c

Pistlar:

28. júlí 2013 kl. 18:35

Ágústa Johnson (ajoh.blog.is)

Hvað eiga orkublundur, hreyfing og kynlíf sameiginlegt?

woman-seaweed-615.jpgVafalaust má í mörgum tilfellum þakka góðum genum langlífi en lífstíllinn sem þú velur þér hefur líka mikið að segja.  Það eru líka þættir sem þú getur haft stjórn á. 
Líklegt má telja að með heilsusamlegum lífsstíl getir þú stýrt heilsu þinni til betri vegar þrátt fyrir að möguleg ólukkuleg erfðaefni liggi í þinni fjölskyldu.

Á ákveðnum svæðum heimsins er vitað til þess að óvenju hátt hlutfall fólks nær háum aldri.  Ekki nóg með það að þessir íbúar verði háaldraðir heldur njóta þeir flestir góðrar heilsu alla ævina út og virðast tiltölulega ónæmir fyrir þeim ýmsum sjúkdómum sem því miður gjarnan stytta líf okkar íbúa í vestrænum löndum.  Það sakar ekki að skoða nánar hvað kann að búa að baki langlífi þessa fólks.

Minni sykurneysla .
Eyjaskeggjar japönsku eyjarinnar Okinawa eru einna þekktastir fyrir langlífi. Talið er að fleiri okinawanar nái 100 ára aldri en á nokkru öðru svæði í veröldinni.  Menn gera því skóna að mögulega megi rekja það til þess hve lágt sykurhlutfall er í fæðu þeirra.  Uppistaðan í matnum þeirra er fiskur og grænmeti og í stað hrísgrjóna og hvítra kartaflna þá neyta þeir sætra kartaflna í miklum mæli. Þeir borða lítið af rauðu kjöti. Fæðan þeirra er einnig talin auðug af soja.  Hjartasjúkdómar eru sjaldgæfari á meðal okinawa en annarstaðar í heiminum og þessir eyjaskeggjar ná óvenju háum aldri og eru hraustastir manna.   Það er einnig athyglisvert að skv. rannsókn sem var gerð á okinawabúum sem fluttu til Brasilíu og nærðust á dæmigerðu mataræði þar í landi, kom í ljós að líf þeirra styttist umtalsvert og tíðni hjartasjúkdóma jókst samfara því að þeir neyttu unninna matvæla í auknum mæli.  Ekki virtist því hægt að rekja langlífi japönsku eyjaskeggjanna til erfða.
Ef þú vilt borða eins og okinawar,  borðaðu feitan fisk oft í viku, skiptu út hvítum grjónum, kartöflum og hvítu brauði fyrir fjölbreytt grænmeti, sætar kartöflur og trefjaríkt grófmeti og borðaðu daglega litríka ávexti.  Uppistaðan í fæðunni þinni ætti að vera óunnið heilnæmt ferskmeti.

orkublundur.jpgOrkublundur og kynlíf lengja lífið
Íbúar grísku eyjarinnar Ikaria þakka m.a. daglegum stuttum lúr langlífi sitt.  Fyrir utan það að borða almennt hóflega og drekka mikið af jurtatei þá hafa þeir það víst fyrir sið að leggja sig í litla stund alla eftirmiðdaga.  Vitað er að svefnleysi hefur afar slæm áhrif á heilsuna svo þessi siður þeirra er e.t.v. ekki svo galinn. 15-20 mínútna orkublundur þykir endurnæra heilabúið og vera góð streitulosun.  E.t.v. telur þú þig ekki hafa lausa stund fyrir blund vegna annríkis.  En raunin er sú að orkan og einbeitingin eykst og afköstin eftir því.
Ef orkublundur er ekki valkostur fyrir þig, prófaðu að loka augunum í nokkrar mínútur og slaka á.  Dragðu andann djúpt og finndu hvernig losnar um streituna og þú nærð upp orkunni á ný. 
Mörgum þykja svo vafalaust góðar fréttir að a.m.k. einn rannsakenda langlífis telur sig geta sannað að ástundun kynlífs á efri árum eigi þar þátt því Ikaria íbúar segjast stunda kynlíf oftar en meðaltalið, sérstaklega á efri árum og allt að 88 ára aldri, en ekki eftir það.

Gættu að þyngd þinni
E.t.v. hefurðu ekki heyrt um Abkhazia, lítið samfélag í Kákasusfjöllum Rússlands.  Það er gjarnan nefnt langlífishöfuðborg heimsins.  Talið er að mataræði þeirra sé lykillinn að langri ævi þeirra. Abkhaziar passa vel upp á þyngd sína.  Mataræði þeirra er fitusnautt, auðugt af ávöxtum og grænmeti og færri dýraafurðum en vestrænt mataræði einkennist af. Þeir forðast einnig unnin matvæli sem  má segja að sé að miklu leyti uppistaðan í fæðu nútímamannsins.

hreyfing.jpgAukin hreyfing
Eitt atriði einkennir góða heilsu og langlífi nánast allra menningarheima og það er mikil hreyfing allt lífið.  Fólk sem gengur gjarnan á milli staða og/eða hjólar er vissulega heilsuhraustara.  Á okkar Íslandi er ekki alltaf veðrátta sem ýtir undir slíkan lífsstíl en um að gera að tileinka sér hann þegar veður leyfir.  Það eru skýr tengsl á milli ofþyngdar og þess að ferðast allra sinna ferða í bíl.   Finndu þér leið til að hreyfa þig flesta daga vikunnar.  Skipulagðar æfingar, íþróttir, leikfimi, röskar gönguferðir, skokk, hlaup, hjólreiðar, fjallgöngur, kröftugt sund, hlaupa upp og niður allar tröppur sem þú kemst í o.s.frv.   Hafðu hreyfinguna þína alls konar og fjölbreytta og aldrei taka þér margra daga hlé frá því að hreyfa þig.   Kyrrseta eykur líkur þínar á sjúkdómum s.s. sykursýki 2, of háum blóðþrýstingi og hjartasjúkdómum, jafnvel þó að þú stundir þjálfun 2-3 klst á viku. Hreyfðu þig meira yfir allan daginn, alla daga.

Að lokum
Þú þarft ekki að búa á grískri eða japanskri eyju til að geta lifað löngu og heilsugóðu lífi. Ísland er að mörgu leyti betri staður en margur annar til þess. Ferskt loft, nægur fiskur og hreint vatn er dýrmætt fyrir heilbrigði okkar íslendinga.  Meira af fiski, grænmeti og ávöxtum, minna af sykri og unninni fæðu, almenn hófsemi í neyslu og aukin hreyfing í líf þitt eru þættir sem þú getur auðveldlega tileinkað þér.  Veldu rétt og njóttu afrakstursins með því að auka hreysti og lengja ævina þína.