslands, fór síðan 15 ára gömul í nám til Stokkhólms, í Konunglega sænska ballettskólann. Kom síðan heim og hef dansað með Íslenska dansflokkinum eða unnið fyrir Leikfélag Reykjavíkur síðan þá með 3 ára hléi, þar sem ég átti dóttur mína, lagði stund á jóga og tók mér frí frá dansinum vegna hnémeiðsla,“ segir Unnur.

Hugmyndaríkur listskapandi

Unnur hefur í nóg að snúast þessa dagana.
Unnur hefur í nóg að snúast þessa dagana. mbl.is

Unnur segir að Borgarleikhúsið hafi verið hennar annað heimili í mörg ár en núna er hún í sjálfstæðum verkefnum.

Það fer þó ekki á milli mála að Unnur kann hvað best við sig í stjórnunarhlutverkinu og er hugmyndaríkur frumkvöðull á sviði listsköpunar. „Í vetur setti ég upp sýninguna: Ég býð mig fram, í Mengi sem er listamannarekið rými í Reykjavík. Ég hafði samband við alla þá listamenn sem hafa haft hvað mest áhrif á mig í gegnum lífið og fékk þá til að búa til örverk sem ég síðan flutti. Sýningin samanstóð af 13 örverkum, sem ég flutti á einu kvöldi,“ segir Unnur og bætir við að Mengi hafi verið pakkfullt öll fimm kvöldin sem hún sýndi verkið. „Mig langar að halda áfram með verkefnið á þessu ári, en fá þá listamenn til að hafa samband við mig.“

En hvernig er líf dansarans?

„Það er spurning. Ósköp eðlilegt ef þú spyrð mig. Sem dæmi get ég ekki ímyndað mér mig við skrifborðið allan daginn. Allt frá því ég var ung hef ég verið í mjög skapandi umhverfi svo ég kann ekkert annað. En auðvitað þegar maður er að vinna í sjálfstæðum verkefnum þá fylgir því mikil tölvuvinna. Þannig að ætli ég sé ekki að færast nær og nær skrifborðsstólnum.“

Borðar allt sem hana langar í

Hvernig er með mataræði dansarans, er það strangt?

„Ja, eflaust fyrir suma. En ég er mjög heppin með að þurfa ekki að spá í línunum. Ég hef sjaldan áhyggjur af mataræðinu, og borða allt sem mig langar í, er meira að segja mjög mikil súkkulaðikona og nammigrís. En ég er með ofnæmi svo ég get ekki sett allt ofan í mig. En í fullkomnum heimi ætti maður náttúrulega bara að borða hollt. Ég leyfi mér flest, en hef hugfast að allt sé gott í hófi.“

Unnur segist skilja vel þá sem hafa lagt stund á dans og fara aftur að æfa á stöðum eins og Kramhúsinu. „Það er svo auðvelt að vera í ástarsambandi við dansinn, ef þú hefur æft dans áður. Eins getur verið gaman að halda sig bara í dansinum ef annað vekur ekki áhuga þinn.“

Árið verður spennandi fyrir Unni. Hún er dansstjóri Moulan Rouge. „Það er öllu tjaldað til og þetta verður meiriháttar sýning,“ segir Unnur sem hefur greinilega nóg fyrir stafni. Hún var einnig í danshöfunudur í söngleiknum Framleiðendurnir sem Verslunarskóli Íslands setti upp í febrúar.

Lífsglaði káti dansarinn

Spurð um framtíðina segir Unnur að hún muni án efa aldrei hætta að dansa. En hana langi að þróa sig yfir í leikstjórn og blanda þekkingu sinni á dansstjórn við það. „Ég er með opin augun fyrir hinu fullkomna námi og vona að ég finni það bráðlega.“

Unnur dansar mikið heima í stofunni með dóttur sinni Millu sem er níu ára að aldri. „Við færum til húsgögnin á kvöldin og dönsum saman. Sem er ótrúlega skapandi og skemmtilegur tími fyrir okkur mæðgur. Ég lenti meira að segja í því um daginn að heyra af nágranna mínum vera tala um hvað það byggi lífsglaður og kátur dansari í íbúðinni á móti henni. En ég taldi fram að þeim tíma engan taka eftir þvi að ég dansa í stofunni á kvöldin, ýmist þegar ég er að semja dansverk eða að leika með dóttur minni.“

Er dansinn barnvæn vinna? „Dóttir mín er algjört leikhúsbarn, hún hefur verið löngum stundum upp í Borgarleikhúsi, er með mér á æfingum fyrir sýninguna í Versló. Hún er í fimleikum og langar að verða leikkona. Já ég held þetta sé bara mjög barnvænt umhverfi og hollt og gott að eiga mömmu sem dansar.“

En hvaða áhrif hefur dans á líkama og sál?

„Ég staðfesti að allt sem hefur verið skrifað um jákvæð áhrif dans á fólk er satt, mér finnst það ótrúlega gott fyrir heilann að dansa og mér líður alltaf betur þegar ég er búin að hreyfa mig. Ég get líka trúað því að yfir myrkustu mánuðina á veturna sé fátt betra en að hrista á sér skrokkinn og að dansa.“

Það geta allir dansað að sögn Unnar. Hér er Þorgils …
Það geta allir dansað að sögn Unnar. Hér er Þorgils kærastinn hennar að dansa. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál