c

Pistlar:

5. október 2016 kl. 11:03

K Svava (ksvava.blog.is)

Ég er ekki alki fyrir fimm aura...

Nú birtist hvert myndbandið af fætur öðrum og alltaf tengist mitt matarræði við bjór.  Vildi nú samt segja að ég er ekki eins slæm og ég hljóma.  Sumrin eru kannski erfiðust en hverjum finnst ekki gott að fá sér kaldan þegar sólin skín sínu breiðasta og flott tónlist og bara stemmari.  Ég viðurkenni það að það er ekkert voðalega heillandi að setjast út á svalir í svona haustveðri og fá sér einn kaldan.  Þetta er meira félagstengt á veturnar og það gerist sjaldnar en á sumrin, allavega þennan veturinn enda vinna eða skóli aðra hverja helgi.

Vildi nú bara allavega hrista af mér þennan alka stimpil en hef auðvitað gaman og finnst gott að fá mér kaldan, þó þeir séu ekki alveg í forgangi hjá mér.

Annars gengur mjög vel í ræktinni, ég fæ harðsperrur í hina ýmsu vöðva og aldrei alveg laus við þær, það bætast alltaf einhverjar við þegar aðrar fara og við erum farnar að taka betur á og Lilja hætt að tríta okkur eins og börn í bubble plasti.  Á síðustu æfingu kom meira að segja Marta og púlaði með okkur, það fannst mér vel gert.. hún veit þá alveg hvað við erum að ganga í gegnum og kann þetta alveg enda lítur hún mjög vel út.

Matarræðið er í vinnslu, ætli það sé ekki minn veikleiki.  Ég er mjög vel meðvituð um hvað ég þarf að gera og breyta og bæta en ég er ekki nógu ákveðin í að koma þessu í réttan farveg.  Ég reyni að fá mér hafragraut á morgnana og svo er hádegismatur og ég er ferleg í að muna eftir milli máltíðum og stundum kemur kvöldmaturinn og það er misjafnt á hvaða tíma hann kemur.

Smá innskot inn í mitt daglega líf.  Ég er mætt í vinnuna rúmlega 8, stundum sit ég á skrifstofunni en stundum er ég á algjörum þvæling, hvort sem er á hótelinu sjálfu eða út í bæ, vinnudeginum lýkur svo milli 16 og 17, þá er brunað beint í ræktina sem er í Sporthúsinu, hún byrjar kl 17:30 á mán, mið og fim og varir í klukkustund, ef að ekkert breytist og þá þarf maður svo yfirleitt að bruna í HR þar sem að skólahópurinn bíður mín ásamt einhverjum skemmtilegum verkefnum.  Misjafn hvað við erum lengi að en marga daga er ég ekki að koma heim fyrr en rúmlega kl 22 og þá á eftir að setja í vél, vaska upp, elda mat, búa til plan fyrir morgundaginn, hafa föt til, sinna unglingnum (ef að hann er heima), athuga hvort að kettirnir séu á lífi og svo þarf maður víst líka að einbeita sér að því að sofa.

Annars er ég að byrja í nýrri vinnu í næstu viku, kannski verður þetta aðeins auðveldara þá en þetta er 12 tíma vaktarvinna og þá koma einhverjir frídagar inn á milli en þá verður önnur hver helgi skóli og hin hver vinna og þá eflaust minnkar bjórdrykkjan af sjálfu sér (broskall)

Þetta er allt work in progress og K-ið í K Svava stendur fyrir Keppnis, þeir sem að mig þekkja, vita að ég er sjálfri mér verst og reyni að leggja allt mitt af mörkunum.  Fjórða vika að byrja í dag, mælingar í næstu viku.. nú keyrum við þetta í botn.

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira