c

Pistlar:

4. janúar 2021 kl. 10:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Viska kauphallarinnar

Það er merkilegt að sjá að víða um heim hafa kauphallavístölur hækkað myndarlega og sú íslenska er þar engin undantekning. Úrvalsvísitalan hækkaði um 20,5% á árinu sem er kannski en merkilegra í því ljósi að hún var búin að lækka um 22% um miðjan marsmánuð, skömmu eftir að kórónuveiran lét til sín taka. Umsnúningurinn er því verulegur síðan þá og þrátt fyrir samdrátt í hagkerfinu þá virðist vaxtalækkunin hafa dugað til að halda gleðinni í kauphöllinni. Er nú svo komið að vextir á Íslandi hafa ekki verið lægri og það án þess að séð verði að verðbólgan hafi farið á skrið. Er nýlið ár kannski vísbending um að hagstjórn macrohagkerfisins hafi tekist? Í það minnsta getur Seðlabankinn nokkuð vel við unað með því að halda sjó, bæði hvað varðar gengi og verðbólgu.kauph

Kauphallarviðskipti fjörleg

Heildarviðskipti með skráð hlutabréf hér á landi námu 602 milljörðum króna á árinu 2020. Það er um 2.417 milljónir á dag eða lítillega minna en í fyrra þegar heildarviðskiptin voru um 2.476 milljónir á degi hverjum. Mest viðskipti voru með bréf Marels á árinu eða 103,2 milljarðar króna. Það ætti ekki að koma á óvart, Marel er nú stærsta félaga landsins. Þar á eftir var Arion banki, 79,4 milljarðar króna og svo Festi þar sem heildarviðskiptin voru um 43,7 milljarðar kr. Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland fyrir árið 2020 og greint var frá á vef mbl.is í morgun.

Óvenjulegt ár á markaðnum

„Það er óhætt að segja að árið hefur verið mjög óvenjulegt á markaði en Covid-19 skapaði mikinn óróa hér sem annars staðar,“ segir Finnbogi Rafn Jónsson, forstöðumaður viðskipta og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland í samtali við mbl.is og bætir við: „En markaðurinn stóð veðrið af sér. Úrvalsvísitalan hækkaði t.a.m. um 20,5% á árinu og skráð félög öfluðu sér 29 milljarða á markaði í haust auk þess að nýta hlutabréf sín sem gjaldmiðil við yfirtökur. Hæst bar útboð Icelandair Group sem var það þriðja stærsta í sögu markaðarins. Þar lét almenningur til sín taka svo um munaði og tvöföldun varð á fjölda einstaklinga á markaðnum.“

Kvika í sér­flokki og Icelandair flýgur hátt

Á aðal­markaði kauphallarinnar hækkaði verð bréfa Kviku banka mest á árinu eða um 63,5% en þar á eftir bréf TM sem hækkuðu um 53,6% og bréf Origo sem hækkuðu um 50,9%. Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Hampiðjunnar mest eða um 75%. Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.563 milljarðar samanborið við 1.251 milljarð í lok árs 2019 sem er 24% hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nasdaq First North.

Það er auðvitað ekki hægt að tala um íslenska hlutabréfamarkaðinn án þess að tala um gengi Icelandair sem réðist í stórt og óvenjulegt hlutafjárútboð í haust. Útboðið tókst vonum framar og virðist hafa aftur kallað hinn venjulega fjárfesti inn á markaðinn eins og Finnbogi Rafn benti á. Vonandi er það vísbending eftir að fleiri og áhugaverð fyrirtæki komi inn í kauphöllina en á síðast ári var einmitt kallað eftir því í pistli hér.