Opnar sig um heilsuna og aldurinn

Gwyneth Paltrow fer djúpt í sína heilsusögu.
Gwyneth Paltrow fer djúpt í sína heilsusögu. AFP

Gwyneth Paltrow segist hafa fundist hún vera tilfinningalega lokuð áður en hún varð 45 ára og tók á því með því að leyfa sér að öskra og gráta. Þetta kemur fram í nýjasta pistli hennar á lífsstílsvefnum Goop. 

Nú styttist í fimmtugsafmæli hennar og í tilefni af því rýnir Paltrow í nafla sinn og deilir með okkur hvað hún hefur lært í lífinu.

Að eldast er ferðalag

„Líta fimmtíu ár svona út?“ spyr Paltrow. „Mér líður frábærlega alveg að verða 50 ára. Ég er mjög lánsöm að vera heilsuhraust og eiga sterkan líkama.“

„Mér finnst eins og margar af þeim ákvörðunum sem ég hef tekið á tvítugs-, þrítugs- og fertugsaldrinum hafi skilað sér nú. Það að eldast er ferðalag í því að kynnast þínu raunverulega sjálfi. Maður þarf að læra að meðtaka sig að fullu,“ segir Paltrow sem talar líka um mikilvægi sjálfsöryggis.

„Það eru engar reglur um það hvenær maður á að hætta að ganga í tilteknum fötum. Um daginn fór ég í stysta pils sem ég hafði klæðst í áratug. Þetta var gamall Chanel kjóll sem ég fann í geymslunni og hann virkaði fyrir mig. Fólk á að klæðast því sem því líður vel í.“

Er auðmjúk gagnvart aldrinum

„Nú er ég á aldri þar sem ég hef komist að því að það sem maður leggur á sig t.d. í ræktinni skilar sér ekki endilega eins og það gerði fyrir tíu árum. Að minnsta kosti hvað líkamsrækt varðar. Ég er þakklát fyrir þann grunn sem ég lagði. Líkaminn minn veit hvað hann er að gera og hefur ákveðið vöðvaminni sem og styrkleika og sveigjanleika. En það er mikilvægt að eldast með reisn og vera auðmjúkur gagnvart aldrinum.“

„Í einhverjum skilningi höfum við endurskilgreint hvað það er að verða fimmtugur. Ég horfi á J-Lo sem hefur aldrei litið betur út. Fyrir margar konur er þetta aldur sem þeim líður hvað best að vera á.“

„Ég elska að sjá konur sem hafa ekkert látið lagfæra andlitið og eru að fagna öldrunarferlinu með opnum örmum. Svo sér maður konur sem eru 78 ára og maður spyr sig hvernig þær ná að líta svona út. Það hljóti að vera lýtaaðgerð. Ég elska það líka. Fólk sem lítur út eins og það velur að líta út. Það veitir mér innblástur.“

Glímir við dauða föður síns

Paltrow skrifar líka um dauðann en hún missti föður sinn þegar hann var 58 ára að aldri og hún þá þrítug. 

„Foreldrar mínir voru ekki mjög uppteknir af því að eldast. Ég man að pabbi minn var mjög kvíðinn yfir því að verða fimmtugur. Ég spyr mig hvort hann hafi haft einhvern grun um hvað væri í vændum. Að hann myndi deyja fyrir sextugt? Mér finnst eins og hann hafi fundið fyrir endanleika lífsins á þessum tímapunkti.“

„Þegar mamma mín varð fimmtug þá átti hún eitt besta kvöld lífs síns. Pabbi minn hafði beðið alla um að semja ljóð handa henni fyrir afmælið þannig að þetta varð að kvöldi fullt af hlátri, gráti og bara öllu.“

Fer í blóðprufur 

„Eftir því sem ég eldist er mér meira umhugað um að fara í blóðprufur og safna saman gögnum um blóðsykurinn minn, svefn, vítamín og bólgueinkenni.“

„Það er mikilvægt að borða hollan mat en líkaminn er lengur að jafna sig eftir ofát en þegar maður var yngri. Það að halda sér heilbrigðum krefst ákveðinnar meðvitundar. Ég borða mjög hreinan mat. Á síðasta ári minnkaði ég alla áfengisneyslu og einbeitti mér að því að draga úr bólgum líkamans.“

Er á paleo matarræði

„Matarræðið sem hentar mér best er paleo. Þannig að ég neyti engra kornafurða, er sykurlaus og borða mikið af prótíni og grænmeti. Mikið af fisk, ólífuolíu. Maðurinn minn er einnig á sama matarræði þannig að það er frábært.“

„Við hreyfum okkur mikið og komum einhvers konar líkamsrækt að á hverjum degi. Þó það sé ekki nema langur göngutúr. Þá er mikilvægt að verja tíma með ástvinum og hlúa að sambandinu sínu.“

Paltrow segir það hafi verið gott skref að hætta að reykja 24 ára og 25 ára stundaði hún jóga af miklum móð. „Þetta lagði grunn að bættri heilsu og betri húð. Ég var alltaf mjög virk og stundaði íþróttir í skóla. Ég loks kynntist jóga 25 ára og fór að mæta sex sinnum í viku. Það gjörbreytti bæði líkama mínum og huga. Ég fór að skilja að rútínur væru mjög mikilvægar fyrir mig. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór að vera meðvituð um heilsu mína og borða hollt og allt það. Ég pældi ekkert í þessu þegar ég var tvítug en um þrítugt fór ég að velta meira fyrir mér t.d. hrukkum og skaða að völdum sólarinnar.“

„Lykilatriði er að koma í veg fyrir skaðsömum áhrifum sólarinnar og nota sólarvörn og vera með hatta. Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að fá smá sól á hverjum degi en ég passa að nota alltaf sólarvörn.“

Neitaði að horfast í augu við tilfinningar sínar

Paltrow segist hafa tekist á við sjálfsmynd sína í gegnum líkamsrækt. 

„Þegar ég var yngri þá hataði ég allt við líkama minn en það breyttist þegar ég fór að stunda jóga. Svo um fertugt fór ég aftur að eiga við vandamál varðandi líkamann og þá kynntist ég aðferðafræði Tracy Anderson og stunda ég enn líkamsrækt eftir hennar forskrift. Mér líður vel að vera sterk.“

„Kannski er ég að taka of djúpt í árina en mér finnst öll mín vandamál þar til ég varð 45 ára stafa að því að ég neitaði að eiga tilfinningar mínar. Svo hugsaði ég bara til fjandans með það og leyfi mér að öskra og gráta að vild.“

„Það sem ég lærði af móður minni er að það að eldast fallega felur í sér að njóta listar og menningar. Umvefja sig ástvinum og halda í ævintýraþrána.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál