c

Pistlar:

7. júní 2014 kl. 15:53

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Svarta sælan

1510007_10152535473247990_6939317770480370327_n

Ég var 15 þegar ég byrjaði að drekka kaffi fyrir alvöru. Staðurinn: Café Au Lait, Hafnarstræti. Besta kaffihús fyrr og síðar. Þar lærði ég að drekka kaffi og nóg af því. Bollinn kostaði 150 krónur og honum fylgdu fríar áfyllingar eins og maður gat í sig látið. Ég drakk stundum 10 bolla, þegar fjárhagurinn var slæmur og leyfði ekkert nema kaffið og pakka af Viceroy. (Já ég reykti einu sinni, þegar það var ennþá töff að reykja) Þá daga gekk ég titrandi út af kaffihúsinu, angandi af sígarettureyk en á einhvern undarlegan hátt fannst mér þetta stórkostlegt, ég var svo lifandi, svo villt! Á betri dögum var hægt að splæsa í eitthvað eins og langlokuna (himnesk, skinka, ostur og sterkt sinnep, klikkaði aldrei en verður ekki leikið eftir, ég gerði ítrekaðar tilraunir til að ná langlokunni réttri eftir að þau lokuðu) eða hina himnesku Babe Ruth köku. Ó bragðlaukarnir mínir dansa í sælu minninganna. Allavegana. Snúum okkur aftur að kaffinu. Ég varð fljótt háð þessari dásemd, ekki síst eftir að ég eignaðist dæturnar og heill og órofin nætursvefn varð eitthvað sem ég sé einungis í þoku. Ég er löngu hætt að hafa þol í 10 bollana eins og í gamla daga en ég klára auðveldlega 3-4 bolla á dag. Yfirleitt svart en ef ég er á góðu kaffihúsi þá fer ég með þetta alla leið og fæ mér latté með smá sírópsslettu og styn af hamingju yfir bollanum. Kosturinn við kaffi er að það er hitaeiningasnautt og hentar því nánast öllu matarræði og megrunum. Í gegnum hinar og þessar megranir hefur það verið minn trausti vinur, það sem ég hef aldri þurft að láta af. Drykkinn tengi ég við gæðastundir: Fyrsti bolli dagsins, í ró og næði. Á kaffihúsi með góðum vinum, kaffispjallið er alltaf best. Bollinn eftir hádegismat þegar orkan er aðeins farin að síga niður á við og mig vantar smá hressingu. Lúxus kaffið á kaffihúsinu meðan ormarnir troða í sig croissant og svo gæti ég lengi talið.

 

Nema nú er svo komið að ég þarf að standa við loforð sem ég gaf fyrir margt um löngu. Fyrir rúmlega ári síðan hafði ég samband við mann einn á Akureyri. Ég hafði hann grunaðan um að vera með bókarhugmynd í höndunum og vildi kanna hvort við gætum ekki komið bókinni út hjá Forlaginu. Hugmynd mín reyndist rétt og bókin góða kom út í byrjun árs. Bókin heitir 30 dagar - leið til betri lífsstíls og ég lofaði höfundinum að þegar hún væri komin út þá myndi ég láta vaða og prófa. Bókinni var svo flogið alla leið til Los Angeles og ég hef forðast að horfa á hana þar til nú því ég vissi hvað biði mín. Já. Ég þarf að taka mér 30 daga pásu frá mínum góða og trausta vin, kaffinu. Og ég er strax farin að sakna svörtu sælunnar minnar.

 

Í undirbúningi fyrir stóra daginn (sunnudag, nema ég neyðist til að breyta í mánudag vegna þess að ég er að fara með ormana í Disney land á sunnudag og ég veit hreinlega ekki hvort ég komist í gegnum það án kaffi?!?) hef ég stórdregið úr kaffineyslunni. Alla þessa viku hef ég haldið mig við einn bolla á dag. Þetta hefur kostað tilheyrandi geðvonsku og höfuðverk en botninum náði ég á miðvikudag, þá á þriðja degi koffínskorts. Bollann drakk ég í morgunsárið. (Hefðin er sú að eiginmaðurinn mannar ormana tvo meðan ég sit og fer yfir Facebook og sé hvað hefur gerst í heiminum og drekk dásemdina á meðan). Dagurinn leið áfram á nokkuð þægilegum nótum þar til að ég fór í garð með stelpurnar. Þar er vatnsleiksvæði og hafði ég undirbúið mig nokkuð vel. Klæddi ormana í sundfötin og þær byrjuðu að sulla en sú litla nennti þessu ekki og vildi fara í þurru fötin aftur. Sem hún og fékk. En um leið og í þurr föt var komið vildi hún auðvitað fara að sulla aftur og endaði á að rennbleyta sig alla. Góð ráð dýr, ég var á leið í matarbúð. Skelli henni í sundfötin og æði af stað í bílinn til að setja á hana þurra bleyju. Það er svo í miðri innkaupaferð sem ég geri mér grein fyrir mistökum mínum. Ég er með hálffulla innkaupakerru við hliðina á grænmetinu þegar ég stend skyndilega í stórum polli. Ég hafði gleymt að setja á dýrið bleyju og hún hafði látið gossa risagusu, að hluta yfir innkaupakerruna og hlutina þar ofan í og svo auðvitað allt gólfið. Miður mín af skömm reyndi ég að leysa málið sem best ég gat. Það rétt hafðist og ég kláraði innkaupin í skyndi eftir að hafa skolað af matnum á klósettinu og komið barninu í bráðabirgðanærföt. Enn var hún þó bleyjulaus þar sem bleyjurnar voru á næstu hæð í bílnum. Ég labba út úr búðinni og man þá að mig vantar þvottaefni. Hendist þá inn í apótekið við hliðina á og gríp það. Í röðinni á kassann þar lætur barnið að sjálfsögðu gossa í annað sinn á þá 15 mínútum. Veit ekki hvernig hún getur líffræðilega geymt svona mikinn vökva í sér. Ég get sjálfri mér um kennt og auðvitað þegar maður ákveður að storka örlögunum þá er þetta það sem gerist. En ég vil kenna kaffileysinu um þetta allt saman. Án þess hef ég breyst í heilalausan sauð sem ráfar um með bleyjulaus börn án þess að hafa um það minnstu hugmynd. 

 

En loforð er loforð. Og á sunnudag eða mánudag byrja ég prógrammið. Ykkur er frjálst að slást í hópinn með mér. Misery loves company. Ekki misskilja mig. Ég veit að þetta verður gott fyrir mig og í lok 30 daganna verð ég alsæl, í vímu af hollum lífshætti og allt verður fullt af blómum og svanasöngi. En ég veit fyrir víst að fyrstu dagarnir munu einkennast af geðvonsku, meiri geðvonsku (já ég er sveiflukennda týpan!) og fráhvörfum. Ekki bara frá kaffinu heldur öllu hinu. 

 

Meira síðar.

 

P.s. Þessi færsla er skrifuð á dásamlegu kaffihúsi yfir unaðslegum kaffibolla.  

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira