Alltaf betra að sýna íbúðir með húsgögnum - líka dánarbú

Garðar Hólm fasteignasali á Remax.
Garðar Hólm fasteignasali á Remax.

Garðar Hólm hefur starfað sem fasteignasali í 20 ár. Hann gefur lesendum í fasteignahugleiðingum góð ráð.

Að mörgu þarf að huga þegar kemur að sölu á fasteign og það getur skipt sköpum að taka vel á móti væntanlegum kaupendum. Garðar mælir með því að fjarlægja mjög persónulega muni.

„Það er margt hægt að gera en eitt af því fyrsta sem ég myndi benda fólki á er að létta á heimilinu og grynnka á alls konar prjáli og glingri. Taka vel til, fjarlægja mjög persónulega hluti og taka óþarfa hluti úr rýminu til að sem minnst trufli augað. Gott dæmi um þetta er til dæmis að fjarlægja segla af ísskáp og taka eitthvert eldhúsdót í burtu þannig að fólk sjái rýmin betur fyrir sér. Fallegar og góðar myndir á veggjum geta hjálpað til við að fegra rými og gera þau smart,“ segir Garðar og bætir við að það sé heldur ekki gott að hafa rými alveg tóm.

„Alveg tóm rými geta virkað ópersónuleg og fráhrindandi, skoðendur eiga þá oft erfiðara með að sjá hlutina fyrir sér og átta sig verr á hlutföllum. Þess vegna ráðlegg ég alltaf fólki að hafa húsgögn þegar eign er sýnd. Ef um dánarbú er að ræða vill fólk stundum ekki selja fyrr en búið er að tæma eignirnar en ég hvet fólk alltaf til að sýna með innbúi heldur en tóm rými.“

En ætti fólk að mála og gera híbýli í stand?

„Þetta er misjafnt eftir því hvernig ástand er á eignum og hvernig stíllinn á heimilinu er. Ef málað hefur verið í mjög afgerandi litum getur verið sniðugt að skella hlutlausri málningu á. Oft eru skærir eða afgerandi litir notaðir á einn vegg og þá er ekki mikil vinna eða kostnaður fólginn í því að mála vegginn, en það getur breytt miklu og létt á rýmum,“ segir hann.

Hvað með smáatriðin, skipta þau einhverju máli?

„Já mjög miklu, þú vilt að fólk fái notalega tilfinningu þegar það kemur og þá hjálpar til dæmis að hafa góðan ilm, hvort sem hann er framkallaður í gegnum ilmkerti eða bakstur. Lágstemmd tónlist er líka góð og ljúf og notaleg birta getur haft áhrif. Fallegir hlutir sem fegra rýmið eins og blóm geta líka hjálpað. Í raun eykur allt sem lætur fólki líða vel sölumöguleika.“

Hvað um ljósmyndir af híbýlunum?

„Það skiptir miklu máli að hafa góðar og vel teknar ljósmyndir af eigninni til að lokka fólk á staðinn. Þrívíðar myndir eru góðar og auka oft líkurnar á því að fólk komi að skoða. Þannig myndir þrengja líka gjarnan niður raunverulega kaupendur, það koma kannski færri en þeim mun áhugasamara fólk sem er að leita að eign sem svipar til myndanna. Þetta eykur án efa möguleikana á sölu og gerir ferlið oft auðveldara.“

Hvort hentar betur að hafa opið hús eða taka á móti fólki eftir samkomulagi?

„Í stórum og miklum eignum er algengara að fólk komi í einkaskoðanir, þar sem margt þarf að skoða og spyrja um. Þá er líka auðveldara að svara og veita almennilegar og nákvæmar upplýsingar. Í raun má segja að hægt sé að sinna fólki betur og gefa því góðan tíma þegar fólk kemur eitt. Opið hús getur hentar mjög vel þegar um aðeins minni eignir er að ræða enda eru oft fleiri kaupendur að minni íbúðum, áhugasamir geta svo líka bókað einkaskoðun í flestum tilfellum.“

Hvort er betra að hafa fasteignasala eða eigendur til að sýna eignina?

„Ég myndi segja að það væri oft betra að hafa sölumann á svæðinu. Fólk sem er að skoða opnar sig gjarnan meira gagnvart sölumanni og þorir að spyrja eða vekja máls á einhverju sem í sumum tilfellum gæti verið viðkvæmt gagnvart þeim sem býr í eigninni. Góður fasteignasali getur þá líka séð hverju skoðendur eru að leita eftir. Annar kostur við að láta fasteignasala um að sýna híbýlin er til dæmis ef eignin selst ekki, þá höfum við oft fengið innsýn í hvað sé að og getum komið með tillögur um breytingar.“

Hvað um verðmiðann?

„Eitt af því sem getur verið fráhrindandi er til dæmis ef fólk óskar eftir tilboði og setur ekki verð á eignina, mín reynsla hefur sýnt að það virkar illa, fólk vill fá hugmynd um verð áður en það skoðar. Seljendur gera sér stundum óraunhæfar væntingar um verð og hafa það of hátt, jafnvel andstætt því sem fasteignasali hefur metið. Það er margt sem hefur áhrif á verð og oft er hægt að skoða gögn á markaði til að skoða það en svo skiptir líka máli hvar eignir eru staðsettar í hverfi svo dæmi sé tekið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál