Hvernig stækkum við lítil rými?

Speglaveggur stækkar rými.
Speglaveggur stækkar rými.

Sesselja Thor­berg vöru- og inn­an­húss­hönnuður rek­ur hönn­un­ar- og ráðgjafa­fyr­ir­tækið Frök­en Fix og svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Frök­en Fix er löngu orðin þekkt fyr­ir djarfa og óvenju­lega hönn­un sem og hag­kvæm­ar lausn­ir en Frök­en Fix sér­hæf­ir sig í inn­an­húss­hönn­un fyr­ir fyr­ir­tæki jafnt sem ein­stak­linga.

Kæra Fröken Fix.

Ég bý í lítilli íbúð og sé ekki fram á að geta flutt neitt á næstunni. Íbúðin er lítil en kósý en ég vil endilega gera eitthvað til að láta hana virðast vera stærri.

Getur þú gefið mér einhver einföld og viðráðanleg ráð?

kveðja, Hjördís

Sæl og blessuð Hjördís,

það er í raun ekki mikið mál að „stækka“ íbúð sem þessa ef þú hefur nokkur atriði í huga og nokkra þúsundkalla í veskinu. Aðalatriðið er að blekkja augað!

Húsgögn

Oft gerir fólk sér ekki alveg grein fyrir því að það sé of mikið af því góða í stofunni. Þú hefur jafnvel minnkað við þig en burðast enn með sófasettið 3+2+1.  Skiptu hluta af sófasettinu út og fáðu þér tvo létta stóla í staðinn á móti sófanum.

Hugsaðu létt. Hafðu húsgögnin á tiltölulega háum fótum, með engum eða grönnum örmum, hengdu upp náttborð eða aukastólana á snaga. Gólfplássið getur verið dýrmætt í fáum fermetrum.

Einnig er gott að benda á að nota húsgögn á óhefðbundinn hátt og jafnvel vera með húsgögn sem hafa fleiri en einn tilgang. Gott dæmi er stofuborð sem má nota fyrir bekk ef það vantar sæti við borðstofuborðið eða nota tvö lítil borð saman sem sófaborð – þá er auðvelt að hreyfa til þegar saumaklúbburinn kemur. Hugsaðu líka um öll ónýttu svæðin, t.d. fyrir ofan ofna eða jafnvel hurðakarma.

Snagar búa til auka pláss.
Snagar búa til auka pláss.


Litir

Ef að þú ert ein af þeim (fjölmörgu) sem heldur þig meira og minna við sömu litatónana í húsgögnum og á veggjum heimilisins (algengt er brún/drapp/svart þema) skaltu hugsa þinn gang. Til þess að gott flæði sé í íbúðinni og hún virðist ekki of þunglamaleg á að líta er nauðsynlegt að hræra aðeins í litaþemanu hjá þér. Grár er góður litur inn á milli og kaldari tónar létta aðeins á.

Mynstur

Ég er hrifin af alls konar mynstrum og jafnvel blanda þeim saman. En ef þú ert að reyna að blekkja augað eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga. Stór mynstur eiga ekki heima í rýminu, hvorki í veggfóðri, gluggatjöldum né gólfteppum. Góð regla til þess að fara eftir er að ef þú getur talið mynstrið þá minnkar það rýmið. Því eru minni mynstur betri í svona rými.

Speglar

Þetta er væntanlega klassískasta ráðið – speglarnir góðu. En það er ekki sama hvernig það er gert. Heilir stórir speglar eru góð lausn á þrönga ganga eða forstofur. Annað gott ráð er að setja spegil á vegg sem stendur á móti glugga, þá helst í svipaðri stærð og glugginn er. Einnig er gott að nota hringspeglana sem eru vinsælir núna og setja upp nokkra slíka saman á vegg. Forðastu þó spegla með stórum þungum römmum ef þú vilt létta andrúmsloftið.

Lýsingin

Rússaperan er ekki vinur þinn hér. Forðastu lýsingu sem gefur dreifða almenna birtu (til dæmis glerkúpla). Reyndu frekar að setja upp lágstemmda lýsingu sem þó skapar dramatík. Lampar sem eru einfaldir en draga athyglina að sér vegna birtunnar eru algjörlega málið. Ég mæli frekar með um 2-3 lömpum í hvert rými fremur en loftljósi sem á að taka að sér það hlutverk að lýsa upp alla stofuna. Til að slá tvær flugur í einu höggi er auðvitað algjör dásemd að setja lampa fyrir framan spegil!

Ég gæti haldið endalaust áfram en ég vona að þessi ráð hjálpi þér af stað Hjördís,

gangi þér vel.

Kveðja Fröken Fix

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Fröken Fix spurningu HÉR. 

Sesselja Thorberg er Fröken Fix.
Sesselja Thorberg er Fröken Fix.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál