c

Pistlar:

17. júní 2016 kl. 18:33

Hildur Jakobína Gísladóttir (hildurjakobina.blog.is)

Mannorðsmorð stjórnenda

Þegar ungir stjórnendur fá sína fyrstu stjórnendastöðu eru þeir að vonum, uppfullir af krafti, eldmóði og óteljandi hugmyndum um hvað og hvernig þeir ætla að gera vinnustaðinn sinn nýja betri og láta menntun sína og þekkingu skila árangri. Mikil spenna ríkir fyrir stöðunni og óreyndir stjórnendur gleyma oftast (sem eðlilegt er)að athuga hvort vinnustaðurinn sem þeir eru að ráða sig til sé "heilbrigður". Það sem mikilvægt er að athuga er hvort þar ríkir góð menning og stjórnendur stundi heilbrigða stjórnarhætti. Ef óreyndir stjórnendur lenda á vinnustað þar sem stjórnandinn er "toxic“ og þar sem pólitík eða einhver annarleg sjónarmið ráða ríkjum geta þeir heldur betur lent illa í því. Sérstaklega á það við um hæfa stjórnendur sem ráðnir eru og standa sig svo vel og verði það vinsælir, að yfirstjórnandanum stendur ógn af þeim. Þeirra eigin stóll er í hættu og þá byrjar ballið.

Óheilbrigðum (toxic) stjórnanda sem stafar ógn af undirmanni sínum notar flestöll tækifæri sem gefast til að grafa undan honum. Hann gefur til að mynda ráð gagngert til að klekkja á honum. Svona mönnum er ekki treystandi fyrir horn en það veit hinn nýi stjórnandi ekki. Sem dæmi má nefna að stjórnandinn lætur hann fá það verkefni að hagræða í rekstri eða ákveðnum rekstarlið um nokkrar milljónir og tilkynnir það á starfsmannafundi svo allir heyri. Hann sjálfur veit að þessu markmiði verður erfitt eða jafnvel ekki hægt að ná en ásetningur hans er að láta stjórnandann líta illa út á meðal starfsfólksins. Nái hins vegar stjórnandanum að hagræða og spara um þessar milljónir þá fara þær upplýsingar aldrei lengra en á milli hans og stjórnandans. Hann passar vel upp á að láta það ekki fréttast.

Óheilbrigður stjórnandi reynir líka að koma stjórnandanum í þær aðstæður að undirfólk hans fari að grafa undan honum. Honum tekst það með því að halda frá þeim upplýsingum eða gefa þeim rangar upplýsingar sem hann veit að grefur undan viðkomandi sem yfirmanni. Hann er í góðri stöðu til þess og reynir þannig að splitta upp starfsmannahópnum og koma viðkomandi í erfiðar aðstæður. Eina markmiðið hans er sem áður að bola viðkomandi út. Á endanum tekst honum það þar sem óreyndi stjórnandinn fellur í allar þær gildrur sem fyrir hann eru settar. Starfsfólkið rís gegn honum og staða hans versnar innan vinnustaðarins. Starfsfólkið hættir að taka mark á honum, hópar sig saman gegn honum og að lokum hrökklast hann í burtu. Hann fær ekki stuðning síns yfirmanns og á sér því engan talsmann. Við tekur vanlíðan, veikindafrí og samræður um starfslok.

Óreyndi stjórnandinn er nú kominn með óverðskuldaða reynslu og situr eftir með ónýtt mannorð þar sem hann þarf á meðmælum "toxic“ stjórnandans að halda þegar hann vill sækja um vinnu að nýju. Þau meðmæli veit hann að hann fær aldrei og hann veit að það lítur ekki vel út að tala illa um fyrrverandi yfirmann sinn í atvinnuviðtali. Hann á sér því enga vörn.

Með þessari hegðun er mannorðsmorð framið og ekkert nema heppni sem færir viðkomandi vinnu sem stjórnanda að nýju. "Toxic" stjórnandinn situr eftir á sínum vinnustað sigri hrósandi og öruggur með að enginn muni nú ógna stöðu hans. Hann sjálfur kýs veikan eftirmann sem hann veit að hann hefur stjórn á. Einelti af þessu tagi er því miður staðreynd á vinnustöðum þar sem óehilbrigðir stjórnunarhættir ríkja. Ungi stjórnandinn á sér enga málsvörn. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem eru að sækjast eftir stjórnendastöðu kynni sér sögu vinnustaðarins og starfsmannaveltu áður en þeir ráða sig í vinnu. Sé það ekki gert og lendi þeir í aðstæðum eins og lýst er hér að ofan getur þetta haft neikvæð áhrif á allan feril þeirra og það án þess að þeir hafi gert nokkuð skapaðann hlut af sér og séu í raun miklu hæfari stjórnendur en sá situr eftir, með glottið. Einnig þurfa ungir stjórnendur að vara sig á að gera starfslokasamning sem inniheldur þagnarskyldu um það ofbeldi sem átti sér stað. Slíkt hugnast bara vanhæfum stjórnendum og þeirra vinnustað.

Ofbeldið hins vegar lifir sjálfstæðu lífi í litlu landi þar sem allir þekkja alla. 

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Meira