c

Pistlar:

20. maí 2014 kl. 23:32

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Einkaþjálfinn

 Ég hef alltaf hatast við líkamsrækt. Allt frá dögum mínum í Landakotsskóla og helv... píp hlaupaprófunum. Ég vil aldrei komast að því hver fann þessi píp próf upp því ég er vís með að senda honum bréfasprengju. Ástæðan fyrir hatri mínu er einföld. Sem þybbna stelpan var ég aldrei best í neinni íþrótt (kappát er ekki enn orðin keppnisgrein í skólum landsins) og fullkomnunarsinninn í mér þoldi það aldrei. Ég þvældist því á milli íþróttagreina í vonlausri leit að minni réttu hillu. Það var fótboltatímabil og körfuboltatímabil. Það voru frjálsar íþróttir og sund. Ég var einn af fyrstu kúnnum Magga Schev þegar hann byrjaði með aerobikk í Skeifunni. Dröslaðist þangað með strætó alla leið úr Vesturbænum til þess eins að komast að því að ég get með engu móti hreyft hendur í eina átt og fætur í aðra. Ég prófaði afródans, ballet og djassballett í von um að komast að annarri niðurstöðu en það endaði með ósköpum.

Og á milli þessara tilrauna minna reyndi ég að fullkomna leiðir til að komast út úr íþróttum í skólanum. Það var því mikill happafengur þegar ég byrjaði á blæðingum. Hvaða karlkyns íþróttakennari vill ræða þau mál frekar við mann ef maður slengir þessari ástæðu framan í hann? Enginn get ég sagt ykkur, það er margreynt!

 tumblr_m3m361dsnc1rr3l61o1_500.gif

Ég hef þó aldrei gefist upp þessari leit minni og hef verið áskrifandi að líkamsræktarkorti hjá flestum stöðvum Íslands. En fann loks mína hillu. Lyftingar. Og þær eru langbestar með þjálfara sér við hlið því annars er ég líkleg til að enda á gólfinu undir lóðastæðu.

Áður en ég flutti til Lala lands var ég með þjálfara og naut þess að tala við fólk um dauðalyfturnar mínar og hvað hver og annar tæki í bekkpressu. Ég er alveg ágæt í lyftingum. Bara ansi sterk. Og það er ekkert samasem merki milli þess að vera grannur og vera sterkur þannig að ég gat horft með kaldhæðni í stað öfundar á mjóu týpuna í ræktinni (þú veist, þessa sem mætir í flottustu fötunum og setur á sig maskara áður en hún fer að æfa) því að ég tek mun meira en hún í bekkpressu.

Það tók mig svolítinn tíma að finna stöðina mína hérna og svo þjálfara til að fara með.  

 En nú er hann fundinn og ég er aftur farin að lyfta lóðum í gríð og erg og hnykla vöðva framan í spegilinn í stað þess að gretta mig yfir fellingunum. 

Þjálfinn minn heitir Tim. 27 ára, fínlegur drengur sem er ca. 1/3 af líkamsþyngd minni.  Mögulega gæti ég tekið hann í dauðalyftu, ætti að prófa það einhvern tímann.  Við höfum þekkst í fimm vikur en erum þegar nánari en mörg pör. Hann veit um mig hluti sem ég forðast að ræða við annað fólk. Við ræðum opinskátt um mitt dýpsta leyndarmál - töluna á viktinni. Hann kleip í spikið mitt á mörgum stöðum og allt án þess að ég slægi hann utan undir. Svo sagði hann mér eitthvað eins og að ég væri 100 % fita (ókei ekki svo slæmt en samt næstum því). Ef einhver annar hefði sagt mér eitthvað í þessa átt þá hefði ég ekki talað við þá manneskju framar. 

Ég hef mig alla við í tímum hjá honum að halda kúlinu. En það er fáránlega erfitt. Þarna erum við að tala um mann sem hittir mig bara á mínum verstu stundum, þegar ég rembist við að lyfta lóðunum sem hann hrúgar á mig af jafn miklum móð og þegar ég remdi heilu barni í heiminn. Ég reyni að láta prumpið ekki sleppa en vitiði, það getur stundum verið ansi erfitt! En ég læt mig hafa þetta. Ég fyrirgef honum allt. Líka þegar ég lá rennsveitt á æfingaboltanum sem ég kalla pyntingartækið að gera einhverja fáránlega plankastöðu samkvæmt skipunum frá honum. Og hann valdi þá stund til að taka mjúklega um mjaðmirnar á mér til að beina þeim niður (af því þær eiga að fara undir mann í plankastöðu skiljú?!?) Hann veit ekki hvað það kostar að halda sér í plankastöðu þegar maður er kominn yfir 50 kg, mjaðmir undir eða yfir! En ég sýni þessu þolinmæði því ég veit fátt skemmtilegra en að sjá vöðvana mína stækka og hnykla þá oft á dag! Og Tim er leiðin mín að því!

ptoggrm.png

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira