c

Pistlar:

30. ágúst 2016 kl. 14:46

Júlía heilsumarkþjálfi (juliamagnusdottir.blog.is)

Lærðu að elska sjálfa þig!

Við erum flestar sekar um að finnast við ekki vera nóg.

Þrátt fyrir að það sé gott að sjá hvað okkur líkar í fari eða útlit annarra og leggja okkur fram um að veita því viðurkenningu er ekki síður mikilvægt (ef ekki mikilvægara) að leita uppi og viðurkenna eigin kosti.

Ég hef sjálf verið sek að hugsa „ohh þú ert svo feit“. Mér finnst það orðið aðeins of eðlislægt hjá okkur konum að gagnrýna sjálfar okkur.

Svo má velta fyrir sér við hvað er verið að miða þegar slíkar hugsanir koma upp?

Verðum við nóg þegar að við fáum flatan maga og stór brjóst, munum við þá loks geta lifað sáttar við sjálfar okkur?  Eða getum við verið nóg alveg eins og við erum í dag? Því lífið er núna!

Þú ert svo miklu meira en einhver tala á vigtinni eða spegilmynd getur sagt til um. Sjálfsvirðing okkar á ekki að stýrast af hugmyndum annarra um hvernig við eigum að vera.

1

Að vera kona í dag getur verið gríðarlega flókið. Samfélagið virðist gera til okkar óraunhæfar kröfur um hvernig við eigum að líta út. Þær konur sem við sjáum á fjölmiðlum og margir líta upp til eru oftar en ekki að birtast okkur með stýrðu útliti. Þá á ég við að útliti þeirra sé stjórnað af myndvinnsluforritum og lagfært með hinum ýmsu filterum sem gerðir eru til að breyta útliti í átt að þeirri fullkomnu ímynd sem við eigum allar að hafa. Sem betur fer er vitundarvakning um þetta að aukast og það var frískandi að sjá óunnar myndir birtast um helgina af aðalleikonunum Lenu Dunham og Jemima Kirke úr Girls sem báðar fóru fram á að ekki yrði neitt átt við myndirnar af þeim, þær vildu birtast okkur eins og þær raunverulega eru þegar þær sátu fyrir í nærfötum frá Lonely nærfatamerkinu. Fleiri stjörnur taka þátt í þessari byltingu, t.d.  Julia Roberts sem birti ómálaða mynd af sér á instagramminu sínu í því skyni að hvetja konur til að sættast við sjálfar sig alveg eins og þær eru.

Ég tel mun mikilvægara að telja upp kosti sína frekar en kaloríur og að það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf er að vinna í því að vera hamingjusöm og sátt í eigin skinni.

Það er í gegnum sjálfsást sem við öðlumst viljann til að sinna okkur vel, velja mat sem nærir fallegu líkamana okkar og fyllir okkur orku svo við getum náð fram því sem við viljum áorka og hjálpar okkur að halda okkur við hreyfingu.

Að iðka sjálfsást getur verið eins einfalt og að horfa í spegilinn og taka eftir því einhverju sem þú ert sérstaklega ánægð með. Það getur verið að taka utan um sjálfa þig og brosa til þín eða að gera eitthvað notalegt fyrir sjálfa þig eins og þurrbursta líkamann áður en þú ferð í sturtu, að vera góð við líkama þinn í stað þess að horfa framhjá honum.

Sjálfsást er ekki eitthvað sem hægt er að öðlast á einni nóttu heldur langtímaverkefni, ég glími við það á hverjum degi og minni mig reglulega á að ég sé fín alveg eins og ég er.

Ég vona að þetta hvetji þig til að horfa jákvæðari augum til sjálfrar þín því ég er sannfærð um að þú átt það skilið.

Þar til næst.

Heilsa og hamingja,

Júlía heilsumarkþjálfi

Júlía heilsumarkþjálfi

Júlía heilsumarkþjálfi

Heilsumarkþjálfi, vottaður markþjálfi, næringar- og lífsstílsráðgjafi. Stofnandi Lifðu Til Fulls , einnar fremstu heilsumarkþjálfunar hérlendis, www.lifdutilfulls.is sem hjálpar konum og hjónum að léttast, auka orku og fyllast ungleika.

Meira