c

Pistlar:

11. janúar 2019 kl. 16:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sala ríkisbanka - verkefni ársins

Fyrir hrun bankanna 2008 var stærð þeirra yfirþyrmandi í öllu samhengi. Nú er stærð þeirra í ríkisreikningnum einnig yfirþyrmandi en það er helst eins og ekki megi benda á það. Undanfarið hefur farið fram umræða um hversu fráleitt það sé að íslenska ríkið eigi megnið af bankakerfinu, þar á meðal nánast Landsbanka og Íslandsbanka að fullu. Margt bendir til þess að eignarhaldið verði eitt helsta umræðuefni ársins í viðskiptalífinu. Miklu skiptir að skynsamlega niðurstaða fáist.

Á síðasta ári losnaði um eignarhald ríkissjóðs á Arion banka. Seldi þá ríkið 13% hlut í bankanum fyrir 23,4 milljarða króna. Er bankinn eftir þau viðskipti í samkeppni við tvo viðskiptabanka, Íslandsbanka og Landsbanka. Ríkissjóður á 98 prósent hlutafjár í Landsbankanum og 100 prósent hlutafjár í Íslandsbanka.

Stefnan er að selja en hvað dvelur?

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji draga úr eignarhaldi ríkisins í bönkunum en um leið að ríkissjóður verði leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einum þeirra. Fram kemur í eigendastefnu ríkisins að lítið hafi verið á eignarhald ríkisins á hlutum í bönkunum sem tímabundið fyrirkomulag þótt ástæða geti verið til að halda einhverjum hlutum áfram í eigu ríkisins. Þetta gæti sagt okkur, að þegar menn horfa á stöðuna blasir við að ríkið verður að selja en ummæli einstaka ráðherra benda ekki til þess að pólitískur kjarkur sé fyrir því að gera nokkuð. Það getur verið hættuleg niðurstaða.

Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kom út hinn 10. desember síðastliðinn en hún var gerð að frumkvæði fjármálaráðherra. Þar er lagt til að kannaður verði möguleikinn á því að selja Íslandsbanka í heild eða að hluta til erlends banka. Þá leggja höfundar til að hafinn verði undirbúningur á sölu á hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum einnig.bank


Ríkið tekur áhættu með bönkunum

Vissulega var tekið jákvætt skref með sölu bréfanna í Arion banka á síðasta ári en það dugar ekki eitt og sér. Það er nefnilega ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem ríkissjóður er í með hinni gríðarstóru stöðutöku í Íslandsbanka og Landsbanka. Í lok september síðastliðins var ríkissjóður með ríflega 400 milljarða króna bundna í eigin fé þeirra. Því fylgir augljóslega mikil áhætta sem endurspeglast ekki síst í þeim miklu breytingum sem eru að verða á fjármálamörkuðum þessi misserin.

Flestir sem rýna í fjármálaheiminn telja að veruleg hætta sé á að verðmæti bankanna rýrna að verðgildi á komandi árum, bæði vegna aukinnar samkeppni af hendi lífeyrissjóða en ekki síður fjártæknifyrirtækja af ýmsum toga sem nú ryðja sér til rúms eins og Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritsstjóri Morgunblaðsins, benti á í ágætum pistli í áramótablaði blaðsins. Tæknibyltingin virðist einnig opna möguleika á samkeppni að utan en undir lok árs voru fréttir fluttar af því að þýski netbankinn N26 hygðist bjóða Íslendingum upp á þjónustu sína. Enn liggur ekki fyrir hvaða viðtökur þjónusta hans mun fá en hann er með yfir 1,5 milljónir viðskiptavina þótt hann hafi aðeins hafið starfsemi árið 2015. Þetta sýnir glögglega að breytingar eru framundan og eignarhald ríkisins er ekki besta leiðin til að tryggja samkeppnishæfni bankanna og varðveita verðmæti þeirra.

Heimild í fjárlögum

Í fjárlögum ársins 2019 er áréttuð heimild ríkissjóðs til að selja hlut sinn í Íslandsbanka og allt að 30% hlut í Landsbankanum. Fátt bendir til þess að fjármálaráðherra hafi stuðning samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn til að stíga skref í átt að sölu verulegs hluta í bönkunum en ánægjulegt væri að sjá hið minnsta annan þeirra skráðan á markað samhliða útboði á nýju ári. Það myndi styrkja íslenskan hlutabréfamarkað en einnig gefa fjármálaráðherra tækifæri til að grynnka enn á skuldum ríkissjóðs sem nú í árslok námu um 843 milljörðum króna. Fjármagnskostnaður vegna þeirra skulda nemur um 40 milljörðum ár hvert. Gríðarlega mikilvægt er að lækka þann vaxtakostnað því hann býr til raunverulegt svigrúm hj´aríkissjóði til aðgerða.

Staðreyndin er sú að fjárbinding ríkisins í bönkunum og sú áhætta sem því er samfara er ekki réttlætanleg þegar tekið er tillit til allra þeirra verkefna sem ríkissjóður þarf að framkvæma, svo sem í innviðum landsins.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.