„Ég vissi ekki að það væri svona hættulegt og ávanabindandi“

Þórarinn Ævarsson er gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar.
Þórarinn Ævarsson er gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ljósmynd/Samsett

Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA og athafnamaður, segist hafa fengið ótrúleg viðbrögð við að opna sig nýlega um lausn sem hann fékk frá djúpu þunglyndi. Þórarinn, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist hafa fundið siðferðilega skyldu til að opna sig, þó að hann sé í grunninn mjög lítið fyrir að opinbera sjálfan sig. 

„Þetta er búið að vera algjörlega fríkað síðan þetta viðtal kom út og gríðarlega mikil viðbrögð. Samt er ég ekki á Facebook eða neinum samfélagsmiðli og heldur ekki í símaskránni, svo að það þarf að hafa talsvert fyrir því að ná á mig. Ég er svolítið „anal“ á því að vera ekki á neinum samfélagsmiðli, af því að ef það er ekkert verð á vörunni, þá ert þú líklega sjálfur varan og líklega verið að selja aðgang að þér. Þó að ég hafi lagt nær öll mín leyndarmál á borðið núna er ég í grunninn mjög prívat maður. Ég hef í gegnum tíðina verið talsvert í fjölmiðlum, en hef aldrei áður talað um mín persónulegu mál opinberlega. En ég vissi einhvern vegin að ég gæti líklega hjálpað einhverjum með því að opna mig, af því að ég vissi að ég væri ekki einn á þeim stað sem ég var á. Það er mjög mikið af fólki að glíma við stanslausa verki og enn fleiri að glíma við alvarlegt þunglyndi eins og ég var fastur í.“

Þórarinn segist hafa fengið staðfestingu á því að innlegg hans hafi verið mikilvægt miðað við allan þann fjölda sem hafi sett sig í samband við hann. 

„Það hefur fjöldi fólks haft samband við mig sem tengir við söguna mína, ekki síst fólk sem hefur verið þjakað af verkjum í mörg ár. Það endar auðvitað bara með þunglyndi. Það getur enginn skilið það að vera stanslaust að glíma við verki í áraraðir nema sá sem hefur upplifað það. Ef þú værir að labba frá Reykjavíkur til Keflavíkur og værir með smá steinvölu í skónum væri það allt í lagi fyrst. En þegar þú værir kominn til Straumsvíkur væri steinvalan búin að taka yfir allt saman. Líf mitt var orðið þannig að ég var alls staðar með lyf. Ég fór um daginn í úlpu sem ég fer sjaldnast í og þá voru verkjatöflur í öllum vösum, parkódín og önnur verkjalyf. Það er engin leið að lifa svona og endar bara á því að það verður freistandi að fara út í skúr og taka fram kaðal.“

Í þættinum lýsir Þórarinn ferðalagi inn í gríðarlega verkjalyfjafíkn og djúpt þunglyndi, sem endaði með því að hann var farinn að íhuga að enda líf sitt daglega. Að lokum sprengdi hann sig úr þunglyndinu með notkun hugvíkkandi efna, sem hann fullyrðir að hafi bjargað lífi sínu. En eftir það tók við löng vegferð í að losa sig við fíkn í verkja- og kvíðalyfin Oxycontin og Sobril. 

„Ég fékk algjöra fullvissu um að ég myndi ná að losa mig við þessi lyf, þó að ég hafi verið orðinn algjörlega háður þeim. En það er ekki þar með sagt að það hafi verið auðvelt og það tók mig talsverðan tíma. Það fór í raun síðasta sumar og haustið í að losa mig undan fráhvörfunum. Fyrst að minnka skammtana af Oxycontin hægt og rólega, en svo var í raun enn erfiðara að losa mig alveg við Sobrilið, sem er kvíðalyf sem er mjög mikið skrifað upp á. Ég vissi ekki að það væri svona hættulegt og ávanabindandi. Það er svo ofboðslega andlegur slagur að losa sig við það lyf og ég þurfti að gera það mjög rólega og ætlaði aldrei að ná að slíta mig alveg frá síðasta þræðinum, en á endanum tókst það.“

Þórarinn segir að undanfarnir 7 mánuðir hafi meira og minna farið í sjálfsvinnu og eitt af því sem hafi komið út úr því hafi verið að hann hafi áttað sig á allri skömminni sem þjakaði hann, sem hefur nú losnað um. 

„Ég held að ég tali fyrir hönd margra karlmanna þegar ég segi að við erum upp til hópa með mikla skömm innra með okkur, bara fyrir það eitt að vera menn. Margt af þessu tengist kynvitund okkar, kynhvöt og annað þess háttar. Það er búið að upphefja mjög margt sem snýr að konum og kynlífi, sem er bara hið besta mál. En á sama tíma erum við karlmennirnir með aðeins aðra líffræði og við örvumst meira af því sem við sjáum. Á sama tíma og konur geta verið stoltar yfir því að eiga safn af titrurum eiga strákar og karlmenn sem horfa á youporn að sjá sig sem slæma stráka og skammast sín og það er bara talað neikvætt um þetta. Mér finnst strákar þurfa að skammast sín fyrir svo margt í dag, sem er algjörlega ömurleg þróun. Við karlmenn stundum upp til hópa mjög mikla sjálfsritskoðun, en verðum að þora að tjá okkur um þessa hluti.“

Þórarinn segir að líf sitt hafi tekið algjöra U-beygju undanfarið ár og framtíðin sé óljós. En laus við skömmina og þunglyndið segist hann bjartsýnn á framhaldið. 

„Ég átti stærstu gerð af Landcruiser og sportbíl með vængjahurðum, einbýlishús á Siglufirði og stóran spíttbát. Ég á ekkert af þessu lengur og er búinn að þurfa að losa mig við þetta allt saman. Ég er búinn að skrúfa mig hressilega niður, enda felst lífsfyllingin ekki í efnislegum eigum. Ég væri jafnvel til í að byrja að baka bara aftur, enda er ég menntaður bakarameistari. Ég þarf ekki eins mikið og ég þurfti, sem er bara jákvætt. Ég er búinn að vera að vinna í sjálfum mér alveg síðan síðasta vor og líf mitt hefur breyst mikið. En ég veit að þetta var mikilvægasta verkefnið í lífi mínu. Að komast út úr þunglyndinu og lyfjafíkninni, þannig að ég gæti verið til staðar fyrir konuna mína og börnin mín, sem ég elska svo ofboðslega mikið.“

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál