c

Pistlar:

8. mars 2017 kl. 19:47

Hildur Jakobína Gísladóttir (hildurjakobina.blog.is)

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið!

Undanfarið hefur maður orðið var um reiði fólks í samfélaginu. Heimilisofbeldi virðist vera að aukast og önnur ofbeldisverk eru nánast orðið daglegt brauð á síðum fjölmiðla landsins. Maður skilur þó að mörgu leyti vanmáttin sem liggur að baki hluta þessarar reiði. Leigu- og kaupverð húsnæðis er farið upp úr öllu valdi og er í engu samræmi við tekjur fólks. Almennt verðlag fer hækkandi og er ekki heldur í neinu samræmi við launahækkanir. Margir eiga mjög erfitt fjárhagslega og það er skiljanlegt undir þessum kringumstæðum. Hins vegar er reiði smitandi og því auðvelt fyrir reiða fólkið að smita út frá sér á samfélagsmiðlunum.

Þegar ég var barn var ég hvött til að vera úti að leika mér og það gerði ég ásamt öðrum börnum í hverfinu. Við vorum að bralla ýmislegt eins og börn gera þegar þau eru að leika saman. Við vorum í leikjum, gerðum dyrabjölluat og drullu mölluðum. Það var gaman. 

Í dag er kvartað undan því að börn séu ekki nógu mikið úti að leika og læra á lífið eins og það er í "raunheimi". Ég er sammála því og reyni að hvetja mín börn til að vera úti að leika sér. Dóttir mín sem er 9 ára kom heim í vikunni í hláturskasti yfir því að hafa verið að gera dyraat. Ég fann fyrir létti. "Vá börn eru ekki alveg hætt að vera börn í gamla skilningnum"! Það fannst mér bara jákvætt. Það er enn verið að púkast og bralla. 

Í kvöld var svo hringt á bjöllunni hjá okkur og var þar mættur nágranninn sem hellti sér yfir 9 ára barnið sem kom til dyra. " Þú varst að gera dyraat hjá mér. Þú skalt bara passa þig" sagði konan og otaði puttanum ógnandi að barninu sem kom grátandi inn í stofu til mín. Hún var miður sín og þá aðallega vegna þess að hún hafði ekki gert þetta dyraat heldur vinkonur hennar sem voru ekki einu sinni í heimsókn hjá okkur. 

Eins og ég segi, þá er skiljanlegt að fólk sé reitt og það sé að berjast í bökkum fjárhagslega og kannski tilfinningalega. Þannig eru aðstæður hjá mörgum í dag og hefur verið hluti af lífshlaupinu í gegnum árin. Hins vegar varð mér um þegar farið er að ráðast á börn til að fá útrás fyrir einhverri innbyggðri reiði sem hefur ekkert með aðra að gera. Sama hvaða ástæður liggja þar að baki. Fá ástæðu til að hella sér yfir einhvern.

Neikvæðni og leiðindi eru eyðileggjandi afl sem hver og einn þarf að takast á við í gegnum lífið. Það er hins vegar val hvers og eins hvernig tekið er á slíkri neikvæðni og það segir heilmikið um þroska okkar, hvernig til tekst. Við berum nefnilega öll ábyrgð á eigin hegðun og á því að vera fyrirmyndir fyrir börnin okkar, framtíðinni.

Ég mun tala við nágrannann á morgun en geri mér ekki vonir um skilning eða æðruleysi af hennar hálfu. Ég tel það samt vera rétt til að vera fyrirmynd fyrir dóttir mína og kenna henni að þessi hegðun sé ekki ásættanleg né boðleg af hálfu fullorðinnar manneskju. Það er mitt hlutverk sem uppalenda.  

Já, það er stundum erfitt og allt það, en fyrir alla muni reynum að umgangast hvort annað af virðingu og tillitssemi og munum að aðrir eru mjög líklega í sömu sporum og við sjálf.

Reiði nágrannans hefur ekkert með mína fjölskyldu að gera og við ætlum að skila henni þangað sem hún á heima. 

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Meira