Klæðir sig í stíl við heimilið

Agnes Björgvinsdóttir vill hafa mjúka liti í kringum sig.
Agnes Björgvinsdóttir vill hafa mjúka liti í kringum sig. mbl.is/Árni Sæberg

Agnesi Björgvinsdóttur förðunarfræðingi er margt til lista lagt. Í upphafi ársins stofnaði hún Blank Reykjavík og fór heimasíða þess í loftið í byrjun mánaðarins. Í gegnum fyrirtækið selur hún töskur og aðra fylgihluti.

„Ég ætlaði aldrei að stofna fyrirtæki. Það er í raun það síðasta sem ég ætlaði að gera. Við opnuðum 5. maí og móttökurnar fóru vægast sagt fram úr okkar björtustu vonum en tvær af þremur vörum urðu uppseldar fyrsta daginn. Við hönnuðum svo hina fullkomnu tösku eða „tote bag“ sem er í raun ákveðin týpa af hversdagstösku. Ég hafði svo ótrúlega miklar skoðanir, hugmyndir og pælingar varðandi töskur að ég fékk svolítið útrás í þessu verkefni.“

Málaði svefnherbergið með Berki

Fólk leggur mismikið í útlit heimilisins og þegar komið er inn á heimili Agnesar má sjá að hún hefur ekki bara góðan smekk heldur einnig mikinn áhuga á að gera fallegt í kringum sig.

„Ég held að bestu orðin til að lýsa heimilinu mínu séu hlýtt, bjart og notalegt. Ég vinn heima alla daga og það skiptir mig miklu máli að líða vel þar. Það er kannski skrítið að setja þessa tilfinningu í orð, en rýmið heima faðmar þig eiginlega og það er að miklu leyti Trufflulitnum að þakka. Hann tekur utan um húsgögnin og þig og skapar þessa notalegu heild.“

Öll íbúðin er máluð með málningu frá Slippfélaginu og fannst Agnesi ekki auðvelt að velja litinn.

„Ég málaði bæði litaprufur á veggina en einnig á striga svo ég gæti fært prufurnar eftir birtunni og mátað við húsgögn. Ég mæli klárlega með því. Ég tók mér góðan tíma í að velja litina og kannski aðeins of góðan ef þú spyrð einhvern annan. En það var allt þess virði á endanum.

Við máluðum alrýmið og tvö aukaherbergi í ¼ Trufflu. Það var alls ekki planið en við urðum bara ástfangin af þessum lit. Svefnherbergið okkar fékk svo aðeins dekkri en samt mjög hlýjan og notalegan lit sem heitir Börkur.

Við máluðum alls staðar veggi og loft og það gerir ótrúlega mikið fyrir stemninguna að mínu mati.“

Keypti sófann á Facebook

Sófinn í stofunni vekur athygli og passar hann vel þar inn.

„Ég svara spurningum um sófann minn oft og mörgum sinnum á dag sem væri ekkert mál nema hvað við keyptum hann á Facebook og ég veit því ekki nákvæmlega hvar hann fæst eða hvar hann var gerður.

Ég var búin að ákveða að leyfa sófanum að vera kósí frekar en smart en mér hefur fundist erfitt að finna sófa sem sameinar það tvennt. Sófinn okkar fær toppeinkunn í þessu hvoru tveggja. Hann er stór og eins og sést tekur hann nánast alla stofuna.

Við erum enn að leita að sófaborði sem okkur langar í og þangað til fær litla Norr11-borðið okkur að standa, en ég ætla að færa það við hliðina á Objet Paris-stólnum og nota sem hliðarborð þegar við höfum fundið okkur draumasófaborð.“

Teppið og púðarnir inni á heimilinu setja svo punktinn yfir i-ið.

