Glaðlegt og sjarmerandi heimili fagurkera í Hlíðunum

Fagurkerarnir og hjónin Linda Jóhannsdóttir og Rúnar Karl Kristjánsson gerðu …
Fagurkerarnir og hjónin Linda Jóhannsdóttir og Rúnar Karl Kristjánsson gerðu nýlega upp sjarmerandi hæð í Hlíðunum. Samsett mynd

Myndlistarkonan og hönnuðurinn Linda Jóhannsdóttir gerði nýlega upp fallega hæð í Hlíðunum ásamt eiginmanni sínum Rúnari Karli Kristjánssyni. Þau festu kaup á eigninni haustið 2019 og byrjuðu strax að taka hana í gegn, en í millitíðinni hafa þau hoppað í önnur verkefni, gert upp aðrar eignir og flutt til Flórens. Í dag, rúmum fjórum árum síðar, er hæðin tilbúin og óhætt að segja að útkoman sé glæsileg enda er Linda mikill fagurkeri.

Linda er myndlistarkona og hönnuður að mennt, en hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2013. Hún flutti svo til Flórens ásamt Rúnari og sonum þeirra árið 2022 þar sem hún fór í meistaranám. Í dag starfar Linda bæði sem myndlistarkona og innanhússráðgjafi ásamt því að gera upp eignir, en hún er einnig eigandi hönnunarmerkisins Pastelpaper þar sem hún leggur áherslu á veggmyndir og kort.

Áður en hjónin festu kaup á eigninni í Hlíðunum bjuggu þau í fallegri íbúð í sama hverfi sem þau höfðu gert upp. Þau ákváðu að stækka við sig og leituðu að eign með fleiri svefnherbergjum. „Við þurftum að minnsta kosti þrjú svefnherbergi og vorum ákveðin í því að vera áfram í Hlíðunum. Við keyptum okkar fyrstu eign þegar við vorum 21 árs í sama hverfi, en þá eign þurfti að taka alla í gegn. Strákarnir okkar fæddust í Hlíðunum og eru því miklir Hlíðabúar og Valsarar. Hlíðarnar voru því það eina sem kom til greina,“ útskýrir Linda.

Í eldhúsinu má sjá fallegt borð og stóla eftir danska …
Í eldhúsinu má sjá fallegt borð og stóla eftir danska hönnuðinn Magnus Olsen. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Urðu heilluð af möguleikunum

Hæðin, sem er 138 fm með bílskúr, var nærri upprunaleg þegar hjónin keyptu hana en húsið var byggt árið 1947 og því kominn tími á endurbætur. „Við keyptum eignina haustið 2019. Hún var nú kannski ekkert augnayndi en við sáum fullt af möguleikum sem seldu okkur hana. Það þurfti að taka hana alla í gegn, en íbúðin var það illa farin að það var eiginlega ekki hægt að byrja smátt og því fluttum við ekki inn fyrr en búið var að rífa allt út, laga rafmagn, mála, parketleggja o.s.frv. Þar sem við höfum gaman af því að laga og fegra fasteignir var þetta frábært verkefni fyrir okkur,“ segir Linda.

Fyrir og eftir mynd af stofunni.
Fyrir og eftir mynd af stofunni. Samsett mynd

Áður en framkvæmdirnar hófust teiknaði Linda upp hvernig hún vildi hafa íbúðina, bæði hvað varðar skipulag og stíl en einnig hvernig hún taldi íbúðina geta notið sín sem best. „Við færðum eldhúsið sem hentar því hvernig við búum mikið betur í dag og var að okkar mati betra fyrir skipulagið. Þegar við vorum að endurbæta skipulagið breyttum við því þannig að gangurinn frá forstofunni varð minni og baðherbergið stærra, en við ákváðum að gera innbyggða rennihurð inn á baðherbergið til að nýta fermetrana sem best,“ segir hún.

„Þegar við keyptum hæðina var upprunalegur dúkur á gólfunum, en við settum harðparket frá Birgisson á gólfin og terrazzo-flísar á baðherbergið sem við erum virkilega ánægð með og passar vel við húsið að okkar mati. Við völdum að hafa hvíta eldhúsinnréttingu, en þar sem hún er í opnu rými vildum við ekki að hún yrði of plássfrek. Eftir breytingar er þetta fjögurra til fimm herbergja íbúð með stóru opnu rými þar sem stofa og eldhús eru saman og dásamlegar suðursvalir, rúmgott baðherbergi og þrjú til fjögur svefnherbergi,“ bætir hún við.

Fyrir og eftir mynd af eldhúsinu, en þau færðu eldhúsið …
Fyrir og eftir mynd af eldhúsinu, en þau færðu eldhúsið í framkvæmdunum. Samsett mynd

Linda segir framkvæmdirnar hafa tekið sinn tíma enda hafi þau gert mikið sjálf og vildu vanda bæði val og vinnu vel. „Sem dæmi eru allar hurðir í íbúðinni sérsmíðaðar, en þær eru hannaðar af okkur og smíðaðar af manninum mínum. Þegar maður fer í framkvæmdir er mikilvægt að vita að hlutirnir taka tíma. Það verður verra áður en það verður betra en verður gott að lokum. Í dag er allt 100% eins og við vildum hafa það og vinnan og tíminn því vel þess virði,“ segir hún.

Fyrir og eftir mynd af ganginum, en þau stækkuðu baðherbergið …
Fyrir og eftir mynd af ganginum, en þau stækkuðu baðherbergið og settu rennihurð til að nýta plássið sem best. Samsett mynd
Baðherbergið er vel heppnað hjá hjónunum.
Baðherbergið er vel heppnað hjá hjónunum. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Vildu gefa íbúðinni meiri sjarma og rómantík

Aðspurð segist Linda hafa viljað skapa meiri Hlíðastemningu og rómantík á heimilinu sem henni fannst passa bæði við eignina og hverfið. „Við höfðum það í huga við val á efnivið í bland við nútímann. Það að blanda stílum saman getur gefið eitthvað extra skemmtilegt og persónulegt. Andrúmsloftið sem mig langaði að skapa fyrir okkar heimili var að hérna mætti vera til, vera maður sjálfur og að lífið væri leikur,“ útskýrir hún.

„Þegar ég hanna heimili finnst mér mikilvægt að skoða byggingarstíl, staðsetningu og fólkið sem býr þar eða ætlar að búa þar. Út frá því er svo hægt að finna hvaða andrúmsloft lætur fólki líða vel. Ég vissi að við myndum þrífast vel í björtum rýmum með góðu plássi til þess að gera alls konar æfingar á gólfum og þar sem hægt er að leika sér með bolta,“ segir Linda.

Sófaborðið fagra er hönnun eftir Lindu og smíðað af manninum …
Sófaborðið fagra er hönnun eftir Lindu og smíðað af manninum hennar. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

„Á sama tíma elska ég að breyta og prufa nýjar blöndur. Við ákváðum til dæmis að vera með glerhurðir til að hleypa birtunni í gegnum alla íbúðina og mála með ljósum litum en um leið leika okkur með liti. Þannig varð loftið í stofunni og rennihurð inn á baðherbergið bleik á meðan veggir í alrýminu urðu hvítir,“ bætir hún við.

Linda er afar ánægð með þá ákvörðun að halda veggjum í alrými hvítum, en hún segir það gera rýmið bjartara og gefa henni um leið tækifæri til þess að leika sér með list á veggjunum. „Í íbúðinni sem við bjuggum í var ekki mikið um veggi og því var ég afar spennt að fá veggi sem hægt væri að nota sem eigið gallerí. Gangurinn var til dæmis alltaf hugsaður sem staður þar sem listin fengi að njóta sín,“ segir hún.

Myndirnar á veggjunum eru eftir Lindu sjálfa, en hún notar …
Myndirnar á veggjunum eru eftir Lindu sjálfa, en hún notar veggina sem nokkurs konar gallerí. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Spurð út í heimilisstíl þeirra segir hún hann vera blöndu af því sem þeim þyki fallegt, en þau lögðu áherslu á að skapa heimili og umhverfi þar sem allri fjölskyldunni líður vel. „Heimilisstíllinn okkar í dag er blanda af rómantík, módern og smá gallerísstemningu,“ segir hún.

Leirverkið á veggnum er eftir Lindu og skúlptúrinn á stöplinum …
Leirverkið á veggnum er eftir Lindu og skúlptúrinn á stöplinum eftir listakonuna Sólveigu Hólm. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Áttu þér uppáhaldsstað á heimilinu?

„Uppáhaldsstaðurinn er sennilega svefnherbergið okkar. Ég elska stofuna og alrýmið en það er einhver dásamlegur andi í svefnherberginu. Það er frekar rúmgott og hægt að draga sig í hlé og skapa þar.“

Náttborðið er gamall flugvélakassi sem eiginmaður Lindu breytti í náttborð.
Náttborðið er gamall flugvélakassi sem eiginmaður Lindu breytti í náttborð. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Áttu þér uppáhaldshúsgagn?

„Það eru alls konar húsgögn sem við eigum sem mér þykir vænt um, þar á meðal er sófaborðið okkar sem ég teiknaði upp og Rúnar smíðaði. Ég held líka mikið upp á stól eftir Guðmund blinda sem við erfðum frá afa mínum sem ég var mjög náin, en mér finnst extra gott að sitja í honum og hugsa um hvaða svör hann myndi gefa mér við lífsins spurningum.“

Ljósakrónan í stofunni er vintage Murano ljós sem Linda fann …
Ljósakrónan í stofunni er vintage Murano ljós sem Linda fann á Ítalíu. Hún þurfti svo sér ferðatösku til að koma því heim. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Hvað er efst á óskalistanum þínum?

„Þegar stórt er spurt … Ég er yfirleitt alltaf með eitthvað á óskalistanum og elska að fjárfesta í munum sem ég sé fyrir mér að geti búið á heimilinu með okkur um ókomna tíð og þannig elst eins og gott vín. Það er allt of mikið um að fólk sé að kaupa og henda sem er eitthvað sem við þurfum að endurskoða. Ég held mikið upp á danska og ítalska hönnun og finn því alltaf eitthvað fallegt í Epal, en ég held að ég hafi óskað mér gjafabréfa þaðan í jólagjafir síðustu 10-15 ár. Efst á óskalistanum núna er þægilegur og fallegur hægindastóll, Flos Taccia-lampi og hús á Ítalíu.“

Á borðinu er vasi eftir Önnu Þórunni sem er í …
Á borðinu er vasi eftir Önnu Þórunni sem er í miklu uppáhaldi hjá Lindu og kertastjaki úr Norr11. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Mikið ævintýri að flytja til Ítalíu

Þegar fjölskyldan var búsett í Flórens myndaði hún sterkar rætur til Ítalíu sem sést glitta í á heimili þeirra. Linda segir það hafa verið mikið ævintýri að flytja með fjölskylduna og frábær reynsla sem þau muni búa að alla tíð. „Það er ekki endilega auðvelt en það er svo gefandi að prófa eitthvað nýtt, aðlagast öðru landi og menningu, kynnast nýju fólki og vera langt fyrir utan þægindarammann. Það að flytja út með börn er líka öðruvísi en að fara bara einn og margt sem þarf að smella til að allt gangi upp,“ segir hún.

Það hafði verið langþráður draumur hjá Lindu að flytja til Ítalíu og því kom ekkert annað land til greina þegar kom að því að sækja um framhaldsnám. Hún segir Flórens hafa verið efst á óskalistanum og útilokar ekki að fjölskyldan flytji aftur út einhvern tímann. „Við vorum ótrúlega heppin að kynnast fullt af yndislegu fólki frá alls konar löndum, þar á meðal Íslendingum sem bjuggu í Flórens með barn og það varð til afar falleg vinátta á milli barnanna sem voru að upplifa svipaða hluti. Sjálf flutti ég út sem barn og lærði svo margt,“ segir hún.

Fjölskyldan í góðum gír í sólinni.
Fjölskyldan í góðum gír í sólinni.

„Litir hafa mikið gildi og áhrif“

Linda er abstrakt listamaður og vinnur mikið með tjáningu, tilfinningar og liti í list sinni. „Litir hafa mikið gildi og áhrif, en það er í raun hægt að lesa mikið út úr litavali og nota þá til að tjá sig. Að skapa er eitthvað sem ég hef alltaf elskað en tjáningin hefur kannski verið þörf. Ég lærði hönnun áður en ég fór yfir í myndlistina, en að einhverju leyti ýtti hönnunarnámið mér yfir í myndlistina sem ég er þakklát fyrir. Það frábæra við að prófa mismunandi hluti, hvort sem það er nám, að búa á öðrum stöðum eða annað, er það að maður tekur alltaf eitthvað með sér. Í náminu úti var til dæmis alltaf talað um að tími væri eitthvað sem við hefðum nóg af sem er að mörgu leyti andstæðan við það sem oft er talað um hérna heima. Sú hugsjón er klárlega eitthvað sem ég tek með mér áfram,“ segir hún.

Hægt er að skoða verk eftir Lindu á Instagram-síðum hennar …
Hægt er að skoða verk eftir Lindu á Instagram-síðum hennar @lindajohannsdottir og @pastelpaper_insta. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir

Spurð hvort listin og heimilið tengist að einhverju leyti segir Linda ákveðinn þráð vera þar á milli, en á sama tíma lýsir hún sér sem kamelljóni þegar kemur að því að skapa heimili sem hún elski að breyta og bæta. „Sá stíll sem við innréttuðum með í dag verður ekki endilega sá sem við munum búa með næst. Hann stjórnast í raun að einhverju leyti af beinunum, hvaða bein íbúðin hefur og hvernig þú vilt búa þar. Það þýðir ekki að maður þurfi að henda öllu og kaupa nýtt til að breyta stílnum. Í öðru umhverfi virka hlutirnir öðruvísi. Það hvernig hlutum er raðað saman hefur til dæmis mikið að segja og það er hægt að breyta miklu með því að mála, hvort sem það eru veggir, loft, gluggar eða húsgögn – flestallt er hægt að mála,“ segir hún.

Á sófaborðinu er skál eftir Önnu Þórunni og vintage vasar …
Á sófaborðinu er skál eftir Önnu Þórunni og vintage vasar sem Linda fann á antík markaði í Flórens. Ljósmynd/Linda Jóhannsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál