c

Pistlar:

18. október 2012 kl. 16:09

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Maraþon - ekki hjartans mál?

marathon_agu07.jpgÞað má færa rök fyrir því að hann fer stækkandi sá hópur fólks sem kominn er á ógnvekjandi braut í sinni þjálfun. Heilsuvandi þjóðarinnar hefur snúist að miklu leyti um að of margir hreyfa sig ekki nóg en nú er um að ræða stækkandi hóp fólks sem fer öfgafullar leiðir í þjálfun sinni sem skv. nýjum rannsóknum getur, þvert á það sem lagt var upp með, unnið gegn auknu hreysti og betri heilsu.

Maraþonhlaup geta skaðað hjartað

Skv. nýrri rannsókn frá Mayo Clinic Proceedings (2012;87 (6), 587-95) getur öfgafull þjálfun haft alvarlegar afleiðingar. Rannsóknin leiddi í ljós að þátttaka í ofurkrefjandi keppnum s.s. maraþonhlaupi, Ironman, þríþrautarkeppni og mjög löngum hjólreiðarkeppnum getur mögulega orsakað alvarlegt ofálag á hjartað t.d. óeðlilega stækkun hjartahólfa og bandvefsmyndun í hjartavöðva.  "Í sumum tilfellum getur langvarandi öfgafull þolþjálfun valdið óæskilegum varanlegum breytingum á hjartanu og stærri slagæðum" segir í umræddum rannsóknarniðurstöðum.

Meira er ekki endilega betra

Byggt á ofangreindri rannsókn má leiða að því líkum enn og aftur að meðahófið sé farsælast.  Talið er að þolþjálfun veiti mestan ávinning í réttum "skömmtum" eða u.þ.b. 1 klst á daglega.   Við álag umfram það fer minnkandi jákvæða ávöxtunin og getur mögulega orsakað hjartaskaða í einhverjum tilfellum.

Öfgar færast í aukana

Öfgar eru því miður að verða meira áberandi í líkamsrækt. Mörg eru dæmin um langar og ofurstrangar æfingar flesta daga vikunnar, vikum og jafnvel mánuðum saman, jafnvel samfara mjög svo takmarkaðri hitaeininganeyslu og/eða einhæfu fæði.  Ofuráhersla á neyslu ýmiskonar fæðubótarefna sem sum hver eru á lista yfir skaðleg og bönnuð efni hérlendis.  Það þarf ekki að fjölyrða um það að slíkt líferni getur vart talist heilsurækt.

hg_canstretchingbeforeexercisepreventinjury_size640x480.jpgGóð heilsurækt felur í sér jafnvægi og vellíðan

Heilsurækt snýst um að rækta heilsuna með jafnvægi að leiðarljósi, styrkja hjartað og æðakerfið, þjálfa vöðvana, styrkja þá og liðka, bæta líkamsstöðu, reyna á sig og slaka á.  Hvílast nóg, borða hollt fæði í hæfilegum skömmtum o.s.frv.    Hvers kyns öfgar sem skapa ójafnvægi í líkamanum stuðla varla að betri heilsu og betri líðan.   Heilsurækt stuðlar að sterkari og hraustari líkama og eykur mótstöðuafl hans gagnvart sjúkdómum.  Ofálag veikir hann og minnkar varnir hans.   Er líkami þinn hraustur og í góðu jafnvægi?