„Ég var svo heppin að fá að vinna með Kara Rugs og þessi motta heitir Copenhagen Beiges. Mig var búið að dreyma um að eignast mottu frá þeim lengi. Ég hef séð mottur breyta algjörlega rýminu og einhvern veginn setja það saman og stofan mín var engin undantekning frá því. Það breytist allt. Það er samt mjög skemmtilegt að segja frá því að ég var búin að velja mér allt aðra mottu en ég var svo heppin að fá heimsókn og ráðgjöf heim frá Kara Rugs en það er þjónusta sem er nýbyrjuð hjá þeim. Ég mæli með því.

Ég mátaði ekki einu sinni mottuna sem ég hefði valið heldur endaði á að velja á milli tveggja eftir faglega ráðgjöf.“

Agnes safnar allskonar skrautmunum eins og sjá má heima hjá henni.

„Skrautmunirnir koma héðan og þaðan. Ég á mér líka nokkrar uppáhaldsverslanir hérna heima. Ég ferðast mikið og finn alltaf eitthvað fallegt fyrir heimilið úti og er þekkt fyrir að koma ótrúlegustu hlutum heim. Ég veit svo sem ekki hvort það er kostur eða ekki. Einu sinni gekk ég allt Oxfordstræti fram og til baka með tvær níðþungar kaffiborðsbækur. Svo fann ég sem sdæmi fallegan blómakrans í Bandaríkjunum um jólin og tókst einhvern veginn að koma honum heilum heim.“

Litirnir á heimilinu tóna allir mjög vel saman ekki síst þegar heildarmyndin er skoðuð og gólfið og innréttingarnar eru teknar með.

„Mig langaði í viðarlit þegar kom að innréttingunum og varð hnota fyrir valinu til þess að fá meiri hlýju inn í íbúðina. Parketið var mjög kalt og valdi ég litatóna sem myndu frekar gera það hlýrra en ýta undir kalda litinn.

Ég fæ innblástur frá öðru fólki og gæti eytt mörgum klukkutímum í að skoða Pinterest og Instagram sem dæmi.“

Það er ekki bara heimili Agnesar sem sýnir hversu fallegan smekk hún er með. Það má einnig sjá á fatastílnum hennar.

„Ég er með frekar hefðbundinn fatastíl en á það auðvitað til að klæðast einhverju mjög sérstöku.

Ég er yfirleitt í ljósum fötum sem eru aðeins í stíl við litina á heimilinu sem er þó ekki útpælt. Eins er ég stundum í mjög skærri flík sem ég svo klæði niður.

Svo finnst mér mjög gaman að gera eitthvað við hárið á mér og að vera fallega förðuð. Góður „blazer“ er eitthvað sem mér finnst að allir ættu að eiga. Það er hægt að klæða þá upp og niður eftir tilefni. Ég elska að vera í stíl, sem er eitthvað sem allir vita er þekkja mig. Hvort sem það eru neglurnar á mér eða hárklemman sem passar við fötin og fleira í þeim dúrnum. Ég er líka alltaf með skartgripi og fremur fleiri en færri en yfirleitt er ég með mörg hálsmen sem ég para saman og svo eyrnalokka, hringi og armbönd. Myletra-skartgripirnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Fer óhefðbundnar leiðir heima

Það sést kannski ekki á íbúðinni, en ekki langur tími er liðinn frá því parið flutti inn í íbúðina.

„Við erum ennþá að koma okkur fyrir. Það hefur reynst mér vel hingað til að eyða smá tíma í rýminu áður en ég stekk til og græja allt. Ég elska að fara óhefðbundnar leiðir með notagildi á húsgögnum. Ég er sem dæmi um það með náttborð uppi á vegg inni í stofu en vegghillur sem náttborð inni í svefnherbergi. Ég er líka mjög dugleg að kaupa notað eins og sófann okkar, borðstofustólana og matarborðið okkar sem ég keypti allt á Facebook.

Ég hef fengið mjög margar fyrirspurnir um Kitkat-flísarnar í eldhúsinu og fást þær í Flísabúðinni uppi á Höfða. Mig var búið að dreyma um svona flísar lengi og er mjög ánægð hvað þær komu vel út með steininum frá S. Helgasyni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál