Fólk finnur fyrir miklum létti

Þóra Hlín kennir jóga í Sólum. Hún er þar með …
Þóra Hlín kennir jóga í Sólum. Hún er þar með KAP-viðburði sem eru vinsælir. mbl.is/Árni Sæberg

Þóra Hlín kennir jóga í Sólum og á Hilton Reykjavík Spa. Hún starfar einnig sem hjúkrunarfræðingur. Hún leiðir vinsælan viðburð sem hún heldur reglulega hjá Sólum sem kallast KAP (Kundalini activation process) sem stundum nefnist „innri dans“ (Innerdance).

KAP stendur fyrir kundalini activation process, það er ferli sem einnig nefnist og er betur þekkt sem shaktipad. „Shakti“ er heiti á lífskraftinum sem býr í öllu sem lifir og „pad“ þýðir að senda eða miðla.

Kundalini er indverskt heiti á lífsorkunni, einnig nefnt „Qi“ eða „Prana“. Það sem við erum einfaldlega að gera á þessum viðburðum er að endurvekja þessa orku innra með okkur og tengja okkur við orkusvið sem við erum öll hluti af.“

Við höfum aðgengi að ákveðnu orkustigi

„Til að skilja hvað á sér nákvæmlega stað á KAP-viðburði, þurfum við að skoða tilvist okkar í mun stærra/víðara samhengi en við erum vön og opna augu okkar fyrir möguleikanum á því að það er ákveðið orkusvið sem við höfum öll aðgengi að og tilheyrir okkar dýpsta kjarna.

Ég kynntist KAP og lærimeistara mínum Venant Wong snemma árið 2018 á ferðalagi mínu um Asíu þar sem ég dvaldi á eyjunni Koh Phangan um tveggja mánaða skeið. Mín fyrsta upplifun var ansi mögnuð og djúpstæð svo ég var knúin til að setja mig í samband við Wong í framhaldinu og bauð honum að koma til Íslands þar sem ég fann einlæga þörf fyrir að kynna hans starf fyrir Íslendingum. Venant kom til Íslands í ágúst síðastliðnum þar sem hann bauð upp á KAP-viðburði og helgarnámskeið. Með okkur óx góður vinskapur svo við ákváðum í framhaldið að ég myndi halda áfram að læra af honum næsta hálfa árið. Það var síður en svo planað að ég myndi halda hans starfi áfram, það einfaldlega þróaðist þannig í gegnum okkar samveru og samstarf á náttúrulegan hátt, svolítið eins og gjöf sem er gefin áfram.

Í dag hittumst reglulega á Skype og vinnum saman í gegnum netið, hann í Asíu og ég á Íslandi. Wong er kínverskur að uppruna en uppalinn í Ástralíu, hann starfar með orkumeisturum sem vinna allir svipað og hann gerir, má þar nefna Pi Vilaraza frá Filipseyjum, Ratu Bagus á Bali og Adi da Samraj á Fiji.

Skemmst er frá því að segja að ég mun leggja leið mína til austur Bali í febrúar í þeim tilgangi að hitta einn lærimeistara hans sem heitir Ratu Bagus og læra af honum.“

Innri dans ólíkur eftir viðburðum

Hvað gerist á KAP-viðburði?

„KAP stendur fyrir Kundalini activation Process, þetta eru ekki námskeið sem slík þar sem ég er ekki að kenna neitt sérstakt heldur eru þetta stakir viðburðir sem ég hef boðið upp á vikulega frá því í ágúst. Viðburðurinn fer þannig fram að hópurinn, sem samanstendur af 10-14 einstaklingum, leggst á jógamottu eða teppi, það er spiluð tónlist og hver og einn fær snertingu, ýmist á enni, hnakka, yfir brjóstbein, nafla eða iljar. Það er allt og sumt sem á sér stað hið ytra. Það sem á sér stað hið innra er allt annað mál. Upplifun er einstaklingabundin, djúpt hugleiðsluástand á sér yfirleitt stað þar sem viðkomandi upplifir sig í einingu með öllu sem er og því fylgir vellíðan, kærleikur og gleðitilfinning. Viðkomandi getur upplifað ósjálfráðar hreyfingar sem ferðast í gegnum líkamann svo sem skjálfti, kippir og jafnvel danshreyfingar. Það er ekki óalgengt að tilfinningar komi upp á yfirborðið frá undirmeðvitund svo sem reiði og sorg en einnig fá sumir óstöðvandi hláturskast. Það er engin saga eða minning sem fylgir þessum tilfinningum þegar þær koma upp, þetta er ákveðin hreinsun sem á sér stað.“

Upplifun í KAP er einstaklingabundin, djúpt hugleiðsluástand á sér yfirleitt …
Upplifun í KAP er einstaklingabundin, djúpt hugleiðsluástand á sér yfirleitt stað þar sem viðkomandi upplifir sig í einingu með öllu sem er og því fylgir vellíðan, kærleikur og gleðitilfinning. mbl.is/Árni Sæberg

Fólk finnur fyrir létti og kærleik

Þóra lýsir KAP-viðburðunum á eftirfarandi hátt. „Ég sjálf geri ekkert sérstakt sem slíkt á KAP viðburðunum nema að mæta á staðinn og leiða viðburðinn á meðan hann á sér stað, bara ósköp venjuleg manneskja og hef enga sérstaka krafta fram yfir aðra. Upplifi mig frekar eins og millitengi sem miðlar í gegn og þannig hefur þetta ekkert með mig sjálfa að gera, svo lengi sem ég er þakklát og auðmjúk og held mínu egói fyrir utan, þá heldur þetta starf áfram.“

Þóra segir áhrifin af KAP tímunum mismunandi. „Ég hef heyrt fólk nefna að því finnist sem byrði sé af því létt, það finnur fyrir létti, vellíðan og kærleik. Það er aldrei hægt að segja fyrir um eða stjórna því hver upplifunin er fyrir hvern og einn, ferlinu er ekki stjórnað á neinn hátt, okkar eigin vitund er viska sem veit hvað þarf að gera, flæðið fer þangað sem þörfin fyrir það er í hvert sinn. Einn og sami einstaklingur getur þannig mætt nokkrum sinnum en átt gjörólíkar upplifanir í hvert sinn. Við stýrum ekki orkunni, hún fer þangað sem hún þarf að fara í hvert sinn og þannig er þetta náttúrulegt og eðlilegt flæði sem ekki þarf að varast á neinn hátt og allir geta notið góðs af,“ segir Þóra.

Þóra stýrir KAP viðburði.
Þóra stýrir KAP viðburði. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »