c

Pistlar:

17. maí 2019 kl. 19:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Krónan er ekki vandamál

Stundum kann að virðast að heldur þröngum sjónarhornum sé haldið að íslenskum fjölmiðlanotendum þegar kemur að tilteknum málum sem geta orðið fyrirferðamikil í umræðunni. Svo virðist að tiltekin bergmálsherbergi verði fyrirferðamikil enda skiptir miklu að Ríkisútvarpinu er umhugað um að halda þeim við. Freistandi gæti verið að nefna mál er varðar íslenskt sjálfstæði en Ríkisútvarpið og tengdir fjölmiðlar virðast hallir undir þá alþjóðahyggju sem þeir telja sig finna innan Evrópusambandsins. Þannig er algerlega horft framhjá þeim innanmeinum sem þar má finna eða þá hagsmuni sem það er að verja. Með líkum hætti er ákaflega einhæfur fréttaflutningur af embættisverkum Donalds Trump Bandaríkjaforseta og þá alþjóðapólitík sem umlykur forsetann. Af sama meiði er umfjöllun um Brexit og þær áskoranir sem það hefur fært Englendingum og ekki síður Evrópusambandinu.

Því getur verið hressandi að lesa viðtöl við útlendinga sem gefa aðra sýn á hlutina. Hér í pistli fyrir skömmu var rakið það sem Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, sagði í stuttri heimsókn hingað til lands en hann sagði margt sem stangaðist á viðteknar skoðanir hér á landi um alþjóðaviðskipti, tilurð bankahrunsins og eftirmála þess.vidsk

Erlendir fjárfestar setja krónuna ekki fyrir sig

David Witzer, framkvæmdastjóri Fossa markaða í London, var í viðtali við Viðskiptablaðið í gær en Viðskiptablaðið er miðill sem Ríkisútvarpið vitnar sjaldan til. Witzer er fæddur og uppalinn í London og hefur lifað og hrærst í bresku fjármálakerfi í áratugi. Hann var meðeigandi og einn af stjórnendum sjóðstýringafyrirtækisins Rogge Global Partners Ltd., sem var selt til Allianz árið 2016. Fyrirtækið var með 130 starfsmenn og 60 milljarða dollara í stýringu, ríflega 7.000 milljarða íslenska króna, og sérhæfði sig í viðskiptum með skuldabréf. Nú starfar hann semsagt hjá Fossum og hefur rýnt íslenskt viðskiptalíf.

Í viðtalinu kom margt athyglisvert fram. Witzer sagði til dæmis að fjárfestar setji almennt ekki fyrir sig þá staðreynd að Ísland sé með sjálfstæða mynt, krónuna, heldur eru það fremur gjaldeyrishöft bæði til og frá Íslandi sem hindrað hafa fjárfestingar hingað. „Sveiflur á gengi krónunnar er ekki vandamál. Miklum fjárhæðum er fjárfest í ýmsum gjaldmiðlum sem sveiflast mikið. Það sem skiptir fjárfesta mestu máli er frelsi og sveigjanleiki til að geta gert það sem þú vilt við gjaldmiðilinn og það hefur verið vandamálið.“ Kveður hér við annan tón en við eigum að venjast. Krónan er bara ekki vandamálið í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi. Nei, mikilvægara er að hafa regluverkið í lagi og ekki íþyngjandi.

Ótrúlegur árangur í markaðsstarfi

Einnig fór Witzer fögrum orðum um markaðssetningu á landinu og sagði reyndar að Íslendingar hefðu náð öfundsverðum árangri því sviði. „Markaðsstarfið sem Ísland hefur unnið er ótrúlegt. Mörg lönd dreymir um að hafa jafn marga sem langar að sækja það heim og Ísland hefur,“ segir hann í viðtalinu við Viðskiptablaðið. Því eigi Íslendingar ekki að óttast það þó að það verði samdráttur í íslensku hagkerfi á þessu ári. „Það eru enn mjög margir sem hafa ekki komið til Íslands og langar til þess.“ Hann bendir til að mynda á að mjög auðvelt sé að fá erlenda fjárfesta til Íslands því flesta langi að heimsækja landið. „En þeir kæmu ekki nema tækifærin væru líka góð.“

Witzer segir í viðtalinu við Viðskiptablaðið að hann eigi ekki von að skammvinn niðursveifla sem kann að verða á þessu ári hafi mikil áhrif á áhuga fjárfesta á Íslandi. „Hagkerfið er byggt upp á mun sterkari grunni og mun fleiri stoðum en árið 2008. Maður veltir fyrir sér hvort hótelmarkaðurinn og fasteignamarkaðurinn hafi ofhitnað aðeins. En almennt er mikið vit í hvernig fólk hefur verið að fjárfesta núna og það er ekki byggt í jafn miklum mæli á skuldsetningu og áður.“vid2

London áfram fjármálamiðstöð

En líklega kemur mörgum á óvart það sem Witzer segir um Brexit og áhrif þess á fjármálakerfi Englands. Hann segist ekki eiga von á því að útganga Breta úr Evrópusambandinu muni hafa veruleg áhrif á London sem fjármálamiðstöð.

„Óttinn við útgöngu hefur aðeins verið ýktur því að starfsmenn sem búa í London vilja almennt ekki flytja þaðan. Þó að það hljómi vel út frá sköttum að búa í Lúxemborg hefur London upp á svo margt annað að bjóða. Myndi ég vera tilbúinn að flytja til Lúxemborg, Dublin eða Frankfurt í eitt til tvö ár? Líklega, en ekki vera þarna um lengri tíma. Fjármálafyrirtækin hafa alla jafna valið að vera áfram í London þar sem hægt er að velja starfsfólk úr mun breiðari hópi. Eftirlitsaðilar hafa líka unnið skynsamlega og gefið til kynna að fjármálakerfið í Evrópu muni starfa áfram hvað sem gerist. Ég held að áhyggjur þeirra sem starfa í fjármálageiranum hafi minnkað töluvert vegna Brexit.“

Þetta verða að teljast athyglisverð ummæli, ekki síst vegna þess að þau koma heim og saman við það sem Mervyn King segði í Íslandsheimsókn sinni. Getur verið að það ætti að horfa minna á hinn pólitíska vandræðagang í kringum Brexit og skoða betur raunveruleg áhrif á atvinnulífið? Til dæmis veit sá er þetta ritar af íslenskum fjárfestum sem hyggjast auka viðskipti sín í Bretlandi í kjölfar Brexit. Skyldi Ríkisútvarpið vita af því?