c

Pistlar:

2. mars 2016 kl. 18:25

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Mögulegur tvífari Adele?

finding-happiness-in-recovery

Þrátt fyrir glansmyndir af lífi fólks sem birtast stöðugt á samfélagsmiðlum þá getur lífið verið allskonar. Bland í poka. Og fyrir einhvern eins og mig sem vill frekar hafa stjórn á því sem ratar í pokann minn þá getur það verið erfiður biti að kyngja. Að sumu stjórnum við einfaldlega ekki. Lífslærdómur sem ég hef ekki enn fellt mig við en fæ næg tækifæri til að æfa mig svo það hlýtur að koma, fyrr en seinna, er það ekki? 

En þó lífið geti stundum verið stjórnlaust og hlutirnir séu ekki nákvæmlega eins og við viljum hafa það, þá eru ákveðnir hlutir sem ég hef á mínu valdi. Ég hef til að mynda enga stjórn á öðru fólki, það bara gerir það sem því hentar óháð mér, meira að segja dæturnar sem ég hlýt að eiga að stjórna, allavegana fram að 18 ára, eru stundum alveg stjórnlausar. En hvað get ég þá gert? Það er eitthvað sem ég er búin að hugsa mikið um undanfarið. Allskonar ástæður fyrir því, en það byrjaði til dæmis með flutningunum hingað til LA. Það er mikið valdleysi fólgið í því að hætta að vinna, mega ekki vinna. Fyrir fullorðna manneskju að vera algjörlega upp á aðra manneskju komin, hafa ekki einu sinni sinn eigin bankareikning því maður fær ekki ameríska kennitölu. Flytja í burtu frá öllu sem maður þekkir og koma sér fyrir í algjörlega nýju umhverfi, það er stjórnlaust, ég er að segja ykkur það! En hvað gerir kona þá?

Jú, ég ákveð og stjórna því hvernig ég bregst við þegar lífið lætur öllum illum látum. Ég vakna á hverjum degi og ákveð hvernig ég ætli að takast á við stjórnleysið. Og ég ætla ekki að bugast eða gefa eftir. Ekki fyllast biturð eða vonleysi. Stundum bugast maður tímabundið, það er líka val, stundum þarf maður bara að liggja uppi í rúmi og vorkenna sér. Þá er gott að láta það eftir sér. En svo þarf maður að rífa sig upp á rassgatinu og hugsa það hvernig, mitt í öllu kaosinu maður getur fundið stundarfrið, jafnvel smá hamingjuskot. 

Úrvinda og úttauguð mætti ég inn í snyrtivöruhimnaríkið Sephora einn daginn. Sagði við afgreiðslukonuna: "Mér líður ömurlega, en hef ákveðið að ég vilji ekki líta ömurlega út líka þó mér líði þannig. Reddaðu því!" Og þessi elska sem hún er græjaði það. Ég eyddi formúgu, já. En hverrar krónu virði. Síðan þá tekur fólk stöðugt eftir húðinni minni og segir mér hversu vel ég líti út. Ég tók svo upp á því að fara að blása á mér hárið og fékk athugasemd um daginn um að ég liti alveg eins út og Adele, ekki amalegt það. Ég fer í jóga því það gleður mig og orkan sem ég fæ út úr því hleður batteríin og gleðistöðina í langan tíma á eftir. Ég drekk bara gott kaffi og borða bara góðan mat. Ég hitti allt það yndislega fólk sem ég á í kringum mig, fólk sem gleður mig og gefur mér eitthvað. Og svo brosi ég bara. Ég hlusta á skemmtilega tónlist, horfi á þætti sem mér finnast skemmtilegir og hugsa á hverjum degi hvað ég geti gert til að gera þennan dag eins góðan og hann mögulega getur orðið. Hljómar einfalt en oft er þetta bara miklu meira en að segja það. 

Í morgun vaknaði ég með kvef, drulluþreytt og með vöðvabólgu eftir að hafa deilt rúmi með kolkrabba (yngri dóttirin) sem tók upp á því að grenja meira en góðu hófi gegnir um miðja nótt. Ég var krumpuð og pirruð og lífið hefur verið flókið undanfarið. En mig langar ekki til að lífið sé bara flókið svo ég klæddi mig upp, meira en venjulega. Setti upp Adele hárið, skærbleikan varalit og fann mér svo splunkunýtt kaffihús til að sitja á í dag og skrifa BA ritgerðina mína. Umkringd hipsterum með latte sem myndi sóma sér vel í 101 RVK. Af því að ég er búin að ákveða að þessi dagur, þó hann verði kannski köflóttur, verði líka góður. Ég brosi til fólks sem verður á vegi mínum því oft brosir það til mín til baka og það gleður mig. Kennari sem kenndi mér verkefnastjórnun sagði að þetta væri lykillinn að því að vera farsæll, að finna eitthvað sem gefur manni hamingju á hverjum degi! Þannig getur maður, mitt í því sem kannski ætti ekki að vera góður tími, fundið tækifæri til að eiga notalega stund, augnabliks hamingju. 

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira