c

Pistlar:

28. nóvember 2019 kl. 20:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einstök nýting jarðhita

Frá því í byrjun árs hefur verið unnið að því að tengja íbúa á Höfn í Hornafirði við nýja hitaveitu. Er talið að á næsta ári verði búið að tengja alla íbúa bæjarins við hitaveituna og fyrir vikið verða þeir komnir með ódýra og umhverfisvæna lausn í húshitunarmálum, rétt eins og þorri landsmanna. Þetta eru mikil tíðindi enda var Hornafjörður lengi talin til kaldra svæða. En eftir því sem tækni og þekkingu fleygir fram tekst að fylla í fleiri göt jarðhitaveitna á landinu og færa íbúum góða, umhverfisvæna en þó umfram allt ódýra húshitun.

Það er flestum ljóst að í okkar harðbýla landi gekk lengst af illa að halda hita á landsmönnum, til ómælds tjóns fyrir gróðurfar landsins. Í hundruð ára hvíldu Íslendingar undir brekánum í óupphituðum torfbaðstofum og hafði hita hver af öðrum og húspeningnum. Við flutninginn úr torfbæ í timburhús eða steinhús í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu óx þörfin fyrir upphitun sem í fyrstu fékkst með því að brenna kolum eða mó í ofnum. Víða fór að tíðkast að leggja miðstöðvar í hús og um 1928 er áætlað að fjórðungur Reykvíkinga hafi haft miðstöðvar til hitunar. Slík upphitun auðveldaði að tengja húsin hitaveitu þegar fram liðu stundir eins og rakið er ágætlega í yfirlitsskýrslu frá Samorku sem hér er stuðst við.hitav

Kol til húshitunar

Kostnaðurinn við upphitunina óx eðlilega mörgum i augum. Eldsneytið var fram undir miðja síðustu öld að mestu leyti kol en um það leyti var einnig tekið til við að kynda með olíu. Eldsneytið var allt innflutt og skapaði koldíoxíðbruna. Verð á því réðst af aðstæðum í heiminum sem Íslendingar sjálfir réðu litlu um. Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar rauk verð á kolum upp úr öllu valdi og sama var uppi á teningnum í þeirri síðari. Olíukreppur gengu yfir heiminn þegar kom fram yfir miðja öldina og hækkuðu húshitunarkostnað verulega. Fljótlega eftir að tekið var til við að kynda hús með kolum komu upp hugmyndir um að hagnýta jarðhitann til húshitunar.

Tilraunir sem gerðar voru sýndu að slíkt var tæknilega framkvæmanlegt og gat verið hagkvæmt. Ekki síst var ýmsum ofarlega í huga hversu mikið fé Reykvíkingar gætu sparað ef bærinn yrði hitaður með hveravatni auk þess sem slík upphitun væri „hollari“ en með kolum. Tími jarðhitanýtingar og tækniþróunar hélt innreið sína og segja má að alla 20. öldina hafi Íslendingar verið að þróa og læra að beisla á hagkvæman hátt jarðhita hér við land. Í árslok 2006 voru 22 hitaveitur hér á landi sem dreifðu og seldu heitt vatni á veitusvæðum sínum öllum til hagsbóta. Hefur verið áætlað að Íslendingar hafi sparað sér sem nemur ríflega einni landsframleiðslu með nýtingu jarðhita. Eins og framkvæmdir við Hornafjörð sýna er enn verið að fylla í götin til gríðarlegra hagsbóta fyrir landsmenn sem eru í fremstu röð í heiminum á sviði jarðhitanýtingar og flytja nú út reynslu og þekkingu á þessari umhverfisvænu orkuöflun.

Eldri kynslóðir geta borið höfuðið hátt

Þegar á þetta er litið er einkennilegt að tala eins og Íslendingar séu umhverfissóðar eða mengunarvaldar. Og það allt á ábyrgð eldri kynslóða! Þvert á móti, eldri kynslóðir Íslendinga hafa staðið sig með mikilli prýði og komið íslenskum orkubúskap í einstaka stöðu. Þegar horft er aftur til miðrar síðustu aldar þá sést að þáttur jarðefnaeldsneytis í hagkerfinu hefur minnkað hratt með því að nýting jarðhita og vatnsfalla hefur leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi við hitun húsnæðis. Við höfum unnið þrekvirki og nýtum allra þjóða mest slíka orku til heimilisnota.

Um þessar mundir nemur hlutdeild þessara innlendu orkulinda tæplega 70% af heildarorkunotkun landsmanna. Á heimsvísu var þetta hlutfall 19,3% árið 2015. Þar skilur á milli. Með áframhaldandi leit á köldum svæðum má gera ráð fyrir að hlutfall hitaveitna við húshitun fari yfir 90%. Það er einstakt.