c

Pistlar:

23. febrúar 2016 kl. 19:53

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Hot or not?

c4a213796519f6e8d9d42b5bcb40dd94

Ég var farin að hafa áhyggjur. Undanfarna mánuði hefur mér liðið eins og ég sé mögulega að eldast, dottin úr sambandi við það hvað unga fólkið er að gera og fíla þessa stundina. Ég er að verða 36 ára á þessu ári, hef aldrei látið tölur sem þessar fara í taugarnar má mér en einhver titringur hafði gert vart við sig innra með mér. En hvaðan kom þessi þankagangur eiginlega?

Jú. Það er afar einföld skýring á þessu og það er facebook hópurinn Beauty Tips sem einhver var svo vænn að bæta mér við í fyrir einhverju síðan. Eins og gefur að skilja snýst þetta mest um föt, snyrtivörur, neglur og hár, það liggur í hlutarins eðli. Ég klæði mig í föt, mála mig næstum daglega, er með neglur og mikið af hári svo ég ætti að eiga heima þarna inni er það ekki? Í hópnum eru konur, á öllum aldri. En þær sem hafa sig mest frammi eru á aldrinum 15-25 að því er virðist vera.

Að fylgjast með daglegum hugðarefnum þeirra lætur mér líða eins og ég sé orðin ævaforn. Þær tala að því er virðist stundum annað tungumál en ég. Þarna ber hæst þessa stundina eitthvað sem þær kalla Contouring og virðist krefjast einhverra meika eða hyljara í öllum mögulegum litum og gera konur flekkóttar. Afhverju viljum við vera flekkóttar? Ég bara skil þetta ekki? Hvað er að gerast? Svo er keppst við að lita á sér hárið í litum á litaspjaldinu sem hefðu ekki einu sinni átt erindi upp á vegg þegar ég var krakki en voru hinsvegar litir á LEE gallabuxunum sem allir voru í. Núna er þetta ekki lengur buxnalitur heldur hárlitur. Þær virðast svo helst hafa samskipti með einhverjum broskallategundum sem ég held að séu kallaðir emoticons og kvarta svo sáran undan typpamyndum sem þær virðast fá sendar í tonnatali frá mönnum á öllum aldri. Ég kann ekki ennþá að kalla fram hjarta með svona emoticon myndum og hef bara aldrei fengið senda typpamynd. Ekki eina einustu! Hvað er að gerast?

Hvað var ég að gera á þessum aldri? Ircið var nýkomið og ég fór á nokkur svoleiðis deit. Damon Albarn var heitur á Íslandi, jafnöldrur mínar eyddu miklum tíma í að hafa uppi á honum og svo eignuðumst við allar farsíma. Það var hægt að senda heit smáskilaboð sín á milli en engar myndir, þær þurftum við ennþá að framkalla eins og fávitar þannig að ferillinn var of flókinn fyrir flesta. Enginn sendi mér typpamynd í bréfformi né heldur í tölvupósti þegar hann byrjaði.  En ég var alveg jafn upptekin af sjálfri mér og þær virðast vera í dag.  Einu sinni var einhver að tala um stór nef nálægt mér. Ekki við mig eða um mig heldur um stór nef almennt. Þá uppgötvaði ég að ég hefði aldrei eytt tíma í að greina á mér nefið, hvaða stærð það væri í. Þetta kallaði á heilan dag á baðherberginu fyrir framan spegilinn að horfa á blessað nefið á mér frá öllum mögulegum sjónarhornum. Ég hef enn ekki komist að niðurstöðu með nefið á mér, hvort það sé stórt eða lítið, hvað finnst ykkur? Ófáar klukkustundirnar fyrir framan spegilinn fóru í að prófa förðunarvörur og sjá hvort ég kæmist upp með að vera með melluband um hálsinn, fannst það alltaf draga fram undirhökuna frekar en nokkuð annað. Ég held að þetta sé eðlilegur partur af þroska okkar. Við erum að uppgötva sjálfið, átta okkur á hvar við erum í þessu öllu saman, hvað okkur líkar við og hvað ekki. Svo eignaðist ég börn og hafði ekki lengur tíma til að velta mér uppúr sjálfri mér. Ég gat rétt svo tekið stöðuna á fötunum, hvort þau væru blettótt eða ekki og tryggja að ekki væri fuglahreiður þar sem hárið átti að vera. Maskari var plús og allt til viðbótar við það kallaðist dekur. Við hjónin grínuðumst stundum með það þegar hann tók sér tíma til að klippa á sér neglurnar og raka sig á morgnanna, þá horfði ég á hann með ásökunaraugum og talaði um spa meðferðina sem hann trítaði sig á. Þetta var þegar ég var í fullu starfi og með tvö lítil börn.

En nú er svo komið fyrir mér að ég er ekki í fullu starfi og hef því meiri tíma en er kannski hollt. Naflaskoðunin er komin aftur og ég get eytt tíma í næði á morgnanna meðan dæturnar eru í skólanum með sjálfri mér. Og þá sný ég mér að beauty tips til þess eins að komast að því að ég er dottin út úr orðaforðanum og veit ekkert hvað er hot og hvað er not í þessum heimi lengur. Það eina sem ég er viss um er að ég er eins og risaeðla þarna inni. Þetta gæti samt staðið til bóta þar sem ég er orðin meðlimur í Beautytips 30+...

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira